Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Tölum um geðheilbrigði

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Starfshópur sem ég skipaði til að setja fram leiðbeiningar um hvernig fjalla mætti um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum á fordómalausan hátt skilaði niðurstöðum sínum til mín nýlega. Hópurinn var skipaður í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun alþingis í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Hópurinn leitaðist við að kynna sér málið frá öllum sjónarhornum og fékk til fundar við sig fjölda sérfræðinga, s.s. notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendur, fjölmiðlafólk og veitendur geðheilbrigðisþjónustu. Formaður starfshópsins var Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Geðhjálpar og í hópnum sátu fulltrúar frá heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Blaðamannafélagi Íslands, Háskóla Íslands og Samráðsvettvangi geðúrræðanna á höfuðborgarsvæðinu.

Markmiðið með vinnu hópsins var ekki að setja reglur um umfjöllun fjölmiðla um þessi mál, heldur miklu frekar að setja fram viðmið fyrir fjölmiðla sem vonandi nýtast sem leiðarvísir í umfjöllun um geðheilbrigðismál. Viðmiðin eru því hugsuð sem stuðningur fyrir fjölmiðla sem vilja fjalla af ábyrgð um geðheilbrigðismál og aðstæður fólks sem á einhverjum tíma í líf sínu glímir við geðrænan vanda.

Það má ekki skilja viðmiðin sem svo að ætlunin sé að draga úr umfjöllun um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum. Mikilvægi opinnar umræðu í þessum málaflokki er þvert á móti mjög mikilvæg. Allt sem við gerum til að draga úr fordómum í samfélaginu, að hverju sem þeir fordómar beinast, er af hinu góða. Heiðarleg, opin og vönduð umræða um geðheilbrigðismál þar sem fjallað er af virðingu um þá sem hlut eiga að máli er því þýðingarmikil.

Starfshópurinn skipti verkefni sínu í tvennt og vann annars vegar viðmið vegna almennrar umfjöllunar um geðheilbrigðismál og hins vegar viðmið vegna umfjöllunar um sjálfsvíg. Viðmiðin sem snúa að almennri umfjöllun um geðheilbrigðismál innihalda til dæmis leiðbeiningarorð um það að ljá eigi fólki með geðrænan vanda rödd í fjölmiðlum, ýta ekki undir staðalímyndir fólks með geðrænan vanda með röngum eða fordómafullum  ummælum og skilgreiningum, og kynda ekki undir fordóma um að fólk með geðrænan vanda sé hættulegra en annað fólk.

Hvað umfjöllun um sjálfsvíg varðar tók hópurinn fram í viðmiðum sínum að mikilvægt sé sýnum varúð í umfjöllun um sjálfsvíg almennt, fræða almenning og gæta nærgætni í viðtölum við aðstandendur.

Ég vona að þau muni ná eyrum sem flestra sem starfa í fjölmiðlum, en einnig til almennings. Við þurfum nefnilega líka að líta í eigin barm og vera meðvituð um að það sem við skrifum og deilum á samfélagsmiðlum og á netið almennt hefur áhrif. Ég er þess fullviss um að þessi vinna muni koma að góðum notum, leiða til opnari umræðu um geðheilbrigðismál og þar með eyða fordómum.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 2. nóvember 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta