Aðalfundur Þróunarbanka Evrópuráðsins haldinn á Íslandi
Þróunarbanki Evrópuráðsins (Council of Europe Development Bank, CEB) hélt aðalfund sinn á Íslandi í dag. Fyrr í dag samþykkti bankinn fyrstu lánsumsókn til bankans frá ríkissjóði Ísland, að fjárhæð 150 milljónir evra. Íslensk stjórnvöld sóttu um lánið sem varúðarráðstöfun vegna mögulegra útgjalda í tengslum við náttúruhamfarir í nágrenni Grindavíkur.
„Stuðningur Þróunarbanka Evrópuráðsins er ómetanlegur á þeim óvissutímum sem við stöndum frammi fyrir vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Lán bankans gefur ríkissjóði tækifæri til að mæta fjárþörf vegna útgjalda í tengslum við mótvægisaðgerðir og ráðstafanir fyrir íbúa og heimili í Grindavík,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Ísland var eitt af átta stofnríkjum Þróunarbanka Evrópuráðsins árið 1956. Aðalfundur bankans hefur aðeins tvisvar áður verið haldinn á Íslandi (árin 1971 og 1982) en að þessu sinni er fundurinn haldinn hér á landi í kjölfar formennsku Íslands í Evrópuráðinu, sem lauk með leiðtogafundi í Reykjavík í maí á síðasta ári. Aðalfundirnir eru ávallt kostaðir af Þróunarbankanum, en á annað hundrað þátttakendur frá 43 aðildarríkjum sitja fundinn að þessu sinni.
Formleg dagskrá aðalfundarins hófst í morgun með ávarpi fjármála- og efnahagsráðherra. Meginþema fundarins var hlutverk Þróunarbankans í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og við að stuðla að sjálfbærri þróun. Þá voru viðbrögð ríkja við náttúruhamförum rædd og hvernig bankinn geti best komið ríkjum til aðstoðar í þeim efnum. Þátttakendur fundarins fengu kynningu á vinnu íslenskra stjórnvalda á því sviði og á stöðu mála og viðbrögðum við náttúruhamförum hér á landi. Vakti vönduð vinna íslenskra vísindamanna, stofnana og stjórnvalda hér á landi á því sviði mikla athygli fundarmanna.
Stuðningur Þróunarbankans við Úkraínu var jafnframt eitt af helstu umræðuefnum fundarins, en Úkraína gerðist aðildarríki að bankanum á síðasta ári. Eitt af helstu markmiðum aðgerðaáætlunar bankans 2023-2027 er að styðja við nauðsynlega uppbyggingu í Úkraínu.
Í gær var jafnframt veitt árleg viðurkenning bankans „CEB Award for Social Cohesion“ á viðburði í Eddu, Húsi íslenskra fræða. Skólinn SzkoUA í Varsjá í Póllandi hlaut verðlaunin að þessu sinni. Skólinn styður við aðlögun úkraínskra flóttabarna í Varsjá með því meðal annars að ráða kennara frá Úkraínu og kenna úkraínskt námsefni ásamt pólsku námsefni. Verðlaunin eru veitt til félagslegra verkefna, að undangenginni samkeppni meðal umsækjanda víða í Evrópu. Að þessu sinni voru um 100 aðilar frá 27 ríkjum Evrópu tilnefndir til verðlaunanna og verkefni frá Úkraínu, Póllandi, Slóvakíu, Tyrklandi, Spáni og Frakklandi komust í lokaúrtak.