Tímamót í lífi tíu fatlaðra einstaklinga á Landspítala
Þann 1. nóvember næstkomandi tekur gildi tímamótasamningur milli Landspítala og Áss styrktarfélags þegar styrktarfélagið tekur að sér að annast heildstæða þjónustu við tíu fatlaða einstaklinga sem flestir hafa búið alla sína ævi á vistunardeildum Landspítala í Kópavogi. Fólkið sem á í hlut er síðustu einstaklingarnir af vistmönnum gamla Kópavogshælisins sem með samningnum hljóta gjörbreytta og betri stöðu og réttindi til jafns við aðra borgara.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, og Guðrún Þórðardóttir, formaður stjórnar Áss styrktarfélags, undirrituðu samninginn í velferðarráðuneytinu í dag og lýstu bæði mikilli ánægju með þessi tímamót og þá réttarbót og aukin lífsgæði sem breytingin mun færa fólkinu sem á í hlut.
Skilgreint markmið samningsins felur í sér að einstaklingum sem nú eru innritaðir á vistunardeildum 18 og 20 við Landspítala í Kópavogi verði tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og sköpuð skilyrði til að lifa eðlilegu lífi samkvæmt ákvæðum laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Fólkið mun búa áfram í sama húsnæði og hingað til en réttur þessara einstaklinga til þjónustu og réttindi þeirra í almannatryggingakerfinu gjörbreytast við það að vera ekki lengur innritaðir á sjúkrahús. Sú breyting sem verður á högum þessa fólks er mikilvægur áfangi í því að uppfylla ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ás styrktarfélag var stofnað árið 1958. Félagið á langa og samfellda sögu af þjónustu við fólk með þroskahömlun á öllum æviskeiðum. Í dag rekur félagið umfangsmikla dagþjónustu í Reykjavík ásamt búsetutilboðum í Kópavogi og Reykjavík.