Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 406/2017 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 406/2017

Miðvikudaginn 23. janúar 2019

A og B

v/C

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með beiðni, móttekinni 26. nóvember 2018, óskuðu A og B, eftir endurupptöku máls nr. 406/2017 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 21. febrúar 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umönnunarmati, dags. 12. september 2017, var umönnun fósturdóttur kærenda felld undir 3. flokk, 0% greiðslur, frá X 2017 til X 2022 en kærendum var synjað um umönnunargreiðslur á þeim grundvelli að barnið væri í fóstri hjá þeim og vistun væri greidd af félagsmálayfirvöldum. Kæra vegna framangreindrar ákvörðunar barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. október 2017 sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins með úrskurði 21. febrúar 2018.

Kærendur fóru fram á endurupptöku úrskurðarins þann 26. nóvember 2018 með vísan til álits umboðsmanns Alþingis frá 31. október 2018 í máli nr. 9205/2017. Úrskurðarnefnd velferðarmála féllst á beiðni kærenda um endurupptöku og var þeim greint frá þeirri ákvörðun með bréfi, dags. 6. desember 2018.

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur gera kröfu um umönnunargreiðslur með fósturdóttur þeirra á grundvelli álits umboðsmanns Alþingis nr. 9205/2017. Fram kemur að kærendur séu með fósturbarn í varanlegu fóstri.

Í kæru vegna kærumáls nr. 406/2017 kemur fram sú krafa kærenda um að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði um hvort kærð ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins standist lög.

Í kæru segir að rökstuðningur Tryggingastofnunar fyrir ákvörðun sinni sé undarlegur þar sem allir þeir aðilar sem hafi komið að greiningu barnsins sem og félagsmálayfirvöld, auk barnaverndarnefndar, hafi ekki virst hafa gert ráð fyrir öðru en að barnið ætti rétt til þessara bóta.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kæru í máli nr. 406/2017 segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kærendum um umönnunargreiðslur með fósturdóttur þeirra. Stofnunin hafi 12. september 2017 gert mat samkvæmt 3. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið frá X 2017 til X 2022, þ.e. kærendum hafi verið synjað um umönnunargreiðslur þar sem ekki sé heimilt að greiða umönnunargreiðslur með börnum í vistun utan heimilis.

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljist í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun, og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segi að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur en önnur dagleg sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði greiðslur.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 sé lagaákvæðið nánar útfært. Þar segir í 4. mgr. að umönnunargreiðslur til framfærenda falli niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Hið kærða mat sé fyrsta mat Tryggingastofnunar vegna stúlkunnar. Með umsókn kæranda, dags. 29. júní 2017, hafi fylgt læknisvottorð, dags. 7. júlí 2017, og tillaga að umönnunarmati, dags. 3. ágúst 2017.

Almennt sé litið svo á að venjulegur framfærslukostnaður barns sé fjárhæð sem svari til tvöfalds barnalífeyris, þ.e. einfalds frá hvoru foreldri. Úrskurðarnefnd almannatrygginga sé sammála þeirri túlkun í úrskurði sínum nr. 65/2014 og úrskurðarnefnd velferðarmála einnig í úrskurði sínum nr. 92/2016 og vísi þar til 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Tryggingastofnun og úrskurðarnefndin telji að sem meginreglu skuli líta á fósturráðstöfun, þar sem greiðslur til fósturforeldra með barni séu umfram venjulegan framfærslukostnað, sem vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi ofangreinds reglugerðarákvæðis. Umönnunargreiðslum sé ætlað að mæta sannanlegum tilfinnanlegum útgjöldum og kostnaði við sérstaka umönnun eða gæslu barna, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007. Þessum útgjöldum megi, eðli málsins samkvæmt, ekki vera mætt af öðrum aðilum samtímis því að umönnunargreiðslur eigi sér stað.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir upplýsingar um að stúlkan hafi verið í fóstri hjá kærendum frá árinu X. Við meðferð kærunnar hafi verið óskað eftir því að skriflega yrði staðfest hvaða greiðslur væru greiddar með barninu til fósturforeldris og bárust umbeðnar upplýsingar með tölvupósti 13. nóvember 2017. Samkvæmt barnavernd fá kærendur greitt sem samsvari þreföldu meðlagi/barnalífeyri með stúlkunni.

Með vísan til framanritaðs líti Tryggingastofnun svo á að vistun stúlkunnar sé greidd af félagsmálayfirvöldum og að kostnaði við umönnun sé mætt. Af þeim sökum telji Tryggingastofnun að ekki sé heimild til að greiða kærendum umönnunargreiðslur. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. september 2017 um greiðslu umönnunargreiðslna með fósturdóttur kæranda.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. 4. gr. að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma. Í 2. mgr. ákvæðisins segir:

„Almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerðir ekki umönnunargreiðslur. Önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerðir umönnunargreiðslur.“

Í 4. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum. Skerðingar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. framangreindra laga eru útfærðar í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar og samkvæmt því ákvæði falla umönnunargreiðslur alveg niður við vistun á vistheimili og vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Ljóst er að ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kærendum um umönnunargreiðslur með fósturdóttur sinni. Fyrir liggur að fósturdóttir kærenda hefur verið ráðstafað í varanlegt fóstur hjá kærendum og kærendur hafa þegið greiðslur sem samsvara þreföldu meðlagi vegna þess. Af hinni kærðu ákvörðun og greinargerð Tryggingastofnunar verður ráðið að grundvöllur synjunar stofnunarinnar um umönnunargreiðslur sé sá að fósturdóttir kærenda sé í vistun utan heimilis í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og að vistunin sé greidd af félagsmálayfirvöldum, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9205/2017 frá 31. október 2018 er fjallað ítarlega um túlkun á orðlaginu „vistun utan heimilis“ í 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Fjallað er um forsögu ákvæðis 4. gr. laga um félagslega aðstoð, barnaverndarlög nr. 80/2002 og lög nr. 21/1990 um lögheimili. Fram kemur meðal annars að í 1. gr. 8. gr. laga um lögheimili segi að barn 17 ára eða yngra eigi sama lögheimili og foreldrar þess ef þeir búi saman, ella hjá því foreldrinu sem hafi forsjá þess. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. gildi ákvæðið einnig um lögheimili fósturbarna. Þá segir meðal annars svo um barnaverndarlögin í áliti umboðsmanns:

„Ég bendi jafnframt á að fjallað er um „vistun utan heimilis“ í 27. og 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í lögunum er síðan almennt gerður greinarmunur á því þegar barni er ráðstafað í fóstur annars vegar, sbr. XII. kafla laganna, og þegar barn er vistað utan heimilis hins vegar, sbr. XIII. og XIV. kafla laganna. Með síðara úrræðinu er samkvæmt barnaverndarlögum einkum átt við það þegar barn er vistað á vistheimili, stofnunum eða hjá stuðningsfjölskyldu og er um það gerður vistunarsamningur en í fyrra tilvikinu er gerður fóstursamningur. Orðalag 2. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007 og samhengi ákvæðisins við önnur lagaákvæði virðist því benda til þess að barn í varanlegu fóstri með lögheimili hjá fósturforeldrum teljist ekki þegar af þeirri ástæðu „vistað utan heimilis“ í skilningi ákvæðisins.“

Það er niðurstaða umboðsmanns Alþingis í fyrrgreindu áliti að með orðunum „vistun utan heimilis“ í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð sé fyrst og fremst átt við það þegar barn dvelji annars staðar en í heimahúsi þess framfæranda sem sæki um umönnunargreiðslur til lengri eða skemmri tíma, svo sem á stofnun. Ráðstöfun barns í varanlegt fóstur þar sem barnið búi hjá fósturforeldri sem beri að framfæra það, teljist því ekki eitt og sér vistun utan heimilis í skilningi ákvæðisins. Þá telur umboðsmaður Alþingis að orðalag 5. málsl. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um að umönnunargreiðslur til framfæranda falli niður meðal annars við „vistun greidda af félagsmálayfirvöldum“ sé sama marki brennt, þ.e. að vistun taki ekki til hefðbundins varanlegs fósturs þegar barn eigi lögheimili og dveljist hjá framfæranda sem sæki um umönnunargreiðslur.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fósturdóttir kærenda sé hvorki í vistun utan heimilis í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð né vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum í skilningi 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997. Að mati úrskurðarnefndar var Tryggingastofnun því óheimilt að synja kæranda um umönnunargreiðslur með vísan til framangreinds laga- og reglugerðarákvæðis. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kærendum um umönnunargreiðslur vegna fósturdóttur þeirra er því felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A og B, um umönnunargreiðslur vegna C, er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta