Forgangsakrein á Miklubraut lengd
Samgönguráðherra, borgarstjóri og framkvæmdastjóri Strætó opnuðu í gær sameiginlega viðbót við forgangsakrein fyrir almenningssamgöngur á Miklubraut. Er hún framlenging á akrein þegar ekið er til vesturs og nær slík akrein nú allt frá Skeiðarvogi að Lönguhlíð.
Vegagerðin greiðir tvo þriðju hluta kostnaðar við framkvæmdina á móti Reykjavíkurborg en alls kostar verkið kringum 170 milljónir króna.
Á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur eftirfarandi meðal annars fram um verkið: Samhliða gerð forgangsakreinar hefur verið unnið að margvíslegum úrbótum á Miklubraut sem liðka fyrir umferðar og auka öryggi vegfarenda. Á gatnamótum Miklubrautar við Háaleitisbraut og Grensásveg hafa verið settar upp umferðarljósabrýr, en slíkar brýr auka öryggi í umferðinni með því að gera umferðarljósin sýnilegri. Við sömu gatnamót er unnið að áfangaskiptingu gönguleiða til að auka öryggi gangandi vegfarenda. Hægri beygjuakreinar af Miklubraut inn á Grensásveg og Háaleitisbraut hafa einnig verið lengdar og þeim hliðrað til norðurs. Loks má nefna að hljóðmön hefur verið útbúin norðan Miklubrautar frá göngubrú við Kringlu að Grensásvegi. Nýja akreinin er rauðlituð og var nýrri aðferð beitt til að tryggja að rauði liturinn haldi sér.