Samstarf leiðin til að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika hafsins
Gott samstarf Norður-Atlantshafsríkja er grunnur þess að tryggja megi líffræðilegan fjölbreytileika hafsins sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ávarpi sínu á fundi nefndar OSPAR-samningsins um líffræðilega fjölbreytni (BDC).
Ísland tekur þátt í víðtækri vöktun á ástandi hafsins og aðgerðum til verndar umhverfi þess á grunni OSPAR-samningsins, sem 15 ríki í norðan- og vestanverðri Evrópu eiga aðild að, auk Evrópusambandsins. Fundur nefndar samningsins um líffræðilega fjölbreytni var settur í Reykjavík í dag en hann stendur til föstudags.
Ráðherra sagði að heilbrigt vistkerfi sjávar væri grundvöllur hagkerfis og samfélags á Íslandi. Sjálfbærar fiskveiðar væru afar mikilvægar fyrir Íslendinga og sömuleiðis að tryggja heilbrigt og ómengað vistkerfi hafsins.
„Við verðum að draga úr neikvæðum áhrifum mannlegrar starfsemi eftir föngum og tryggja að framtíðarkynslóðir haldi áfram að njóta góðs af auðlindum sjávar. Vernd og sjálfbær nýting eru tvær hliðar á sama máli og við verðum að horfa til þeirra beggja,“ sagði ráðherra.