Árlegur minningardagur um þá sem látist hafa í umferðarslysum
Sunnudaginn 16. nóvember verður minnst þeirra sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður í fjórða sinn til þessarar athafnar en efnt er til hliðstæðrar athafnar víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.
Athöfn verður við bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi í Reykjavík eins og verið hefur og hefst hún klukkan 11. Landsmenn eru hvattir til að nota þennan dag til að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni og jafnframt íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber sem þátttakandi í umferðinni. Boðað verður til einnar mínútu þagnar klukkan 11:08.
Þessi dagur er ekki aðeins tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur jafnframt skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Eru þessum starfsstéttum þannig færðar þakkir fyrir það mikilvæga og óeigingjarna starf sem þær sinna á sviði slysamóttöku og meðferðar.
Gert er ráð fyrir að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar lendi á þyrlupalli bráðamóttökunnar rétt fyrir athöfnina og í kjölfar þess verður ökutækjum viðbragðsaðila stillt upp við þyrluna. Má þar nefna lögreglubíla og bifhjól, sjúkrabíla, slökkviliðsbíla, björgunarsveitarbíla og fleiri.
Athöfnin hefst sem fyrr er greint klukkan 11 og að loknum ávörpum forseta Íslands og innanríkisráðherra segja tveir einstaklingar frá lífsreynslu sinni og störfum tengdum umferðarslysum.
Aðstandendur og aðrir sem minnast vilja þeirra sem hafa látist í umferðarslysum eru velkomnir á minningarstundina. Þátttakendum er í framhaldinu boðin hressing í bílageymslu bráðamóttökunnar.
Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða í umferðaröryggi annast undirbúning og framkvæmd athafnarinnar.