Spennt að sjá Úganda með augum unglingsins
Elíza Gígja Ómarsdóttir fimmtán ára reykvísk stúlka hefur verið valin til að taka þátt í gerð heimildarmyndar um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem utanríkisráðuneytið fyrir hönd íslenskra stjórnvalda stendur að í samvinnu við auglýsingastofuna Hvíta húsið og RÚV. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti Elízu Gígju óvænt niðurstöðuna í gær á Víkingsvellinum í Fossvogi. “Fimmtán ára stúlka trúði vart sínum eigin augu og eyrum í dag þegar forsætisráðherra tilkynnti henni óvænt að hún færi fyrir Íslands hönd til Úganda,” sagði í frétt RÚV í gærkvöldi.
Elíza Gígja var í hópi rúmlega áttatíu umsækjenda sem svöruðu kalli íslenskra stjórnvalda sem auglýstu í sumar eftir unglingi, fæddum 2003, til þátttöku í verkefni til kynningar á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin voru samþykkt af öllum aðildarþjóðum SÞ haustið 2015 og fela í sér metnaðarfyllstu markmið sem þjóðir heims hafa sett sér til að bæta heiminn í þágu mannkynsins og jarðarinnar, fyrir árslok 2030.
Um er að ræða aðra kynningarherferð stjórnvalda á öllum helstu miðlum landins um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Fyrri herferðin fór fram í lok mars og fólst í því að greina frá nokkrum góðum fréttum úr framtíðinni. Að þessu sinni er kastljósinu hins vegar beint að þróunarsamvinnu á vegum utanríkisráðuneytisins.
Elíza Gígja var valin til þess að fara sem fulltrúi íslenskra unglinga til Úganda til að spegla eigin tilveru í samanburði við jafnaldra í Úganda í ljósi Heimsmarkmiðanna. Úganda er eins og flestum er kunnugt annað tveggja samstarfslanda Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og ferðin til Úganda verður farin í lok næsta mánaðar.
Í Sjónvarpsfréttinni í gærkvöldi sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að það hafi verið sérstaklega gaman að fá að koma Elízu svona á óvart.
„Ég er mjög ánægð með að skynja þann mikla áhuga sem er hjá börnum og ungmennum á þessu mikilvæga verkefni.“
-Hefurðu einhvern tímann komið einhverjum jafnmikið á óvart?
„Nei. Hún Elíza var mjög hissa. Og það er gaman að fá að taka þátt í svona uppákomu. En ég vona að þetta verði mikilvæg reynsla fyrir hana en ekki síður að hún nái að miðla þeirri reynslu til bæði sinna jafnaldra en líka okkar hinna, stjórnmálamannanna ekki síst.“
Sjálf segist Elíza mjög spennt að fara til Úganda.
„Ég er bara að fara að gá hvernig þetta er og sjá þetta með augum unglingsins og miðla því áfram,“ segir hún.
Leikstjóri heimildarmyndarinnar er Sigtryggur Magnason og Hvíta húsið framleiðir.