Vaxandi atvinnuþátttaka eldra fólks – styttri vinnudagur
Hlutfall kvenna á vinnumarkaði hefur hækkað úr 76,5% árið 2004 í 78,5% árið 2014 en hlutfall karla á vinnumarkaði hefur lækkað lítillega, samkvæmt nýjum Félagsvísum. Hlutfall eldra fólks á vinnumarkaði hefur hækkað á sama tímabili, úr 63,3% í 67,2%. Meðalfjöldi vinnustunda á viku hefur lækkað bæði hjá konum og körlum og í öllum aldurshópum.
Í nýuppfærðum Félagsvísum sem voru birtir fyrir skömmu má lesa ýmsar upplýsingar um atvinnuþátttöku fólks, eftir kyni, aldri og menntunarstigi.
Ef atvinnuþátttaka hér á landi er skoðuð í norrænum samanburði, líkt og gert er í nýlegri skýrslu Nososko (norræn samanburðartölfræði á sviði félagsmála), má sjá að fleiri eru virkir á vinnumarkaði á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum og auk þess eru Íslendingar virkir lengur fram eftir árum. Það er ekki fyrr en við 65 ára aldur íslenskra karlmanna að atvinnuþátttaka þeirra fer niður fyrir 80%. Þessi skil verða miklu fyrr hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, eða við 53 ára aldur í Danmörku og Finnlandi en við 60 ára aldur í Noregi og Svíþjóð. Atvinnþátttaka kvenna hérlendis er einnig meiri en á hinum Norðurlöndunum og þær vinna lengur fram eftir ævinni en norrænar stallsystur þeirra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segir ánægjulegt að sjá hve atvinnuþátttaka hér á landi er mikil og að eldra fólk skuli í vaxandi mæli vera virkt á vinnumarkaði fram eftir aldri. ,,Það væri áhugavert að vita hvað veldur þar mestu en þarna kunna að skipta máli þættir eins og bætt heilsa eldra fólks og félagslegir og efnahagslegir þættir. Sú staðreynd að vinnustundum fækkar held ég að sé mjög jákvæð. Það hefur lengi verið bent á þörfina fyrir aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs og það er ótvírætt liður í því að fjölga samverustundum foreldra og barna. Þeim stundum hefur fjölgað eins og sést í Félagsvísunum og kostir þess eru ótvíræðir."
- Félagsvísar
- Skýrsla Nososko
- Börn og foreldrar verja æ meiri tíma saman