Jarðvarma í Þingeyjarsýslum skal nýta til umfangsmikillar atvinnuuppbyggingar á svæðinu
Í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og fjögurra sveitarfélaga á Norðausturlandi er lögð áhersla á mikilvægi þess að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til umfangsmikillar atvinnuuppbyggingar og til að efla byggð á svæðinu. Með viljayfirlýsingunni er stefnt að því að skapa þær aðstæður að allri nauðsynlegri forvinnu verði lokið þegar gengið verður til samninga við einn stóran orkukaupanda eða fleiri minni orkukaupendur um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum.
Verkefnisstjórn verður skipuð og mun hún bera ábyrgð á greiningu innviða, meta þörf fyrir að efla og styrkja opinbera þjónustu og huga að vexti atvinnulífs á svæðinu og fjölbreytni þess.
Aðilar viljayfirlýsingarinnar fagna jafnframt nýgerðri samþykkt stjórna Landsvirkjunar og Þeistareykja um að auka verulega við rannsóknir vegna undirbúnings jarðgufuvirkjana á Norðausturlandi í sumar en fjárfesting vegna þeirra mun nema um tveimur milljörðum króna. Þá hefur komið fram að Landsvirkjun á í viðræðum við átta til tíu áhugasama orkukaupendur.
Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra og fulltrúar Norðurþings, Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Tjörneshrepps.