Hoppa yfir valmynd
5. október 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði vegna tæknifrjóvgana

Í kjölfar þess að samningur Sjúkratrygginga Íslands við ArtMedica um tæknifrjóvganir rann út, hefur velferðarráðherra sett reglugerð um endurgreiðslu sjúkratrygginga vegna kostnaðar við tæknifrjóvgun sem veitt er án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Með reglugerðinni er Sjúkratryggingum Íslands veitt heimild til að endurgreiða sjúkratryggðum hluta útlagðs kostnaðar (heildarverðs) við tæknifrjóvgunarmeðferð á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út. Heimildin gildir frá 1. október til 31. desember 2011.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu verða þau sömu og áður og sömuleiðis reglur um hlutfallslega kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga af heildarverði sem er eins og hér segir:

1.      Par sem ekki á barn saman:
a. fyrsta meðferð                     40%
b. önnur til fjórða meðferð       65%

2.      Par sem á eitt barn saman
a. fyrsta til fjórða meðferð        15%

Inni í heildarverði er kostnaður vegna nauðsynlegra rannsókna, heimsókna til tæknifrjóvgunarsérfræðinga og vegna lyfja, annarra en örvunarlyfja eggjastokka, en um greiðslu þeirra fer samkvæmt reglugerð um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði.

Greiðsluþátttaka vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar sem hófst fyrir 1. október

Sjúkratryggingar Íslands og ArtMedica hafa gert með sér samkomulag um að þeir einstaklingar sem hófu glasa- eða smásjármeðferð hjá fyrirtækinu áður en samningurinn við Sjúkratryggingar rann út 1. október muni ljúka yfirstandandi meðferð á grundvelli hans. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna meðferðarinnar verður því veitt á sömu forsendum og kveðið var á um í samningnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta