Hoppa yfir valmynd
6. október 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Bætt heilbrigði og heilbrigðisþjónusta við ungt fólk

Starfshópur sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði 1. september 2010 til að gera tillögur um leiðir til að efla heilbrigði og bæta heilbrigðisþjónustu við ungt fólk á aldrinum 14–23 ára hefur lokið störfum og skilað velferðarráðherra skýrslu sinni.

Í skipunarbréfi segir að ástæða þess að hópurinn skuli skoða aðstæður ungs fólks til 23 ára aldurs í stað þess að miða við 18 ár eins og tíðkist, séu þær að margt bendi til þess að skörp skil við þann aldur valdi einmitt vandkvæðum og hindri nauðsynlega samfellu í heilbrigðisþjónustu við einstaklinga. Var starfshópnum falið að kanna hvort svo sé og gera tillögur um úrbætur.

Hópurinn afmarkaði vinnu sína við skoðun á stöðu mála í einstökum málaflokkum. Einkum var litið til íslenskra rannsókna á heilsu og högum ungs fólks en einnig horft til reynslu annarra þjóða og rætt við heilbrigðisstarfsmenn. Í skýrslunni er rakin staða ýmissa málaflokka sem snúa að heilbrigði og lífsstíl ungs fólks og veitt yfirlit um ýmis úrræði sem í boði eru.

Fjallað er um ofþyngd og offitu hjá ungu fólki, tannheilsu, geðheilbrigði, sjálfsvíg og sjálfsvígshugleiðingar, vímu- og fíkniefnaneyslu, slys og meiðsli meðal ungmenna, kynferðislegt ofbeldi, einelti, kynheilbrigði og kynhegðun og ungt fólk með langvinnan heilsuvanda.

Skýrslan veitir ekki tæmandi yfirlit um heilbrigði og heilbrigðisþjónustu við ungt fólk en gefur ágæta mynd af því hvernig staða ungs fólks er í dag og hvernig þjónustu er háttað í þeim málum sem nefndin fjallaði um.

Niðurstaða starfshópsins er sú að staða ungmenna á Íslandi sé að jafnaði góð en tiltekinn hópur glími við vanda af mismunandi toga og alvarleika. Þótt margt sé vel gert vanti nokkuð upp á samhæfingu og samþættingu þeirrar þjónustu sem í boði er til að bæta hana og nýta betur takmarkað fjármagn. Hópurinn bendir einnig á að þjónusta sem miðar að velferð ungra barna, fullorðinna og eldri borgara henti ekki alltaf vel ungu fólki. Því þurfi að sníða þjónustuna að þeirra þörfum, taka mið af þroska þeirra og áherslum. Hætta sé á því að vissir hópar verði útundan í þjónustunni og því mikilvægt að finna leiðir til að styðja betur við bakið á þeim í framtíðinni.  

Þær umbótatillögur sem starfshópurinn leggur sérstaka áherslu á eru að:

  • Auka samstarf hinna ýmsu fagaðila sem vinna með heilbrigði ungs fólks.
  • Efla rannsóknir og koma upp sterkum gagnagrunnum með góðu aðgengi og þar með auka þekkingu og reynslu á sérstöðu ungs fólk.
  • Nýta reynslu annarra þjóða þar sem vel hefur tekist til við að veita góða og aðgengilega þjónustu fyrir ungt fólk.

Bætt heilbrigðisþjónusta og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14-23 ára.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta