Rafrænn viðskiptafundur Íslands og Slóvakíu um heilbrigðistækni og lífvísindi
Samstarf Íslands og Slóvakíu á sviði heilbrigðistækni og lífvísinda var efst á baugi á rafrænum viðskiptafundi landanna sem haldið var í dag. Fjögur fyrirtæki frá hvoru ríki kynntu þar starfsemi sína.
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, flutti opnunarerindi á fundinum fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
„Ísland og Slóvakía standa framarlega á sviði heilbrigðistækni og lífvísinda og markmiðið með þessum viðburði var að tengja saman fyrirtæki sem starfa í þessum geira. Yfir hundrað íslenskir námsmenn leggja nú stund á læknisfræði og dýralækningar í Slóvakíu og gera má ráð fyrir að margir þeirra muni starfa á Íslandi í framtíðinni og viðhaldi þannig öflugum tengslum við Slóvakíu. Í þessu felast tækifæri til aukins samstarfs,“ sagði í ávarpinu.
Ivan Korčok , utanríkis- og Evrópumálaráðherra Slóvakíu, ávarpaði jafnframt fundinn. Auk þess fjölluðu Thor Aspelund, prófessor við Háskóla Íslands, og Pavol Cekan, sem er doktor í efnafræði frá Háskóla Íslands og stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Multiplex, um nýsköpun á sviði lífvísinda í ríkjunum. Í kjölfarið héldu íslensku fyrirtækin ArcanaBio, Epiendo, Nordverse og Retina Risk og slóvakísku fyrirtækin Diagnose.me, Geneton, MultiplexDX og R-DAS stuttar kynningar. Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Slóvakíu, stýrði fundinum.
Fundurinn er hluti af rafrænni viðskiptafundaröð sem utanríkisráðuneytið stendur fyrir í samvinnu við Íslandsstofu, aðrar utanríkisþjónustur og samstarfsaðila í viðkomandi ríkjum. Markmiðið er að búa til vettvang fyrir íslensk fyrirtæki til að kynna vörur sínar og þjónustu erlendis, og finna nýja samstarfsaðila, nú þegar ferðalög á milli landa liggja að mestu niðri.
Horfa má á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.