Viðurkenningar veittar fyrir bestu opinberu vefina
Niðurstöður úttektar á opinberum vefjum voru kynntar á fundi í dag undir yfirskriftinni: Hvað er spunnið í opinbera vefi 2011? Jafnframt var í fyrsta sinn veitt viðurkenning fyrir bestu vefina. Hlaut vefur Tryggingastofnunar viðurkenninguna besti ríkisvefurinn 2011 og vefur Akureyrarbæjar viðurkenninguna besti sveitarfélagavefurinn 2011.
Innanríkisráðuneyti og Skýrslutæknifélag Íslands stóðu að fundinum en úttekt á opinberum vefjum fór nú fram í fjórða sinn. Í fyrsta skipti eru nú veittar viðurkenningar fyrir besta ríkisvefinn og besta sveitarfélagavefinn. Sett var á fót dómnefnd sem í sátu:
- Marta Kristín Lárusdóttir, lektor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík,
- Helga Arnardóttir, fréttamaður á Stöð 2,
- Rakel Pálsdóttir, forstöðumaður almannatengsla hjá Samtökum iðnaðarins.
Dómnefndin fékk í hendur lista yfir 5 bestu vefi ríkistofnana/ráðuneyta og 5 bestu vefi sveitarfélaga samkvæmt niðurstöðum úttektar Deloitte. Listinn var í stafrófsröð og ekki kom fram á honum einkunn hvers vefs.
Fimm bestu vefirnir úr hópi ríkisvefja eru vefir:
- Fiskistofu
- Háskólans á Akureyri
- Neytendastofu
- Tollstjóra
- Tryggingastofnunar
Fimm bestu vefirnir úr hópi sveitarfélagavefja eru vefir:
- Akureyrarbæjar
- Garðabæjar
- Mosfellsbæjar
- Reykjavíkurborgar
- Seltjarnarness
Dómnefndin skoðaði þessa 10 vefi og mat þá sjálfstætt með tilliti til ýmissa þátta sem ekki eru metnir í úttektinni. Var meðal annars metið huglægt hversu auðvelt er að rata um vefinn/finna upplýsingar, útlit/hönnun vefsins og almennt viðmót hans. Dómnefnd hafði fullt frelsi til að ákveða hvaða þættir réðu úrslitum.
Besti ríkis-vefurinn er að mati dómnefndar:
Vefur Tryggingastofnunar – TR.IS
Dómnefnd rökstyður val sitt á eftirfarandi hátt:
Vefurinn tr.is geymir gríðarlegt magn upplýsinga sem settar eru fram á skýran og aðgengilegan hátt. Yfirlit á forsíðu er mjög skýrt og vel uppsett svo notendum vefsins veitist auðvelt að finna svör við spurningum sínum í öllum málaflokkum. Verkfæri vefsins eru einföld í notkun. Útlit vefsins er stílhreint og myndvinnsla vel útfærð með hverjum málaflokki. Viðmótið er hlýlegt og mannlegt.
Marta Kristín Lárusdóttir, lektor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og einn fulltrúa í dómnefnd, gerði grein fyrir starfi nefndarinnar. Ögmundur Jónasson afhenti síðan viðurkenninguna og tók við henni Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, ásamt nokkrum samstarfsmanna sinna.
Besti sveitarfélaga-vefurinn er að mati dómnefndar:
Vefur Akureyrarbæjar – AKUREYRI.IS
Dómnefnd rökstyður val sitt á eftirfarandi hátt:
Aðgengi upplýsinga á akureyri.is er til fyrirmyndar. Forsíða gefur gott yfirlit um innihald hans og uppsetning er skýr og skilmerkileg. Leitarniðurstöður eru sérlega skipulega framsettar. Vefurinn er vel tengdur við aðra starfsemi í bænum sem eykur gildi hans verulega. Útlitshönnun vefsins er nýstárleg, stílhrein, skipulögð og einstaklega falleg. Samspil mynda og efnisflokks mjög vel unnið. Viðmót vefsins er hlýlegt og þægilegt.
Ögmundur Jónasson afhenti síðan viðurkenninguna og tók við henni fyrir hönd Akureyrarbæjar Kristján Ævarsson.
Í upphafi kynnti Halla Björg Baldursdóttir, forstöðumaður rafrænnar stjórnsýslu, Þjóðskrá Íslands, aðdraganda og markmið úttektar og síðan kynntu þeir Jón Kristinn Ragnarsson, sérfræðingur og Tryggvi R. Jónsson, liðsstjóri, áhættuþjónustu Deloitte hf., framkvæmd og úrvinnslu og helstu niðurstöður hennar.
Opinberir vefir í framför
Úttekt á opinberum vefjum ríkis og sveitarfélaga fór fram í fjórða skiptið 2011. Alls voru skoðaðir 267 vefir ríkisstofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga. Metið var samkvæmt gátlista hve vel vefirnir uppfylltu kröfur vefhandbókar ríkisins um aðgengi, nytsemi, innihald og þjónustu. Var úttekin með sama sniði og áður en efnisatriði hvers þáttar voru endurskoðuð í samræmi við breyttar kröfur og tækni. Opinberu vefirnir höfðu bætt sig í öllum þáttum frá síðustu úttekt nema þjónustu en skýrist það með breyttri matsaðferð. Sé litið til þjónustu sérstaklega bera skólastofnanir af í þeim þætti. Almennt er hægt að segja að opinberir vefir séu farnir að bæta sig að nýju og eru að hækka í samanburði við fyrri kannanir.
Niðurstöðurnar eru þessar í stuttu máli:
• Opinberir vefir 2011 sýna að jafnaði framför frá úttektinni 2009. Allar gerðir stofnana hækka sig milli ára í öllum þáttum að þjónustu undanskilinni sem breytist ekki milli ára sé tekið tillit til breytinga á mælikvarða.
• Ráðuneyti koma betur út en aðrar stofnanir í innihaldi og aðgengi. Almennt dregur þó saman með mismunandi stofnunum milli 2009 og 2011.
• Aðgengi er sá þáttur sem að jafnaði kemur verst út hjá opinberum vefjum. Aukin áhersla er nauðsynleg á þennan þátt bæði vegna þarfa ýmissa hópa, svo sem blindra og fatlaðra, auk þess sem gott aðgengi að vef gerir hann nothæfari á fleiri gerðum vafra og tækja. Þá verður hann einnig aðgengilegri fyrir leitarvélar.
• Stig þjónustu á opinberum vefjum er að mestu óbreytt frá 2007. Væntingar og þarfir fólks til þjónustu á vefnum hafa aukist á síðustu fimm árum og ný tækni hefur komið fram til að mæta þeim þörfum. Því er líklegt að þjónusta muni batna á næstu árum.
Lokaerindið hélt Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og fjallaði hann um efnið horft fram á veg – hvað má betur fara á opinberum vefjum. Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, sleit síðan fundi með lokaorðum.
Upplýsingar um könnunina má finna á UT-vefnum.