Hefja á endurskoðun regluverks um leigubifreiðaakstur
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp til að endurskoða regluverk um leigubifreiðaakstur. Hópurinn skili ráðherra rökstuddum tillögum eigi síðar en um miðjan janúar 2018.
Í hópnum sitja Anna Sigríður Arnardóttir, lögfræðingur og jafnframt formaður hópsins og Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur, Kristín Helga Markúsdóttir, deildarstjóri lögfræðideildar Samgöngustofu, Sæmundur Kr. Sigurlaugsson, fulltrúi frá Bifreiðastjórafélaginu Frama og Einar Árnason, fulltrúi frá Bifreiðastjórafélaginu Fylki.
Markmið verkefnisins er að leigubifreiðaakstur hér á landi stuðli að góðu aðgengi og hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir neytendur. Tryggt sé að regluverkið sé í fyllsta samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins að EES-rétti. Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa endurskoðað leigubílalöggjöf sína undanfarin ár og fært hana í frjálsræðisátt. Hins vegar hefur löggjöfin á Íslandi og í Noregi lengi verið óbreytt en hún er um margt svipuð í báðum ríkjum.
Auk þess sem getið er um að fram skal hópurinn taka til athugunar önnur atriði sem ráðuneytinu hafa borist ábendingar um að nauðsynlegt sé að skoða, svo sem eftirlitsheimildir Samgöngustofu og viðurlagaákvæði, skilyrði atvinnuleyfis, t.d. hvað varðar aldur, orlofsréttindi, svokölluð ekkjuleyfi og fleira. Þá verði sérstaklega skoðað hvort rétt sé að gera ráð fyrir þjónustu á borð við Uber hér á landi og ef svo er hvaða breytingar séu nauðsynlegar á íslenskri löggjöf til að svo megi verða.