Hoppa yfir valmynd
5. september 2016 Forsætisráðuneytið

642/2016. Úrskurður frá 29. ágúst 2016

Úrskurður

Hinn 29. ágúst 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 642/2016 í máli ÚNU 16040004.  

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 13. apríl 2016 kærði A, ritstjóri fjölmiðilsins B, ákvörðun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að hafna því að gefa upp netföng og vinnusímanúmer hjá starfsmönnum á ákærusviði. Afrit hinnar kærðu ákvörðunar fylgdi kæru en hún var send með tölvupósti þann 12. apríl 2016. Þar kemur fram af hálfu starfsmanns lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að samkvæmt yfirmanni ákærusviðs geti kærandi hvorki fengið netföng ákærenda né bein símanúmer. Kærandi segir ákvörðunina torvelda störf fjölmiðla enda geri hún þeim erfiðara fyrir að kalla eftir upplýsingum, án þess að efnisleg rök séu fyrir hendi, þar sem fyrir liggi að fjölmiðlar hafi rétt á viðkomandi upplýsingum. 

Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. apríl 2016, var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kynnt kæran og gefinn kostur á að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ítrekaði erindi sitt með bréfi, dags. 2. júní 2016, og veitti embættinu frest til 10. júní til að svara erindi úrskurðarnefndarinnar. Umsögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 8. júní 2016, barst úrskurðarnefndinni þann 10. sama mánaðar. Í umsögninni kemur fram að samkvæmt verklagsreglum embættisins séu það stjórnendur þess sem svari fjölmiðlum varðandi málefni sem þar væru til meðferðar nema þeir feli öðrum að svara fjölmiðlum. Því væru símanúmer starfsmanna ekki gefin upp til utanaðkomandi. Stjórnendur hjá embættinu hafi það hlutverk að svara fjölmiðlum fyrir hönd embættisins, veita upplýsingar og vera almennt í forsvari. Tekið er fram að sömu sjónarmið eigi við varðandi netföng starfsmanna. Þá kemur fram að ritari ákærusviðs annist það að afla upplýsinga og láta af hendi ákærur. Lögreglan telur að krafa kæranda um upplýsingar og netföng varði engan veginn rétt til upplýsinga eða með hvaða hætti embættið greiði fyrir því að upplýsingar séu veittar. Það sé óumdeilt að fjölmiðlar og fleiri eigi rétt á afriti af ákærum og láti embættið slíkt af hendi um leið og þess sé kostur. Aðgangur að upplýsingum og þeim starfsmönnum sem láti ákærur af hendi sé greiður og aðgengilegur. Er því mótmælt að nefndin verði við kröfu kæranda.    

Umsögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var kynnt kæranda með bréfi, dags. 10. júní 2016, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.  

Niðurstaða

Í málinu reynir á rétt fjölmiðils til aðgangs að upplýsingum um netföng og vinnusímanúmer opinberra starfsmanna, sem starfa á ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á grundvelli meginreglu 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt almennings.  

Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna er sett fram sú meginregla að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til, taki ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. 7. gr. er að finna undanþágur í 5. töluliðum frá þessari meginreglu vegna starfsmanna stjórnvalda. Kemur þar meðal annars fram í 2. tölul. 2. mgr. greinarinnar að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið. Ekki er að finna ákvæði sem leggur þá skyldu á stjórnvöld að upplýsa almenning um netföng eða vinnusímanúmer einstakra starfsmanna. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að líta svo á að netföng starfsmanna og vinnusímanúmer falli undir gögn um starfssambandið í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Enda þótt mörg stjórnvöld kjósi að birta slíkar upplýsingar um starfsmenn sína verður að telja þeim heimilt að velja sjálf fyrirkomulag slíkrar upplýsingagjafar, sbr. m.a. 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest synjun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni kæranda um netföng og vinnusímanúmer starfsmanna á ákærusviði. 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. apríl 2016, um að synja beiðni A f.h. B um aðgang að gögnum um netföng og símanúmer starfsmanna á ákærusviði. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                       Friðgeir Björnsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta