Nr. 32/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 17. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 32/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU23100004
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 29. september 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bandaríkjanna ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli náms, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn hennar um endurnýjun á dvalarleyfi sínu hér á landi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi 21. september 2022 með gildistíma til 15. júlí 2023. Hinn 15. maí 2023 lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfisins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2023, var umsókn kæranda synjað. Kemur þar fram að fylgigögn með umsókn kæranda hafi verið ófullnægjandi, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefði því ekki sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði laga um útlendinga um dvalarleyfi fyrir meistaranema og hafi umsókn hennar því verið synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála 29. september 2023. Frekari gögn bárust frá kæranda 3. október 2023.
Með tölvubréfi, dags. 26. október 2023, óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann sama dag féllst kærunefnd á þá beiðni kæranda.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru kæranda kemur fram að kærandi telji ákvörðun Útlendingastofnunar byggja á misskilningi af hálfu stofnunarinnar. Kærandi sé með rétt skjöl til að endurnýja umsókn sína. Hinn 15. maí 2023 hafi kærandi lagt fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi sínu sem rynni út 15. júlí 2023. Hinn 4. júlí 2023 hafi hún sent tölvubréf til stofnunarinnar þar sem hún hafi óskað eftir upplýsingum um stöðu umsóknarinnar. Henni hafi síðan borist bréf um að gögn sem sýndu fram á framfærslu hennar væru ófullnægjandi og hún þyrfti að leggja fram ný gögn. Bréfið hafi verið dagsett 16. júní 2023 en henni hafi ekki borist það fyrr en 18. júlí 2023 þegar hún hafi óskað eftir því að fá það sent. Hinn 18. júlí 2023 hafi kærandi lagt fram ný gögn um framfærslu sína sem Útlendingastofnun hafi samþykkt. Hinn 1. ágúst 2023 hafi hún fengið tölvubréf frá Útlendingastofnun þar sem fram hafi komið að hin tvö skjölin, þ.e. skjal um námsárangur og skjal um innritun í fullt nám, hafi vantað. Kærandi hafi útskýrt fyrir stofnuninni að þau skjöl hefðu þá þegar verið samþykkt af stofnuninni og hafi lagt fram bréf frá 18. júlí 2023 því til sönnunar. Hún hafi engar frekari upplýsingar fengið frá Útlendingastofnun og hafi gert ráð fyrir því að umsókn hennar væri enn til meðferðar. Hinn 25. september 2023 hafi kærandi fengið tölvubréf um að umsókn hennar hefði verið synjað á þeim grundvelli að nauðsynleg gögn hefði vantað. Kærandi hafi hringt í Útlendingastofnun og hafi verið ráðlagt að senda tölvubréf. Hún hafi engin svör fengið frá stofnuninni og hafi því ákveðið að kæra ákvörðunina. Kærandi sé á miðju öðru ári í meistaranámi og fái laun frá háskólanum sem séu háð stöðu dvalarleyfis hennar.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 65. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna náms. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Í 2. mgr. ákvæðisins er fjallað um skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu en þau eru m.a. að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga og útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla. Í 6. mgr. 65. gr. kemur fram að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Þá kemur fram í 7. mgr. 65. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi meistara- og doktorsnema sem vinna að lokaverkefni þrátt fyrir að engum einingum hafi verið lokið á leyfistíma liggi fyrir staðfesting á námsframvindu frá viðkomandi skóla.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis og samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga skulu umsókn um dvalarleyfi fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði laga, reglugerðar og annarra stjórnvaldsfyrirmæla. Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan.
Af hinni kærðu ákvörðun verður ráðið að hún hafi lotið að því að kærandi hafi ekki uppfyllt efnisskilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Með réttu hefði hin kærða ákvörðun því átt að vera reist á þeim lagagrundvelli en ekki 1. mgr. 52. gr. laganna.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi útgefið dvalarleyfi fyrir meistaranema hér á landi 21. september 2022 með gildistíma til 15. júlí 2023. Kærandi lagði fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfisins 15. maí 2023. Með tölvubréfi, dags. 16. júní 2023, óskaði Útlendingastofnun eftir því við kæranda að hún legði fram gögn sem sýndu fram á framfærslugetu hennar á tímabilinu, námsárangur og staðfestingu á skráningu í fullt nám, þ.e. 30 einingar á hverri önn. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að skila inn umræddum gögnum. Með tölvubréfi, dags. 4. júlí 2023, óskaði kærandi eftir upplýsingum um umsókn sína. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 18. júlí 2023, var kæranda bent á fyrrnefnda gagnabeiðni, dags. 16. júní 2023. Með tölvubréfi frá kæranda, dags. 19. júlí 2023, bárust Útlendingastofnun gögn sem sýndu fram á framfærslugetu kæranda á tímabilinu. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 1. ágúst 2023, var kærandi að nýju upplýst um að gögn um námsárangur og staðfestingu á fullu námi væru ekki fullnægjandi. Með tölvubréfi kæranda, dags. 1. ágúst 2023, taldi kærandi að umbeðin gögn hefðu þegar borist stofnuninni og verið samþykkt. Hinn 20. september 2023 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að synja beiðni kæranda á þeim grundvelli að ekki hefðu legið til grundvallar fullnægjandi gögn þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir stofnunarinnar.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Háskóla Íslands er fullt nám 30 einingar (ECTS-einingar) á önn. Með umsókn sinni um endurnýjun á dvalarleyfi lagði kærandi fram yfirlit yfir námsárangur haustannar 2022 og staðfestingu á skráningu í áfanga á vorönn 2023. Samkvæmt því yfirliti uppfyllti kærandi kröfur um bæði námsárangur og skráningu í fullt nám á haustönn 2022 og vorönn 2023. Kærandi lagði jafnframt fram skjáskot af innrivef Háskóla Íslands sem sýnir að hún sé skráð í lokaverkefni bæði á haustönn 2023 og vorönn 2024 og að áætlað sé að kærandi útskrifist í júní 2024. Á því skjali er lokaverkefnið þó aðeins skráð sem ein eining á hvorri önn en samkvæmt upplýsingum um nám kæranda á vefsíðu Háskóla Íslands er lokaverkefni námsins 60 einingar og tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvær annir. Kærunefnd telur að kæranda hafi með réttu borið að leggja fram gögn sem sýndu fram á nákvæman fjölda skráðra eininga en eftir skoðun kærunefndar á skipulagningu námsins telur nefndin þó að þau gögn sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og upplýsingar á vefsíðu háskólans sýni fram á að hún sé skráð í fullt nám í Háskóla Íslands.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á beiðni kæranda um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli náms hér á landi felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda endurnýjun á dvalarleyfi sínu, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga, uppfylli hún önnur skilyrði til veitingu slíks leyfis.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að endurnýja dvalarleyfi kæranda, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to renew the appellants residence permit based on article 65(6) of the Act on Foreigners.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares