Rannsóknasjóði verður komið á fót til að styrkja rannsóknir á sviði vinnuverndar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, hafa undirritað samning um tilraunaverkefni um stofnun sérstaks rannsóknasjóðs til að fjármagna eða styrkja rannsóknir og verkefni sem stuðla að betri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði. Til að byrja með verður sérstaklega horft til rannsókna á tengslum einstakra sjúkdóma við starfsumhverfi fólks.
Sjóðnum er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks á vinnumarkaði hér á landi, þar á meðal tilurð atvinnusjúkdóma, þróun veikindafjarvista og hvernig draga megi úr ótímabæru brotthvarfi starfsfólks af vinnumarkaði, en aðstæður í hverju landi eru jafnan einstakar.
Sjóðurinn verður staðsettur hjá Vinnueftirlitinu en ráðherra mun skipa honum þriggja manna stjórn þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins eiga sæti. Jafnframt verður heimilt að leita ráða hjá óháðum sérfræðingum þegar fjallað verður um einstakar styrkumsóknir.