Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2012

Fimmtudaginn 30. ágúst 2012

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 9. janúar 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 2. janúar 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 31. október 2011, um útreikning á greiðslum.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 16. janúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 18. janúar 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 29. janúar 2012.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi flutt til C-lands í janúar 2009 vegna atvinnumissis í kjölfar bankahrunsins. Maður kæranda hafi fengið vinnu á Íslandi og hafið störf 1. ágúst 2011 en þau hafi ákveðið að hún myndi verða eftir í C-landi þar til barnið myndi fæðast í lok október til þess að fá fæðingarorlof í C-landi en kærandi hafi haldið að hún ætti ekki rétt á íslensku fæðingarorlofi.  Fæðingarorlof frá C-landi sé um X  á mánuði í níu mánuði eða um X þúsund íslenskar krónur fyrir skatt, sem kærandi hefði getað tekið með sér til Íslands.

Kærandi kveðst engu að síður hafa haft samband við Fæðingarorlofssjóð til að athuga rétt sinn til fæðingarorlofs á Íslandi. Hjá Fæðingarorlofssjóði hafi hún fengið þær upplýsingar að ef hún og maðurinn hennar myndu flytja til Íslands um vorið myndu þau bæði ná að safna inn réttindum fyrir íslenskt fæðingarorlof því tekið væri tillit til vinnu í öðrum Evrópulöndum. Þá kveðst kærandi hafa spurt hvað greiðslurnar væru háar og fengið að vita að hámark greiðslna væri 300 þúsund krónur. Þar sem þau hafi haft mun hærri laun hafi þau gert ráð fyrir því að fá þetta hámark í greiðslur. Kærandi greinir frá því að starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs hafi aldrei nefnt að ekki væri hægt að taka tillit til erlendra launaseðla og með því að eiga barnið á Íslandi myndu þau bæði falla niður í lágmarksfjárhæð. Kærandi greinir jafnframt frá því að í kjölfar þessa upplýsinga hjá Fæðingarorlofssjóði hafi hún tekið ákvörðun um að flytja með manninum sínum til Íslands um vorið þar sem hún hafi talið að þau ættu tilkall til hámarksgreiðslna sem séu ekki mikið lægri en fæðingarorlof frá C-landi. Kærandi bendir á að hvergi á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs komi fram að ekki sé tekið tillit til erlendra launaseðla. Þvert á móti sé hægt að lesa um undanþágu frá reglunni um sex mánuði á innlendum vinnumarkaði þar sem tekið sé fram að það sé „tekið tillit til starfstímabila í öðru aðildarríki að samningnum um EES, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar o.s.frv.“

Kærandi telur að sökum fyrrgreindra leiðbeininga Fæðingarorlofssjóðs eigi hún rétt á endurreikningi greiðslna í fæðingarorlofi.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 5. september 2011, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns þann 29. október 2011. Handskrifaðar athugasemdir hafi verið aftan á umsókninni. Auk umsóknarinnar hafi borist tvær tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 5. og 22. september 2011, launaseðlar frá C-landi fyrir apríl og maí 2011, E-104 vottorð, dags. 13. apríl 2011, staðfesting á lækkun reiknaðs endurgjalds til RSK, dags. 22. september 2011, yfirlit um tryggingagjald, dags. 31. ágúst 2011, tölvupóstur frá RSK, dags. 30. september 2011, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 8. september 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Þann 31. október 2011 hafi kæranda verið send greiðsluáætlun með útreikningum á væntanlegum greiðslum þar sem fram hafi komið að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 5. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008 og c-lið 16. gr. laga nr. 120/2009, þar sem kveðið sé á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr., skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals reiknaðs endurgjalds sem umfram er og að miða skuli við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Að öðru leyti gilda ákvæði 2.–4. mgr. eins og við geti átt.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. komi þannig fram að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við almanaksmánuði og að áfram sé tekið fram að ekki skuli taka tillit til tekna sem foreldri hefur unnið til utan innlends vinnumarkaðar.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að barn kæranda sé fætt þann Y. október 2011 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem tryggingagjald hefur verið greitt af tekjuárið á undan fæðingarári barnsins að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals reiknaðs endurgjalds sem umfram sé þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði á árinu 2010, sbr. 5. mgr. 13. gr.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í tryggingagjaldskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting um að upplýsingar úr tryggingagjaldskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Á árinu 2010 hafi kærandi ekki reiknað sér endurgjald sem tryggingagjald hafði verið greitt af. Hún hafi aftur á móti verið búsett og starfandi í C-landi á tímabilinu þar sem hún hafi greitt skatta af sínum launum. Því beri að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali reiknaðs endurgjalds kæranda þar sem hún hafi hvorki verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu í skilningi 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 5. mgr. 13. gr. ffl., né greitt tryggingagjald af launum samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

Þar sem kærandi var ekki með reiknað endurgjald á viðmiðunartímabili 5. mgr. 13. gr. ffl. kemur 4. mgr. til skoðunar. Þar segir að þegar starfsmaður (sjálfstætt starfandi einstaklingur) uppfyllir skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. (5. mgr. í tilviki sjálfstætt starfandi einstaklings) skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 7. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans. Í samræmi við 7. mgr. voru greiðslur til foreldra í 50–100% starfi aldrei lægri en X kr. á árinu 2011 en frá 1. janúar 2012 hækkuðu þær í X kr. sem eru þær fjárhæðir sem kærandi var afgreidd með.

Í ffl. og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008, sé ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 5. mgr. 13. gr. ffl., sbr. ákvæði 2.–4. mgr. 13. gr. ffl., við útreikning á meðaltali reiknaðs endurgjalds kæranda. Eins og fram komi í ákvæðinu skuli einungis miða við meðaltal reiknaðs endurgjalds fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði.

Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 31. október 2011, beri með sér réttan útreikning á greiðslum.

 

III.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.

Í athugasemdum kæranda vísar hún meðal annars til upplýsinga á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Starfshlutfall í hverjum mánuði þurfi að vera a.m.k. 25%. Þá bendir kærandi á að í gildi sé undanþága frá reglunni um sex mánuði á innlendum vinnumarkaði, sem er að finna í 12. mgr. 13. gr. ffl., þar sem mælt sé fyrir um að taka eigi tillit til starfstímabila í öðru aðildarríki að EES-samningnum og öðrum nánar tilgreindum alþjóðasamningum.

Á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs komi hvergi fram að ekki sé heimilt að taka erlenda launaseðla til greina sem þýði að fólk sem sé nýflutt til landsins lendi allt í að fá einungis greidda lágmarksfjárhæð. Þvert á móti sé tekið fram á heimasíðunni að tekið sé tillit til vinnu erlendis og strax í framhaldinu sé talað um að mánaðarlegar greiðslur skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Hvergi sé minnst á innlend heildarlaun.

 

IV.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi, dags. 31. október 2011.

Kærandi byggir á því að taka skuli tillit til launa hennar sem hún aflaði í C-landi. Í athugasemdum sínum vísar hún til ákvæðis 12. mgr. 13. gr. ffl., því til stuðnings þar sem fram komi meðal annars að þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og nánari tilgreindum alþjóðasamningum. Af kæru má ráða að kærandi telur að Fæðingarorlofssjóður hafi litið framhjá þessu ákvæði við mat á því hvort heimilt sé að taka tillit til launa hennar sem aflað var í C-landi.

Í 1. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr.

Óumdeilt er að kærandi á tilkall til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði. Ákvæði 12. mgr. 13. gr. ffl. kemur einungis til skoðunar við mat á því hvort foreldri eigi tilkall til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði en ekki við mat á útreikningi greiðslna frá sjóðnum, svo sem kærandi virðist telja.

Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl., sbr. d-lið 8. gr. laga nr. 74/2008 og a-lið 16. gr. laga nr. 120/2009, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr., nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals reiknaðs endurgjalds sem umfram er og skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns. Að öðru leyti gilda ákvæði 2.–4. mgr. eins og við getur átt.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, a-lið 16. gr. laga nr. 120/2009 og a-lið 3. gr. laga nr. 136/2011, er meðal annars skilgreint hvers konar greiðslur teljist til launa samkvæmt ákvæðinu. Skýrt er tekið fram í lokamálsliðum 2. mgr. 13. gr. ffl. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 4. mgr. 13. gr. ffl., sbr. b-lið 3. gr. laga nr. 136/2011, kemur fram að þegar starfsmaður uppfyllir skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 7. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans.

Barn kæranda er fætt Y. október 2011 og er því viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar skv. 5. mgr. 13. gr. ffl. tekjuárið 2010. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra var ekki reiknað endurgjald fyrir kæranda sem tryggingagjald var greitt af né fékk hún greidd laun árið 2010 en samkvæmt gögnum málsins var kærandi búsett og starfandi í C-landi á tímabilinu 21. febrúar 2009 til 18. apríl 2011.

Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 13. gr. ffl. að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, þó skuli aldrei miða við færri mánuði en fjóra við útreikning meðaltals heildarlauna. Engar undantekningar er að finna í lögunum eða reglugerð nr. 1218/2008 frá þeirri reglu. Þá er óheimilt að líta til annarra tekna á viðmiðunartímabilinu en þeirra sem aflað er á innlendum vinnumarkaði og tryggingagjald hefur verið greitt af.

Kærandi heldur því fram að hún hafi fengið rangar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði um fjárhæð greiðslna til sín og á grundvelli þessara röngu upplýsinga hafi hún ákveðið að fæða barnið á Íslandi. Í skráningu Fæðingarorlofssjóðs á samskiptum við kæranda, sem úrskurðarnefnd kallaði eftir, kemur ekkert fram um ráðgjöf Fæðingarorlofssjóðs til kæranda um þetta atriði, né heldur í öðrum gögnum málsins. Af þeim sökum hefur ekki verið sýnt fram á að leiðbeiningarskylda hafi verið vanrækt í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta