Ráðherra staðfestir hættumat vegna ofanflóða fyrir Sauðárkrók
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra staðfesti hættumat vegna ofanflóða fyrir Sauðárkrók þann 3. mars sl. Undirritunin markar ákveðin tímamót því Sauðárkrókur er síðasti þéttbýlisstaðurinn hér á landi þar sem þörf er talin á hættumati vegna ofanflóða.
Fyrsta hættumatið sem unnið var á grundvelli núgildandi hættumatsreglugerðar var fyrir Neskaupstað og staðfest af ráðherra árið 2002. Hættumat er endurskoðað þegar aðstæður eða forsendur breytast, t.d. þegar varnarvirki eru reist eða ef nýjar upplýsingar koma fram sem kalla á endurskoðun.
Nú hefur hættumat verið unnið fyrir 23 þéttbýlisstaði, auk fjölmargra staða í dreifbýli þar sem hætta hefur verið metin vegna skipulagsgerðar, byggingaráforma eða af öðrum ástæðum.