Handbók á íslensku um flutning hættulegra efna á vegum
Komin er út handbók um flutning á hættulegum farmi á vegum, svonefnd ADR handbók. Vinnueftirlitið gefur bókina út og er höfundur hennar Víðir Kristjánsson, deildarstjóri efna- og hollustuháttadeildar Vinnueftirlitsins.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók við fyrsta eintaki bókarinnar sem er hátt í 600 blaðsíður. Bókin er einkum ætluð til notkunar á námskeiðum sem Vinnueftirlitið heldur fyrir bílstjóra sem sinna flutningi á hættulegum efnum á vegum landsins. Einnig geta öryggisfulltrúar, sendendur og þeir sem sinna eftirliti á flutningi hættulegra efna notað bókina sem uppflettirit við undirbúning á slíkum flutningi.
Handbókin er sett þannig upp að fyrst er fjallað almennt um reglur um flutning á hættulegum farmi á vegum, skilgreiningar, undanþágur, flokkun í hættuflokka og fleira. Þá er fjallað um pökkunarákvæði, fylgiskjöl, merkingu ökutækja og fleira og í viðaukum er fjallað um varúðarmerki, hættunúmer og fleira og um reglur um flutninga um jarðgöng.
Víðir Kristjánsson efnafræðingur tók bókina saman og er hún gefin út með styrk frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, ET, Landflutningum-Samskipum og Umferðarstofu. Síðasta bók kom út árið 1998 og segir Víðir löngu tímabært að gefa nú út bók að nýju. Bílstjórum sem annast flutninga á hættulegum farmi er skyldugt að afla sér nauðsynlegra réttinda með námskeiðunum sem taka þrjá daga hið minnsta og viðhalda þeim með því að sækja endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti.