Ný þjónusta á vef félagsmálaráðuneytisins
Félagsmálaráðuneytið hefur sett af stað tilraunaverkefni sem ætlað er að auka og einfalda aðgengi að afgreiðslu ráðuneytisins með því að gefa almenningi og fyrirtækjum kost á því að komast í beint samband við starfsmenn um heimasíðu ráðuneytisins.
Verkefnið er liður í stefnu ríkisstjórnarinnar Auðlindir í allra þágu sem kom út í mars 2004. Þar eru sett fram markmið um að gerðar séu tilraunir til að auka samráð og samskipti milli almennings og opinberra aðila með því að gera m.a. tilraunir með uppsetningu umræðutorga.
Svarbox félagsmálaráðuneytisins er tilraunaverkefni sem ætlað er að bæta þjónustu við almenning um land allt. Lagt er upp með að prófa lausnina við íslenskar aðstæður og reyna að meta framtíðarmöguleika fyrir opinbera aðila.
Fyrirtækið Modernus ehf. hefur unnið að framkvæmd verkefnisins fyrir ráðuneytið.