Lesfimi metin í fyrsta skipti í grunnskólum með nýju mælitæki
Fyrstu niðurstöður lesfimiprófa voru kynnt á fundi með fjölmiðlum í morgun, 28. ágúst. Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla ávörpuðu fundinn og að því loknu kynnti Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar niðurstöðurnar. Að kynningu lokinni tók Þórður Hjaltested formaður Kennarasambands Íslands til máls. Í máli allra kom fram ánægja með verkefnið Þjóðarsáttmáli um læsi og að vísbendingar séu um að það muni skila árangri. Mennta- og menningarmálaráðherra fagnaði þeim góða árangri sem náðst hefur og þeirri góðu samstöðu sem ríkir um verkefnið. Hann ítrekaði að góð lestrarkunnátta er undirstaðan fyrir framtíð unga fólksins og lagði áherslu á nauðsyn þess að allt skólasamfélagið, ekki síst foreldrar og forráðamenn barna, komi að því að efla lestrarkunnáttu þeirra.
Með Þjóðarsáttmála um læsi, sem undirritaður var af mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúum sveitarfélaga og Heimilis og skóla árið 2015, hétu öll sveitarfélög landsins og foreldrar því að vinna að því að ná markmiðum stjórnvalda um læsi. Menntamálastofnun hefur yfirumsjón með Þjóðarsáttmálanum og þar starfar læsisteymi sem vinnur að innleiðingu aðgerða til að efla læsi. Mörg sveitarfélög og skólar hafa sett sér metnaðarfulla læsisstefnu og unnið markvisst að því að ná markmiðum Þjóðarsáttmálans. Þess er vænst að öll sveitarfélög hafi sett sér læsisstefnu fyrir árslok 2018.
Haustið 2015 var hafist handa í Menntamálastofnun við að búa til mælitæki til að meta lestrarkunnáttu og framvindu nemenda í lesfimi, lesskilningi, orðaforða, stafsetningu og ritun og til að skima fyrir lestrarerfiðleikum, undir yfirheitinu Lesferill. Fyrsti hluti Lesferilsins er nú tilbúinn, þ.e. lesfimipróf fyrir 1.–10. bekk grunnskóla sem mæla lestrarhraða og nákvæmni. Prófin eru hönnuð þannig að almennir kennarar leggja þau fyrir nemendur þrisvar sinnum yfir skólaárið, þ.e. í september, janúar og maí.
Lesfimiprófin voru lögð fyrir íslenska grunnskólanemendur í fyrsta skipti skólaárið 2016–2017. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að margir skólar nái góðum árangri, sérstaklega í yngstu árgöngunum. Hins vegar bendir staðan í lesfimi á miðstigi, þ.e. í 5.–7. bekk, til þess að þörf sé á umbótum. Leggja þarf áherslu á fjölbreyttar leiðir í skólum og á heimilum til að auka margs konar lestur nemenda. Þá þarf að finna leiðir til að gera lestur áhugaverðari og auka aðgengi að hvetjandi lesefni. Sjá nánar um niðurstöður í greinargerð Menntamálastofnunar sem fylgir þessari fréttatilkynningu og á vef Menntamálastofnunar.
Kennarar og foreldrar hafa lýst yfir ánægju með lesfimiprófin og hvernig Þjóðarsáttmálinn hefur stutt við eflingu lesturs í skólum og á heimilum. Skólastjórnendur, kennarar og foreldrar hafa tekið virkan þátt í verkefninu frá byrjun.
Samtökin Heimili og skóli eru aðilar að Þjóðarsáttmála um læsi fyrir hönd foreldra og hafa með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytis útbúið læsissáttmála fyrir foreldra þar sem höfðað er til samtakamáttar og samábyrgðar þeirra. Sáttmálanum svipar til Foreldrasáttmála Heimilis og skóla sem notið hefur mikilla vinsælda og viðbrögð foreldra við læsissáttmálanum hafa verið vonum framar.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur mikilvægt að allt skólasamfélagið, sveitarfélög, foreldrar og fleiri áhugasamir um læsi haldi áfram af sama krafti að efla lestur barna. Með aukinni hæfni og færni í lestri geta börn og ungmenni betur tekist á við kröfur í nútímasamfélagi og eiga auðveldara með frekara nám og atvinnuþátttöku. Ráðuneytið mun áfram leggja áherslu á margvísleg verkefni sem tengjast Þjóðarsáttmála um læsi og Menntamálastofnun mun halda áfram að veita markvissa ráðgjöf og þróa betri verkfæri til að styðja við nemendur, kennara, foreldra, sveitarfélög og aðra sem vilja efla lestur barna.
Á myndinni eru frá vinstri: Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra og Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.