Hoppa yfir valmynd
18. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 192/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. mars 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 192/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. júní 2010. Umsókn kæranda var samþykkt á fundi stofnunarinnar þann 15. júní 2010 og voru kæranda greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 32. gr. og 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi er ósátt við útreikning tekjutengdra atvinnuleysisbóta sinna. Hún vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 13. október 2010. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi tekjutengdra atvinnuleysisbóta í máli kæranda.

Kærandi var í 80% starfshlutfalli hjá X hf. en missti þá vinnu 31. maí 2010 vegna hagræðingar. Hún kveðst eiga að fá 70% í tekjutengdar bætur af heildarlaunum og eigi starfshlutfallið ekki að hafa áhrif á bæturnar, fyrir utan að setja hámarksupphæð bótanna. Heildarlaun kæranda voru Y kr. á því sex mánaða tímabili sem miðað er við skv. 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar reiknað er 70% af meðaltali þeirra launa fást Y kr. Kærandi telur að henni beri tekjutengdar bætur sem miðist við þessa fjárhæð og að ekki skuli skerða þær miðað við það starfshlutfall sem hún hafi verið í á ávinnslutímabilinu. Kærandi vísar til 2. mgr. og 6. mgr. 32. gr. laganna máli sínu til stuðnings. Bendir hún á að ekki sé fjallað um starfshlutfall í þeim greinum heldur einungis vísað til hámarksfjárhæðar meðaltals heildarlauna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. febrúar 2011, kemur fram að skv. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar öðlist atvinnuleitandi sem skráður er atvinnulaus rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði eftir að grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í tíu daga. Við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum sé byggt á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur umsækjanda, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar miðist fjárhæð atvinnuleysistrygginga alltaf við það tryggingahlutfall sem umsækjandi hafi áunnið sér, byggt á starfshlutfalli eða starfstíma eftir atvikum. Við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum beri Vinnumálastofnun því að taka mið af prósentuhlutfalli hlutastarfs við útreikning. Hámarksfjárhæð tekjutengingar eins og hún komi fram í 32. gr. laganna ásamt athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, marki einungis það hámark er atvinnuleitandi kunni að eiga rétt til hafi hann verið í fullu starfi. Eigi þá eftir að skera úr um fjárhæð í hlutfalli við tryggingarhlutfall umsækjanda.

Kærandi telji aftur á móti að ekki beri að taka tillit til starfshlutfalls hennar á ávinnslutímanum þegar reiknaðar eru tekjutengdar bætur, heldur beri henni að fá greiddar hámark tekjutengdra bóta í þrjá mánuði. Kærandi telji að henni beri tekjutengdar bætur sem miðist við 70% af meðaltali heildarlauna hennar á því sex mánaða tímabili sem miðað sé við skv. 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að ekki skuli skerða þær miðað við það starfshlutfall sem hún hafi verið í á ávinnslutímabilinu. Vísi kærandi til 2. mgr. og 6. mgr. 32. gr. laganna máli sínu til stuðnings. Bendi hún á að ekki sé fjallað um starfshlutfall í þeim greinum heldur einungis vísað til hámarksfjárhæðar meðaltals heildarlauna.

Á þessa lögskýringu fallist stofnunin ekki og taki mið af starfshlutfalli kæranda eftir að reiknað hafi verið meðaltal heildarlauna og vísi þar til 2. mgr., sbr. 4. mgr. 15. gr. laganna. Það sé eindregin afstaða stofnunarinnar að samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum skuli túlka lög og lagabálka sem heild og í því felist að einstakar greinar skuli túlka með tilliti til efnis annarra greina innan sömu laga.

Kærandi hafi einungis verið í 80% starfshlutfalli og sé því, skv. 2. mgr. sbr. 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, reiknuð 80% af 70% meðaltali heildarlauna hennar á ávinnslutímanum. Það geri Y kr. sem gefi henni sem samsvari Y kr. á dag eða Y kr. á mánuði, í þrjá mánuði eftir að grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í tíu daga, sbr. 1. og 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 21. febrúar 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta snýst um hlutfall réttar kæranda til tekjutengda atvinnuleysisbóta en hún var í 80% starfi þegar hún missti vinnu sína. Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svona:

„Tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skulu nema 70% af meðaltali heildarlauna og skal miða við sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald en ekki skal miða við tekjur af störfum er umsækjandi gegnir áfram, sbr. 17. og 22. gr. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem umsækjandi hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.“

Í 6. mgr. lagagreinarinnar er fjallað um hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta og hljómar hún svona:

 

„Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. skal hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hverjum mánuði miðast við tryggingarhlutfall hins tryggða þannig að þær nemi aldrei hærri fjárhæð en 180.000 kr. á mánuði miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu, sbr. 15. eða 19. gr. Til að finna út atvinnuleysisbætur fyrir hvern dag skal miða við 21,67 daga.“

Um síðastnefnda ákvæðið sagði meðal annars svo í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar:

„Þó er gert ráð fyrir að hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta miðist við tryggingarhlutfall hins tryggða þannig að slíkar atvinnuleysisbætur geti ekki numið hærri fjárhæð en 180.000 kr. miðað við óskertar atvinnuleysistryggingar. Miðað er við að hvert hlutfallsstig nemi 1.800 kr. Í þeim tilvikum er tryggingarhlutfall umsækjanda samkvæmt frumvarpinu nemur fjórðungi af óskertum atvinnuleysistryggingum á hann rétt til 70% af meðaltali heildarlauna en þó aldrei hærri fjárhæð en 45.000 kr.“

Í ljósi þessara ummæla verður að skýra tilvitnuð lagaákvæði svo að tekjutengdar atvinnuleysisbætur séu háðar tilteknu hámarki og þetta hámark taki breytingum eftir því hvaða starfshlutfalli atvinnuleitandi var í áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Þar sem kærandi var í 80% starfshlutfalli áður en hún hóf töku atvinnuleysisbóta lækka tekjutengdar atvinnuleysisbætur til hennar í hlutfalli við það.

 

Með vísan til þess sem hér hefur komið fram, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning tekjutengdra atvinnuleysisbóta A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta