Innleiðing nýrra lyfja byggist á faglegri stefnu þótt aðhalds sé gætt
Ný sjúkrahúslyf eru innleidd í svipuðum mæli hér á landi og hjá nágrannaþjóðunum. Þótt þrengri skorður hafi verið settar við notkun nýrra lyfja en voru fyrir nokkrum árum öðlast ný lyf markaðsleyfi hér á svipuðum tíma og í öðrum Evrópulöndum.
Í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga um innleiðingu nýrra lyfja hér á landi hafa komið fram fullyrðingar um að við stöndumst ekki samanburð við aðrar Norðurlandaþjóðir þegar kemur að því að taka í notkun ný líftæknilyf og dýr krabbameinslyf og að læknisfræðin hér á landi sé því farin að dragast aftur úr því sem gerist hjá þjóðum sem við viljum bera okkur saman við.
Vegna þessa vill ráðuneytið koma á framfæri eftirtöldum staðreyndum.
- Fyrir hrun voru ný lyf oft tekin fyrr og meir í notkun á Íslandi en í nágrannalöndunum enda óx lyfjakostnaður þeirra um 20% á ári í upphafi aldarinnar og fram að hruni.
- Af augljósum ástæðum eftir hrun hefur þurft að beita meira aðhaldi vegna sívaxandi lyfjakostnaðar. Ísland er því ekki lengur í fararbroddi þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja, heldur eru gerðar auknar kröfur um að lyfin hafi áður verið tekin í notkun annars staðar.
- Í dag er flestum nýjum lyfjum veitt markaðsleyfi með miðlægri skráningu á evrópska efnahagssvæðinu í gegnum Lyfjastofnun Evrópu. Ný lyf öðlast þannig markaðsleyfi á Íslandi á svipuðum tíma og í öðrum löndum EES.
- Kostnaður vegna nýrra lyfja, sérstaklega líftæknilyfja hefur farið vaxandi og mun fyrirsjánlega halda áfram að vaxa á næstu árum. Hérlendis er líkt og annars staðar beitt ýmsum aðferðum til að stemma stigu við hraðvaxandi kostnaði. Í gildi eru strangar reglur og klínískar leiðbeiningar um notkun lyfjanna, þar sem miðað er meðal annars við niðurstöður National Institute for Health and Clinical Excellence (NICE) í Bretlandi.