Ráðstefnur um hlutastörf, jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði 12. og 13. nóvember
Niðurstöður úr norræna rannsóknarverkefninu; Hlutastörf, kyn og dreifing tekna, verða kynntar á norrænni ráðstefnu um jafnrétti á vinnumarkaði 12. nóvember. Erlendir og hérlendir fyrirlesarar fjalla um fjölmörg málefni tengd jafnrétti á vinnumarkaði á tveimur ráðstefnum um efnið 12. og 13. nóvember.
Ísland fer í ár með formennsku í starfi norrænu ráðherranefndarinnar og leggur í samræmi við stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í jafnréttismálum meðal annars áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði og mun þannig halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var af Norðmönnum og Svíum á árunum 2012 og 2013. Mörg verkefni og rannsóknir um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á vinnumarkaði eru í burðarliðnum og verða þau kynnt almenningi á formennskuárinu. Formennskuárið er einnig nýtt til að efla umræður meðal norrænna stjórnvalda um árangursríkar leiðir til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og um hvaða aðgerðir hafa gefið góða raun til að draga úr kynbundnum launamun. Þá er lögð áhersla á kynningu rannsókna um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.
Í nóvember verða haldnar tvær samliggjandi ráðstefnur um jafnlauna- og vinnumarkaðsmál. Norræna rannsóknarverkefninu Hlutastörf, kyn og og dreifing tekna (s. Deltid, kön och ekonomisk fördeling) lauk um mitt ár 2014 og verða niðurstöður þess kynntar á ráðstefnu um hlutastörf og áhrif þeirra á jafnrétti á vinnumarkaði þann 12. nóvember. Daginn eftir, þann 13. nóvember, mun norrænn starfshópur um launjafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, í samstarfi við aðgerðahóp íslenskra stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, halda ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði.
Á ráðstefnunum munu margir erlendir og hérlendir sérfræðingar halda erindi og taka þátt í pallorðsumræðum um brennandi spurningar sem snúa að jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaði. Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar þann 13. nóvember eru dr. Daniela Bankier yfirmaður jafnréttismála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambansins og dr. Helga Aune, lögfræðingur og framkvæmdastjóri hjá PricewaterHouse Coopers í Noregi.