Hoppa yfir valmynd
26. september 2011 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 9. september 2011

Mál nr. 66/2011                    Eiginnafn:     Nývarð

 

Hinn 9. september 2011 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 66/2011 en erindið barst nefndinni 12. ágúst. Mannanafnanefnd hefur áður fundað um mál þetta þann 16. ágúst og 2. september en taldi í bæði skiptin nauðsynlegt að fresta afgreiðslu málsins til frekari skoðunar þess:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði (2). Eiginnafnið Nývarð (nefnifall) er án þeirrar endingar sem hefðbundið væri í íslensku máli að gefa sambærilegum nöfnum, sbr. Ásvarður, Guðvarður, Hallvarður, Hávarður, Játvarður, Sigvarður, Steinvarður og Þorvarður. Eitt dæmi er um sambærilegan síðari lið, í nafninu Eðvarð, sem einnig hefur verið heimilað með rithættinum Edvard. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 45/1996 segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Í athugasemdunum kemur fram að umræddu skilyrði sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Nöfn eins og Guðmund og Þorstein (í nefnifalli) eru því óheimil, og sama myndi eiga við um nöfn á borð við Þorvarð og Guðvarð (í nefnifalli).

Rétt er að benda á að tvö skilyrði 1. mgr. 5 gr., fyrsta skilyrðið (um eignarfallsendingu) og þriðja skilyrðið (um rithátt) eru ekki ófrávíkjanleg. Fallast skal á nafn (eða rithátt) ef það hefur öðlast hefð, jafnvel þótt það uppfylli ekki kröfur um eignarfallsendingu eða rithátt. Sambærilegt orðalag er ekki notað í skilyrði ákvæðisins um að nafn skuli samrýmast íslensku málkerfi. Í því ljósi hefur mannanafnanefnd litið svo á að það skilyrði laga um mannanöfn að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi sé ófrávíkjanlegt. Til þess er hins vegar að líta að málkerfið er að stórum hluta samansafn hefða. Réttur til nafns er hluti af rétti manna til einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Verða takmarkanir sem fram koma í lögum um mannanöfn á þeim rétti því ekki túlkaðar mjög þröngt. Tilgangur laga um mannanöfn er m.a. sá að vernda íslenska tungu, íslenska nafnsiði og að tryggja nafngjöf og skráningu mannanafna. Eiginnafnið Nývarð hefur ákveðinn sess í íslenskri tungu. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafa tveir menn borið nafnið. Annar var fæddur 1910 og hinn 1966. Eiginnafnið Nývarð myndi ekki fela í sér afbökun rótgróins íslensks nafns þar sem nafnið Nývarður er ekki til. Auk þess er sambærilegt eiginnafn til, þ.e. Eðvarð. Nafnið beygist án vandkvæða og er ritað í samræmi við íslenskar ritreglur. Fallist er á beiðni um eiginnafnið Nývarð.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Nývarð (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta