Nr. 117/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 28. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 117/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19020023
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 7. febrúar 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Tyrklands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 26. apríl 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 5. desember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 21. janúar 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 7. febrúar 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 22. febrúar 2019. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana, trúarskoðana, stöðu sinnar í tilteknum þjóðfélagshópi og vegna þjóðernis síns.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur í Kahramanmaras í Tyrklandi en hann og fjölskylda hans hafi flust mikið á milli staða. Einnig hafi kærandi verið búsettur í Elbistan, Nurhak, Ceyhan, Iskenderun, Tarsus, Mardin og Antalya. Kærandi sé af þjóðarbroti kúrmanji Kúrda og aðhyllist trúarbrögð aleva. Kærandi kveður trúarbrögð aleva frábrugðin trúarbrögðum meirihlutans sem séu súnní-múslimar. Alevar biðji ekki fimm sinnum á dag líkt og flestir múslimar og hittist á stöðum sem nefnist cemevi þar sem eigi sér stað samvera og samræður, en trúarbrögðin byggist á kærleika. Kærandi kveðst vera stuðningsmaður HDP stjórnmálaflokksins og leiðtoga hans, Selahattin Demirtas. Kærandi hafi kosið flokkinn og tekið þátt í samkomum og mótmælum sem flokkurinn hafi efnt til. Mörg skyldmenni kæranda í móðurætt hafi verið meðlimir flokksins en þurft að flýja land og séu nú flóttamenn í Englandi og Kanada. Það eigi m.a. við um bróður kæranda og hafi kærandi oft verið spurður af herlögreglumönnum um ferðir bróður síns í kjölfar flótta hans. Foreldrar kæranda hafi aðstoðað við kosningabaráttu HDP flokksins og hafi þau hlotið fangelsisrefsingu vegna þess. Þá sé fyrrum eiginkona kæranda búsett á Englandi ásamt tveimur börnum þeirra. Enn fremur hafi tveir bræður kæranda verið myrtir á unglingsaldri af hermönnum og ekkert réttlæti hafi fengist. Kærandi hafi orðið fyrir mismunun og áreiti allt sitt líf þar sem hann sé Kúrdi og alevi. Kærandi hafi fyrst orðið vitni að ofbeldi lögreglu gegn föður sínum þegar hann hafi verið u.þ.b. 13-14 ára gamall og um það leyti hafi ofbeldið einnig farið að snúast að honum. Kærandi hafi orðið fyrir niðurlægingu og slæmu viðmóti vegna uppruna síns og hafi ekki verið litið á hann sem manneskju. Þá sé sérstaklega erfitt að vera hvoru tveggja Kúrdi og alevi. Þá verði báðir hópar fyrir mismunun m.a. varðandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá séu Kúrdar og alevar á meðal þeirra sem séu í hættu á að vera settir í fangelsi á grundvelli neyðarlaga sem sett hafi verið í kjölfar valdaránstilraunar árið 2016. Kúrdar og alevar séu bendlaðir við stjórnmálaflokkinn PKK sem yfirvöld skilgreini sem hryðjuverkasamtök. Herlögreglan hafi margsinnis haft afskipti af kæranda og beitt hann ofbeldi sökum þess að hann sé alevi.
Kærandi kveðst þann 29. ágúst 2017 hafa verið staddur í Kahramanmaras þegar átök hafi átt sér stað á milli herja ríkisstjórnarinnar og PKK. Kærandi hafi setið fastur í byggingu í um þrjá daga þar sem stjórnarherinn hafi skotið á fólk sem hafi flúið þaðan út. Eftir að kærandi hafi komist út hafi karlmönnum bæjarins verið safnað saman og sagt að yfirgefa bæinn ellegar yrðu þeir myrtir. Að sögn kæranda séu allir íbúar bæjarins alevi-Kúrdar. Kærandi hafi verið kallaður inn í herstöð og beðinn um að veita hernum upplýsingar um hverjir hyggist koma aftur og hverjir séu hlynntir PKK. Kæranda hafi verið hótað þegar hann hafi neitað og því kveðist ætla að kanna málið. Í samráði við föður sinn hafi kærandi ákveðið að leggja á flótta enda talið víst að hann yrði beittur ofbeldi eða myrtur færi hann ekki að kröfum lögreglunnar. Kærandi hafi farið til borgarinnar Antalya og dvalið þar í þrjá mánuði fyrir flótta sinn. Kærandi sé hvergi óhultur í heimaríki og þar sem hann sé alevi eigi hann ekki möguleika á lögregluvernd. Allt sitt líf hafi kærandi flutt á milli staða til að forðast vandamál en þeim ljúki aldrei. Eftir flótta kæranda hafi herlögreglan komið á heimili foreldra hans og spurt um kæranda og hafi faðir hans, sem sé á sjötugsaldri, verið beittur ofbeldi af þeim. Kærandi hafi við meðferð málsins lagt fram afrit af skilríkjum skyldmenna sinna sem hann segir hafi flúið Tyrkland og fengið stöðu flóttamanna í vestrænum ríkjum, þ.m.t. flokkskírteini móðurbróður síns að HDP flokknum. Jafnframt hafi hann lagt fram afrit blaðagreinar þar sem greint sé frá því að nokkrir einstaklingar, m.a. kona sem kærandi kveður vera frænku sína, hafi verið settir í fangelsi fyrir að tjá stjórnmálaskoðanir sínar.
Kærandi fjallar í greinargerð sinni almennt um Tyrkland m.a. um HDP flokkinn, stöðu Kúrda, aleva og alevi-Kúrda. Kærandi vísar m.a. til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt staða flóttamanns skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúarskoðana, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sem og stjórnmálaskoðana, sbr. b-,c-,d- og e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi orðið fyrir og eigi hættu á ofsóknir af hálfu ríkisins og annarra aðila sem fari ekki með ríkisvald, sbr. a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Enn fremur byggi ótti kæranda á samsafni athafna skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísa til athugasemda með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016 og leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sbr. lið 53 í handbók um réttarstöðu flóttamanna máli sínu til stuðnings. Þar komi m.a. fram að með samsafni ástæðna sé m.a. átt við margvíslega mismunun sem sé samtvinnuð öðru mótlæti. Enn fremur segi um mismunun að hópar sem fái lakari meðferð í ríkjum sökum mismununar séu ekki endilega fórnarlömb ofsókna en svo geti verið hafi meðferðin verulega skaðlegar afleiðingar í för með sér, t.d. alvarlegar takmarkanir á rétti til að framfleyta sér og til að iðka trú. Kærandi telji sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir ólögmætri mismunun í heimaríki af fjölmörgum ástæðum, einkum vegna stöðu sinnar sem Kúrdi og alevi. Sérstaklega bendir kærandi á það áreiti sem þessir hópar verði fyrir af hálfu herlögreglu og hann hafi orðið fyrir sem og takmarkaðan aðgang að atvinnumarkaði og heilbrigðisþjónustu. Þá telji kærandi að leggja beri til grundvallar að slæmt öryggisástand ríki í Tyrklandi, sérstaklega í suðausturhluta landsins þar sem Kúrdar séu í meirihluta og átök hafi átt sér stað milli yfirvalda og PKK flokksins. Kærandi hafi orðið fyrir beinum áhrifum slíkra átaka, líkamlegu og andlegu ofbeldi og skerðingu á grundvallarmannréttindum. Ljóst sé að kærandi eigi á hættu að sæta samskonar ofsóknum áfram verði honum snúið aftur til Tyrklands. Því beri að leggja til grundvallar að um sé að ræða samsafn athafna sem hafi sömu áhrif á kæranda og ofsóknir. Með vísan til framangreinds, frásagnar kæranda, framlagðra sönnunargagna og tilvísaðra heimilda um ástand mannréttindamála í Tyrklandi telji kærandi sannað að ótti hans sé ástæðuríkur. Jafnframt sem kærandi eigi ekki möguleika á fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki. Kærandi sé því flóttamaður skv. skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Endursending kæranda til Tyrklands brjóti einnig gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga auk þess sem slík ákvörðun brjóti gegn 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 1. og 3. gr mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sérstaklega sökum stöðu sinnar sem Kúrdi og alevi. Kærandi vísar m.a. til tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB máli sínu til stuðnings. Kærandi hafi verið búsettur í suðausturhluta Tyrklands þar sem um árabil hafi verið átök á milli stjórnarhersins og PKK flokksins. Í heimildum komi fram að þúsundir hafi látist í átökunum frá árinu 2015 og þar af margir óbreyttir kúrdískir borgarar. Kærandi hafi sjálfur orðið fyrir beinum áhrifum af slíkum átökum.
Kærandi krefst þess til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks leyfis ef einstaklingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við 74. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því er varð að útlendingalögum máli sínu til stuðnings. Þar kemur m.a. fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sé oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá geti slíkar aðstæður einnig átt við óvenjulegar aðstæður á borð við langvarandi stríðsástand í heimaríki. Af umfjöllun um aðalkröfu kæranda megi vera ljóst að í Tyrklandi sé hann í hópi þolenda viðvarandi mannréttindabrota sem yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn. Ástand mannréttindamála í heimaríki kæranda sé alvarlegt og fordæmalaust. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað að undirlagi ríkisstjórnarinnar sem geri það að verkum að yfirvöld verði ekki talin hafa vilja til að veita þeim vernd sem fyrir þeim verði. Vegna stöðu sinnar sem Kúrdi og alevi sé kærandi í hópi einstaklinga sem mannréttindabrotin beinist gegn. Með vísan til aðfarar stjórnvalda að þessum hópum auk átaka þeirra við PKK flokkinn telji kærandi að um sé að ræða óvenjulegar aðstæður á borð við stríðsástand, einkum í suðausturhluta ríkisins. Þá tilheyri kærandi mörgum viðkvæmum minnihlutahópum í heimaríki og hafi þessir hópar liðið alvarlega mismunun og aðfarir gegn sér í Tyrklandi, oft að undirlagi yfirvalda. Langflest skyldmenni kæranda hafi flúið land að undanskildum systrum hans og öldruðum foreldrum sem séu í viðkvæmri stöðu líkt og kærandi. Að teknu tilliti til viðkvæmrar stöðu kæranda geti hann ekki talist hafa traust bakland í heimaríki. Kærandi myndi því búa við mjög erfiðar félagslegar aðstæður verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Með vísan til ofangreinds og umfjöllunar um aðalkröfu sé þess farið á leit að fái kærandi stöðu sína sem flóttamaður ekki viðurkennda af íslenskum stjórnvöldum verði honum veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Af ákvörðuninni megi ætla að frásögn kæranda um atvik málsins og lýsing hans á aðstæðum í Tyrklandi sé í samræmi við heimildir og almennt talin trúverðug. Útlendingastofnun virðist telja kæranda og aðra einstaklinga í sambærilegri stöðu í Tyrklandi standa frammi fyrir erfiðleikum en aðstæðurnar séu ekki svo alvarlegar að kærandi þarfnist verndar. Hins vegar beri lýsing Útlendingastofnunar á aðstæðum Kúrda, kúrdískra stjórnmálaflokka og aleva vott um mjög alvarlega stöðu. Megi þar m.a. nefna alvarlega mismunun, fordóma, áreiti, handtökur, ætluð hryðjuverkatengsl og önnur alvarleg brot á mannréttindum. Þá hafi ríkisstjórn landsins ráðist gegn framangreindum hópum í kjölfar valdaránstilraunar árið 2016 og sé staða þeirra því sérstaklega slæm. Þrátt fyrir framangreint telji Útlendingastofnun að ekki sé um ofsóknir að ræða. Það sé að mati kæranda óljóst hvað það sé sem stofnunin telji draga úr alvarleika þeirra aðstæðna sem lýst sé í ákvörðuninni, en kærandi telji að rökstuðning skorti í ákvörðuninni. Þá komi jafnframt fram að vernd gegn aðgerðum stjórnvalda standi framangreindum hópum ekki til boða og vernd þeirra gegn aðgerðum annarra sé verulega takmörkuð. Þá telji kærandi að stofnunin hafi ekki með fullnægjandi hætti lagt mat á hvort að í máli kæranda sé um að ræða samsafn athafna sem hafi sömu áhrif og ofsóknir skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi tilheyri mörgum minnihlutahópum og því sé ekki nægjanlegt að leggja áherslu á meðferð einstaklinga í hverjum hópi fyrir sig heldur verði að meta hvaða áhrif meðferð vegna aðildar að þeim öllum samanlagt geti haft á kæranda. Þá bætist við sú hætta sem stafi að kæranda vegna þeirra atvika sem hann hafi orðið fyrir persónulega. Með vísan til heimilda í greinargerð um stöðu framangreindra hópa og þeirra heimilda sem Útlendingastofnun reifar í hinni kærðu ákvörðun sé ljóst að kærandi búi við ólögmæta mismunun í heimaríki samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Einnig sé ljóst að hann hafi mætt ýmsu mótlæti m.a. vegna ótryggs öryggisástands í ríkinu.
Varðandi mat stofnunarinnar á samsafni athafna bendir kærandi á að lítillega sé fjallað um samanlögð áhrif í umfjöllun um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í hinni kærðu ákvörðun. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að í Tyrklandi sé til staðar virk löggæsla sem kærandi geti leitað til telji hann brotið á réttindum sínum leiti hann eftir slíkri aðstoð og vísar stofnunin til umfjöllunar í kafla um trúverðugleikamat varðandi það atriði. Í þeim kafla komi hins vegar fram m.a. að heimildir beri með sér að óttist einstaklingur ofsóknir eða illa meðferð af hálfu ríkisins geti sá hinn sami ekki stólað á vernd ríkisins. Enn fremur komi fram að erfitt sé fyrir þolendur mannréttindabrota af hálfu lögreglu, hersins eða opinberra starfsmanna að tryggja réttlæti en ástandinu hafi verið lýst sem menningu refsileysis. Vernd standi til boða vegna illrar meðferðar af hálfu annarra aðila en óvíst sé hvort Kúrdar séu yfirhöfuð tilbúnir að tilkynna slík atvik vegna vantrausts á lögreglu. Það sé mat kæranda að um sé að ræða misræmi í niðurstöðu stofnunarinnar á möguleikum hans á vernd yfirvalda. Ljóst sé að vernd yfirvalda sé háð veigamiklum fyrirvörum. Þá sé vakin athygli á að kærandi haldi því fram að hann hafi aðallega orðið fyrir ofsóknum af hálfu herlögreglu og stjórnarhers en vernd gegn slíkum ofsóknum sé ekki til staðar. Þá virðist umfjöllun Útlendingastofnunar aðallega eiga við um tyrkneska ríkisborgarar almennt en taka verði tillit til takmarkaðra möguleika þeirra minnihlutahópa sem kærandi tilheyri á vernd.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað tyrknesku nafnskírteini. Kærandi hafi undirgengist tungumála- og staðháttarpróf á vegum Útlendingastofnunar þar sem staðfest hafi verið að kærandi væri frá Tyrklandi og talaði mállýsku Kúrda þar í landi. Að teknu tilliti til þess, ágætrar þekkingar kæranda á Tyrklandi og aðstæðum Kúrda í ríkinu taldi Útlendingastofnun rétt að leggja til grundvallar að kærandi sé Kúrdi sem búsettur hafi verið í Tyrklandi. Við úrlausn málsins var því byggt á því að kærandi tilheyri þjóðarbroti Kúrda í Tyrklandi. Kærunefndin hefur ekki forsendur til annars en að taka undir framangreint mat Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé tyrkneskur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Tyrklandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
· Turkey 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 28. apríl 2018);
· World Report Turkey 2019 (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);
· The World Factbook (Central Intelligence Agency, 13. febrúar 2019);
· World Directory of Minorities and Indigenous Peoples - Turkey: Alevis (Minority Rights Group International, júní 2018);
· World Directory of Minorities and Indigenous Peoples - Turkey: Kurds (Minority Rights Group International, júní 2018);
· Country policy and information note: background note: Turkey (UK Home Office, janúar 2019);
· Country policy and information note: Turkey: Kurds (UK Home Office, september 2018);
· Country policy and information note: Turkey: Kurdistan Workers’ Party (PKK) (UK Home Office, ágúst 2018);
· Country policy and information note: Turkey: Alevis (UK Home Office, ágúst 2017);
· Freedom in the World 2018 – Turkey (Freedom House, 2. febrúar 2019);
· EASO Country of Origin Information Report. Turkey. Country Focus. (EASO, nóvember 2016);
· Country Reports on Terrorism 2017 – Foreign Terrorist Organizations: Kurdistan Workers’ Party. (U.S. Department of State, 19. september 2018).
Tyrkland er lýðveldi með rúmlega 81 milljón íbúa. Ríkið er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ríkið er jafnframt aðili að m.a. flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá er Tyrkland aðili að alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis.
Stjórnarskrá ríkisins geri ráð fyrir einu þjóðerni fyrir alla ríkisborgara og viðurkenni ekki minnihlutahópa á grundvelli þjóðernis eða kynþáttar að undanskildum Armenum, gyðingum og þeim sem tilheyri grísku rétttrúnaðarkirkjunni. Rétturinn til eigin tungumáls, menningarlegra og trúarlegra réttinda sé ekki tryggður öðrum hópum fyllilega samkvæmt lögum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2018 kemur fram að rúmlega 15 milljónir íbúa landsins séu af kúrdískum uppruna og tali kúrdískar mállýskur. Samkvæmt tyrkneskum lögum sé leyfilegt að opna einkareknar menntastofnanir þar sem kennsla fari fram á tungumálum og mállýskum sem íbúar noti í daglegu lífi. Sumir háskólar bjóði upp á valkvæða kúrdísku áfanga og tveir háskólar séu með kúrdískar málvísindadeildir. Lögin heimili jafnframt að kúrdísk þorp og hverfi taki upp sín fyrri nöfn í stað þeirra tyrknesku og leyfi stjórnmálaflokkum og meðlimum þeirra að velja tungumál í stjórnmálabaráttu sinni og kynningarefni. Sá réttur hafi þó ekki verið virtur í framkvæmd. Þá banni lög notkun annarra tungumála en tyrknesku í opinberum stofnunum. Þrátt fyrir að kúrdíska sé formlega leyfð í einkareknum menntastofnunum og opinberri orðræðu hafi ríkisstjórnin ekki framlengt leyfi fyrir kennsluefni á kúrdísku í almenningsskólum.
Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2019 kemur fram að í alþingis- og forsetakosningum árið 2018 hafi Recep Tayyip Erdogan verið endurkjörinn forseti landsins og réttlætis- og framfaraflokkurinn (AKP) hafi haldið áfram að leiða ríkisstjórn landsins. Kosningarnar í júní 2018 hafi farið fram á meðan neyðarástand og neyðarlög hafi verið í gildi í ríkinu í kjölfar valdaránstilraunar í júlí 2016 og margt fjölmiðlafólk, alþingismenn og forsetaframbjóðandi kúrdísku andstöðuhreyfingarinnar hafi setið í fangelsi. Þá sé stjórnkerfið með þeim hætti að valddreifing sé lítil, áhrif þingsins takmörkuð og forseti ríkisins fari aðallega með stjórn ríkisins. Til að bregðast við valdaránstilrauninni hafi neyðarástandi verið lýst yfir í landinu og neyðarlög hafi gilt, yfirlýst neyðarástandi hafi verið framlengt ítrekað en 18. júlí 2018 hafi því verið aflýst. Þá hafi verið tekin í gildi hryðjuverkalöggjöf í ágúst 2018 sem m.a. hafi víkkað út valdsvið yfirvalda til að takmarka fundafrelsi og segja upp opinberum starfsmönnum m.a. dómurum. Þá geti lögreglan samkvæmt framangreindri löggjöf hneppt einstaklinga í allt að 12 daga varðhald. Þá séu u.þ.b. einn fimmti hluti fanga í ríkinu í fangelsi vegna ákæra fyrir brot tengd hryðjuverkum á grundvelli framangreindra laga samkvæmt dómsmálaráðuneyti ríkisins. Ríkisstjórnin hafi jafnframt beitt þvingunaraðgerðum gegn þjóðkjörnum alþingismönnum, bæjarstjórum og embættismönnum stjórnmálaflokka sem styðji Kúrda. Þrátt fyrir ofangreint hafi kúrdíski lýðræðisflokkurinn (HDP) tryggt sér 67 þingsæti í kosningunum 2018.
Hryðjuverkalöggjöfinni sé mikið beitt gagnvart meðlimum og stuðningsmönnum kúrdíska stjórnmálaflokksins PKK (Partya Karkeren Kurdistane) en flokkurinn sé talinn hryðjuverkahópur af tyrkneskum yfirvöldum. Stjórnmálaflokkurinn hafi upphaflega verið kúrdískur aðskilnaðarflokkur sem hafi haft það að markmiði að stofna til kúrdísks ríkis innan landamæra Tyrklands. Nokkrar breytingar hafi átt sér stað á flokknum frá stofnun hans, m.a. hafi um tíma verið horfið frá hugmyndinni um sjálfstætt ríki Kúrda og áherslan sett á aukin réttindi Kúrda innan Tyrklands, en árið 2005 hafi flokkurinn verið endurskipulagður í núverandi mynd og sé nú þjóðernissinnaður flokkur sem vilji stofna sjálfstætt kúrdískt ríki. Vopnuð átök hafi átt sér stað á milli hersins og kúrdíska stjórnmálaflokksins PKK, aðallega á dreifbýlum svæðum í suðausturhluta Tyrklands. Í desember 2017 hafi mannréttindasamtök staðsett í borginni Diyarbakir tilkynnt um 3000 dauðsföll vegna átaka á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokksins PKK í suðausturhluta landsins frá árinu 2015 jafnframt sem samtökin hafi borið því við að margir íbúar geti ekki lifað venjulegu lífi á svæðum sem ríkisstjórnin hafi flokkað sem sérstök öryggissvæði. Samkvæmt upplýsingum frá maí 2018 sem getið er í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins hafi dregið mikið úr átökunum, sem hafi náð hámarki árið 2016, sem megi m.a. rekja til áhrifaríkra aðgerða tyrkneskra stjórnvalda. Kúrdísk samfélög hafi orðið fyrir áhrifum af átökum á milli PKK flokksins og öryggissveita ríkisins. Samfélög þar sem Kúrdar séu í meirihluta hafi þurft að sæta þvingunum af hálfu ríkisins á borð við útgöngubann. Þá hafi kúrdísk samtök sem og samtök sem styðji Kúrda greint frá auknum takmörkunum á funda- og félagafrelsi. Hundruðum kúrdískra samtaka og kúrdískumælandi fjölmiðla hafi verið lokað af stjórnvöldum árið 2016 í kjölfar valdaránstilraunarinnar. Nærri allir einkareknir kúrdískir fjölmiðlar séu enn lokaðir á grundvelli þjóðaröryggis samkvæmt skipun ríkisstjórnarinnar.
Samkvæmt skýrslu alþjóðlegs hóps um réttindi minnihlutahópa (Minority Rights Group International) sé alevi hugtak sem notað sé yfir stóran hóp óhefðbundinna sjíta-múslima. Alevar séu stærsti trúarlegi minnihlutinn í Tyrklandi. Formlega tilheyri alevar sjíta-múslimum en grundvallarmunur sé á trúarlegri túlkun þeirra og annarra sjíta-múslimasafnaða. Þá séu þeir einnig mjög frábrugðnir súnní-múslimum í trúariðkun sinni og túlkun á íslömskum trúarbrögðum. Samkvæmt nýlegri tölfræði telji alevar u.þ.b. 20 til 25 milljónir í Tyrklandi. Árið 2014 hafi tyrknesku hegningarlögunum verið breytt og ákvæðum um hatursglæpi bætt við löggjöfina þar sem mismunun og hatursglæpir á grundvelli m.a. trúarbragða hafi verið gerðir refsiverðir. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins um stöðu aleva í Tyrklandi frá 2017 kemur fram að í kjölfar dóms mannréttindadómstóls Evrópu árið 2015 hafi tyrknesk yfirvöld tilkynnt að bænahús aleva fái lagalega viðurkenningu en sú framkvæmd hafi ekki gengið eftir að fullu og aðeins tyrknesk stjórnvöld á ákveðnum svæðum hafi lýst því yfir að cemevi séu formleg bænahús. Alevar verði fyrir ákveðinni kerfisbundinni mismunun í formi takmarkaðra fjárframlaga til bænahúsa þeirra og í menntakerfinu. Þá séu dæmi um að alevar hafi orðið fyrir hatursorðræðu og félagslegri mismunun og ofbeldi. Ofbeldið eigi sér oftast stað af hálfu súnní-múslima sem telji aleva vera trúleysingja eða djöfladýrkendur. Þessi atvik séu þó sjaldgæf og flestir alevar geti búið í samfélögum ásamt fólki sem tilheyri öðrum trúarbrögðum án teljandi vandræða. Þó séu til staðar dæmi um að heimili aleva verði fyrir skemmdarverkum m.a. með þeim hætti að niðrandi eða þjóðernissinnuð slagorð séu rituð á þau. Þá hafi gengi ráðist á cemevi í Istanbúl og gert tilraun til að kveikja í bænahúsinu. Einnig verði alevar fyrir mismunun í ríkinu í trúarbragðakennslu í skólum og takmörkuðu aðgengi að opinberum störfum. Í kjölfar valdaránstilraunarinnar árið 2016 og aðgerða ríkisstjórnarinnar gegn ætluðum óvinum sínum hafi margt fjölmiðlafólk verið fangelsað og fjölmiðlum lokað, þ.á m. flestir fjölmiðlar sem fjölluðu um menningu aleva. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins verði Armenar, alevar og kristnir fyrir hatursorðræðu og mismunun, m.a. hafi einstaklingar reynt að koma í veg fyrir greftrun móður meðlims kúrdíska flokksins HDP en lögreglan hafi brugðist við og stöðvað árásina og innanríkisráðuneytið séð til þess að jarðaförin hafi getað farið fram. Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins geti alevar sem óttist ofsóknir eða alvarlegan skaða af hálfu ríkisins ekki leitað verndar yfirvalda en í þeim tilvikum sem einstaklingar óttist ofsóknir af hálfu aðila ótengdum ríkinu hafi yfirvöld almennt vilja og getu til að veita fullnægjandi vernd.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir ástæður flótta síns á því að hann hafi orðið fyrir og eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum vegna trúar sinnar, þjóðernis, aðildar að þjóðfélagshópi og stjórnmálaskoðana. Kærandi sé alevi, Kúrdi, kúrmanjimælandi sem og stuðningsmaður stjórnmálaflokksins HDP. Kærandi hafi orðið fyrir áreiti af hálfu herlögreglunnar og félagslegri mismunun.
Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi fyrst orðið fyrir áreiti af hálfu herlögreglunnar þegar hann hafi verið um 13-14 ára gamall. Þá hafi fjölskylda hans ítrekað orðið fyrir áreiti og hafi kærandi ásamt fjölskyldu sinni af þeim sökum flutt ítrekað innanlands alla hans tíð. Kærandi hafi margsinnis orðið fyrir ofbeldi af hálfu herlögreglu og leitað læknis en hafi ekki fengið læknisvottorð. Kærandi greindi í viðtalinu frá því að hann hafi flúið heimaríki eftir að hann hafi verið kallaður á herstöðina í Elbistan í kjölfar átaka á milli PKK flokksins og tyrkneska hersins. Íbúar þorpsins hafi verið innilokaðir á meðan á átökunum hafi staðið. Eftir þrjá daga hafi herinn safnað saman sveitafólki í þorpinu og sagt þeim að yfirgefa þorpið. Kærandi hafi þá verið kallaður á herstöðina og sagt að fylgjast með því hverjir yfirgæfu þorpið í raun og hverjir kæmu til baka ellegar myndi hann verða fyrir ofbeldi. Daginn eftir hafi kærandi farið til Antalya og unnið þar við byggingariðn í þrjá mánuði en síðar greitt fólki fyrir að aðstoða sig við að flýja frá landinu. Kærandi telji að hann verði handtekinn í heimaríki fyrir að hafa farið úr landi, vegna uppruna síns og þess að tyrknesk stjórnvöld viti að alevar tali ekki vel um þau. Kærandi muni verða yfirheyrður og sendur í fangelsi. Kærandi kvað að oft hafi verið komið heim til foreldra hans og spurt um hann og hafi faðir hans verið beittur ofbeldi eftir að hann hafi flúið. Máli sínu til stuðnings lagði kærandi fram tyrkneskt nafnskírteini sitt auk skilríkja og flokksskírteina einstaklinga sem hann kveður vera ættingja sína sem hafi flúið land vegna stjórnmála- og trúarskoðana. Jafnframt lagði kærandi fram blaðagrein þar sem fram komi að einstaklingar sem hann kveður vera skyldmenni sín hafi verið handtekin af pólitískum ástæðum.
Þau gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð máls kæranda benda til þess að alevar eigi á hættu mismunun í Tyrklandi en þá aðallega í menntakerfi landsins og takmarkaðri skráningu bænahúsa þeirra. Þrátt fyrir framangreint geti þeir samkvæmt fyrirliggjandi gögnum iðkað trú sína óáreittir og hafi tyrknesk stjórnvöld gefið vilyrði fyrir að bænahús þeirra fái lagalega viðurkenningu um land allt. Þrátt fyrir að dæmi séu um hatursorðræðu, mismunun og ofbeldi í garð aleva þá séu slík tilfelli ekki algeng og hafi stjórnvöld veitt alevum vernd gegn hótunum aðila ótengdum stjórnvöldum og annarra hópa t.a.m. Daesh. Þó svo að Kúrdar eigi undir högg að sækja í Tyrklandi þá má ráða af þeim gögnum að almennir borgarar eigi ekki á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu ríkisins fyrir það eitt að vera af þjóðarbroti Kúrda. Kærandi hefur ekki borið með sértækum hætti fyrir sig áreiti sem hann hafi orðið fyrir vegna kúrdísks uppruna síns, en gögn benda til þess að tyrknesk stjórnvöld aðstoði aleva og Kúrda sem verði fyrir áreiti af hálfu aðila ótengdum ríkinu. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé ekki skráður í HDP flokkinn en styðji hann og hafi tekið þátt í mótmælum og samkomum. Þá hefur kærandi ekki greint frá því að hafa orðið fyrir áreiti vegna framangreindrar þátttöku. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar séu dæmi um að einstaklingar sem starfi opinberlega fyrir HDP hafi orðið fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda en flokkurinn hafi þó mörg þingsæti á Tyrkneska þinginu.
Kærandi kveðst óttast að verða fyrir ofsóknum og ofbeldi af hálfu stjórnvalda vegna trúar sinnar, þjóðernis, aðildar að þjóðfélagshópi sem og stjórnmálaskoðana sinna. Líkt og komið hefur fram gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér til kynna að alevi-Kúrdar kunni að eiga á hættu einhverja mismunun í heimaríki kæranda af þeirri ástæðu að þeir tilheyri þjóðarbrotinu og séu trúarlegur minnihluti. Ekkert í þeim gögnum gefur þó til kynna að sú mismunun nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Líkt og áður hefur komið fram eru refsingar lagðar við glæpum sem grundvallist á hatri gegn tilteknu þjóðerni eða trúarskoðana. Þá hefur kærandi greint frá því að hann óttist að verða fyrir ofsóknum sem stuðningsmaður HDP en ofangreind gögn bera ekki með sér að stjórnarandstæðingar séu kerfisbundið áreittir af hálfu stjórnvalda. Kærandi hefur ekki lýst neinu sem talist gæti til ofsókna gagnvart honum eða á annan hátt leitt að því líkur að tyrknesk yfirvöld beini sjónum sínum sérstaklega að honum eða hann sé á annan hátti í verri stöðu í heimaríki en aðrir einstaklingar sömu trúar- og af sama þjóðernisuppruna. Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki orðið fyrir eða eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í Tyrklandi sem nái því marki að teljast ofsóknir skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, að teknu tilliti til samlegðaráhrifa trúar kæranda, þjóðernisuppruna hans og stjórnmálaskoðana.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir til þess að átök hafi geisað á milli stjórnvalda og PKK flokksins í suðausturhluta landsins en samkvæmt fyrirliggjandi heimildum hafi mikið dregið úr þeim frá árinu 2016. Samkvæmt þeim heimildum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar hafa framangreind átök átt sér stað frá árinu 2015 á svæðum við landamæri Sýrlands og Tyrklands. Þau svæði sem talin séu í mestri hættu á að verða fyrir árásum PKK séu sýslurnar Hakkari, Sirnak, Diyarbakir og Tunceli og einhverjar líkur séu á árásum í Siirt, Mardin, Batman og Agri. Kærandi kveðst hafa verið búsettur í Elbistan, í Kahramanmarassýslu, fyrir flótta sinn en samkvæmt fyrirliggjandi heimildum geisi ekki átök þar um þessar mundir og er sýslan ekki meðal þeirra svæða þar sem hætta sé talin á árásum PKK. Þrátt fyrir að almennir borgarar geti þurft að lúta útgöngubanni og öðrum tímabundnum takmörkunum á meðan tyrkneski herinn sæti árásum frá PKK á ákveðnum svæðum er það mat kærunefndar að ástandið sé ekki á því alvarleikastigi að kærandi eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, í heimasýslu sinni, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til Tyrklands. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki kæranda, að honum standi til boða viðeigandi vernd og aðstoð lögreglu í Tyrklandi telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Kærandi ber fyrir sig erfiðar aðstæður í heimaríki bæði vegna óvenjulegra aðstæðna sem megi jafna til langvarandi stríðsástands og þess að hann standi frammi fyrir mismunun sem alevi, kúrmanjimælandi Kúrdi og stuðningsmaður HDP. Mannréttindabrot eigi sér stað í Tyrklandi að undirlagi þarlendra stjórnvalda og beinist brotin m.a. gegn alevum og Kúrdum að sögn kæranda. Áður hefur verið komist að því að aðstæður í heimaríki kæranda séu ekki slíkar að hann teljist hafa ríka þörf á vernd vegna átaka sem hafi átt sér stað þar. Enn fremur með vísan til umfjöllunar um stöðu minnihlutahópa sem kærandi tilheyri í heimaríki og því að honum standi til boða vernd og aðstoð yfirvalda í þeirri sýslu þar sem hann sé búsettur telji sig hann þurfa á henni að halda telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Samkvæmt gögnum málsins er kærandi almennt heilbrigður. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar
Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærandi gagnrýnir m.a. mat Útlendingastofnunar á möguleikum hans á vernd. Þá telji kærandi að misræmis gæti í umfjöllun um aðstæður í heimaríki kæranda og niðurstöðu stofnunarinnar. Má af greinargerð kæranda ráða að hann geri athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þá kemur fram í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.
Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar og aðgengilegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Þá telur kærunefnd að ekki hafi verið um misræmi að ræða í ákvörðun Útlendingastofnunar heldur umfjöllun um almennar aðstæður í heimaríki kæranda og síðan mat á einstaklingsbundnum aðstæðum hans. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur farið yfir þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, framlögð gögn kæranda, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og aðrar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og laga um útlendinga.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 22. apríl 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 26. apríl s.á. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Ívar Örn Ívarsson Erna Kristín Blöndal