Hoppa yfir valmynd
10. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Fiskur og franskir – af upphafi samskipta Íslands og Frakklands

Nína Björk í Paimpol

Sjávarútvegur er aldrei langt undan í verkefnum sendiráða Íslands um heim allan og má segja að síðustu daga hafi fiskurinn verið í nokkru aðalhlutverki í starfi sendiráðsins í París.

Á meðan sendiherrann, Berglind Ásgeirsdóttir, var á Ítalíu – einu af níu umdæmislöndum sendiráðsins - að kynna íslenskan saltfisk ásamt Íslandsstofu nú um daginn, ferðast ég til strandbæjarins Port-en-Bessin til að halda erindi á ársfundi smærri og meðalstórra útgerða um íslenskan sjávarútveg.

Ýmsir erfiðleikar steðja nú að frönskum sjávarútvegi. Sjómennirnir á fundinum höfðu áhyggjur af stöðu ýmissa fiskistofna, flotinn eldist og róðurinn þyngist sífellt. Sjómennirnir hafa ólíkar skoðanir á því hvernig eigi að bregðast við og var erindið um íslenskan sjávarútveg hugsað sem innlegg í þá umræðu.

Það var fiskurinn í hafinu í kringum Ísland sem fyrst leiddi saman frönsku og íslensku þjóðirnar. Á frönsku hefur orðið „Islandais“ tvær merkingar. Það er notað um okkur Íslendinga en einnig yfir frönsku sjómennina sem stunduðu veiðar við Íslandsstrendur í um þrjár aldir. Veiðarnar stóðu sem hæst um aldamótin 1900, en þá voru að jafnaði 200-300 skútur við veiðar á hverju sumri með um 3-5000 sjómenn um borð. Eins og alþjóð veit snéru margar skúturnar ekki aftur og er talið að 4-5000 sjómenn hafi farist.

Minning þessara sjómanna og fjölskyldna þeirra lifir enn góðu lífi í Norðurhéruðum Frakklands og á ströndum Bretagneskagans. Veiðarnar við Ísland voru erfiðar og vosbúðin mikil, en sjómennskan var jafnframt eina atvinnan sem var í boði. Strákar byrjuðu ungir að sækja sjóinn, sumir ekki nema 12 ára gamlir þegar þeir fóru fyrstu ferðirnar. Og lífið var líka erfitt fyrir konurnar sem heima sátu, sem horfðu á eftir eiginmönnum sínum, sonum, feðrum og bræðrum sigla í burt í febrúar á skútum sem ekki máttu sín mikils gegn ógnarkrafti hafsins og bíða síðan án frétta þar til um haustið þegar skipin snéru loks aftur til vetursetu – þ.e.a.s. ef þau snéru aftur.

Íslendingar sem sækja Frakkland heim ættu endilega að heimasækja bæina Gravelines ekki langt frá belgísku landamærunum og Paimpol í Bretagne hafi þeir áhuga á þessari sögu. Síðustu helgina í september er á ári hverju haldin Íslandssjómannahátíð – La fête des Islandais – þar sem minningu þessara manna er haldið á lofti.  Það fór því þannig að beint eftir sjávarútvegserindið í Port-en-Bessin lá leið mín til Gravelines.

Gravelines er vinabær Fáskrúðsfjarðar, sem er hálfgerður höfuðstaður frönsku veiðanna á Íslandi. Til bæjarins var því komin sendinefnd frá Fjarðabyggð eins og á hverju ári til að taka þátt í hátíðarhöldunum. Síðasta sumar var gamli franski spítalinn formlega opnaður á frönskum dögum. Nú er búið að gera húsið upp og opna þar hótel, veitingastað og safn þar sem sögu frönsku sjómannanna er gerð skil. Það segir sitt um efnahagslegt mikilvægi veiðanna að fyrsta sjúkrahúsið sem var byggt á Íslandi var byggt af franska ríkinu.

Kannski er það rómantíkerinn í mér sem gerir það að verkum að ég verð alltaf ferlega meyr þegar ég hugsa um líf þessara sjómannafjölskyldna. Enda las ég með áfergju bæði bók Pierre Loti, Íslandssjómaðurinn eða Pêcheur d'Islande sem hefur gert þessa sögu ódauðlega í Frakklandi, sem og bækur Jóns Kalmans Stefánssonar sem segja frá því hvað líf þeirra sem sóttu sjóinn hér á öldum áður var erfitt.

Ekki langt frá Paimpol, sem er vinabær Grundarfjarðar, er ekknakrossinn svokallaði. Þaðan sést vel út á hafið og var það alþekkt að konur sem sátu þarna dag eftir dag til að líta eftir því hvort þær sæju skip við sjóndeildarhringinn væru orðnar ekkjur. Í Ploubazlanec, rétt hjá Paimpol, er veggur hinna horfnu þar sem sjá má minningarplatta með nöfnum þeirra sem hurfu í hafið. Oft má sjá að margar skútur hafi farist í sama óveðrinu.

Gamall maður sem rekur Íslandssjómannasafnið í Ploubazlanec rétt hjá Paimpol, sem er vinabær Grundarfjarðar, segir frönsku sjómennina hafi verið gáttaða á því hvað Íslendingar tóku vel á móti þeim. Man hann eftir því að heyra þá tala um bjartar nætur, há fjöll og einstaklega gestrisið fólk – sem væri jafnvel enn fátækara en þeir sjálfir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta