Hoppa yfir valmynd
5. september 2016 Forsætisráðuneytið

643/2016. Úrskurður frá 29. ágúst 2016

Úrskurður

Hinn 29. ágúst 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 643/2016 í máli ÚNU 16080007.  

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi dags. 10. ágúst 2016 kærði A synjun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum á afhendingu annars vegar afrits af lögregluskýrslum í Vestmannaeyjum í málum sem kærð voru dagana 30. júlí til 2. ágúst og hins vegar afrits af dagbók lögreglu sömu daga.  

Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum er tekið fram að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Í gagnabeiðni kæranda er óskað gagna sem lúta að rannsóknum lögreglu í sakamálum en um slíkar rannsóknir fer eftir 2. þætti laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Er því ekki um að ræða gögn sem heyra undir valdsvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál með vísan til 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Er kæru vegna synjunar á afhendingu afrits af lögregluskýrslum og dagbók lögreglu því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.  

Úrskurðarorð:

Kæru A vegna synjunar lögreglustjórans í Vestmannaeyjum á afhendingu afrits af lögregluskýrslum í Vestmannaeyjum í málum sem kærð voru dagana 30. júlí til 2. ágúst og afrits af dagbók lögreglu sömu daga, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.  

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                       Friðgeir Björnsson

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta