Hoppa yfir valmynd
30. september 2016 Forsætisráðuneytið

646/2016. Úrskurður frá 20. september 2016

Úrskurður

Hinn 20. september kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 646/2016 í máli ÚNU 15100010.  

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 22. október 2015, kærði Íslenska gámafélagið ehf. synjun Dalvíkurbyggðar, dags. 16. október 2015, á beiðni um gögn og upplýsingar um samningsaðila og lægstbjóðanda í útboði Dalvíkurbyggðar: „Sorphirða í Dalvíkurbyggð og þjónusta við endurvinnslustöðvar 2015-2020“. Í kæru er þess krafist að Dalvíkurbyggð verði gert að afhenda kæranda gögn og upplýsingar um Gámaþjónustu Norðurlands hf. í útboðinu en tilboði þess félags hafi verið tekið.  

Með bréfi, dags. 8. október 2015, fór kærandi þess á leit við Dalvíkurbyggð að honum yrðu afhent öll þau gögn sem lágu til grundvallar við mat á hæfi og hæfni bjóðandans Gámaþjónustu Norðurlands ehf. og vali tilboðs, þar með talin tilboðsskrá og önnur gögn sem talin eru upp í útboðsgögnum. Í bréfinu er vísað til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi í fjölmörgum úrskurðum úrskurðað að bjóðanda í útboði sé heimilt að fá aðgang að tilboðsgögnum þess bjóðanda sem valið var að semja við í sama útboði en vísað er sérstaklega til úrskurða nefndarinnar nr. A-409/2012 og A-541/2014.  

Dalvíkurbyggð synjaði gagnabeiðni kæranda með bréfi dags. 16. október 2015. Þar kemur fram að Dalvíkurbyggð meti það svo að samkeppnishagsmunir þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í útboðinu gangi framar hagsmunum kæranda af því að fá gögnin afhent. Afhending umbeðinna gagna geti haft óeðlileg áhrif á niðurstöðu útboða þar sem samkeppnisaðilar geti nýtt sér þessar nákvæmu upplýsingar um tilboð gagnaðila sér í hag. Þá líti Dalvíkurbyggð svo á að gögnin séu undanskilin upplýsingarétti á grundvelli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Tekið er fram að Dalvíkurbyggð hafi leitað eftir afstöðu Gámaþjónustu Norðurlands ehf. til beiðninnar og hefði félagið ekki veitt samþykki sitt fyrir afhendingu gagnanna sem hefðu að geyma upplýsingar um viðskiptamálefni félagsins.  

Í kæru tekur kærandi fram að hann telji 9. gr. upplýsingalaga ekki eiga við í málinu þar sem um sé að ræða upplýsingar um kæranda sjálfan þar sem hann hafi verið þátttakandi í útboðinu. Því hafi Dalvíkurbyggð átt að afgreiða beiðnina á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í kæru segir að ljóst megi vera af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-409/2012 að skýlaus skylda sé að afhenda bjóðanda í útboði öll tilboðsgögn þess sem samið var við, enda sé um að ræða upplýsingar um bjóðandann sjálfan. Í umræddum úrskurði hafi því verið slegið föstu að upplýsingarétturinn sé sterkari en þagnarskylduákvæði útboðsgagna.  

Í kæru bendir kærandi einnig á að þau gögn sem bjóðandinn, Gámaþjónusta Norðurlands ehf., hafi lagt fram í útboðinu séu ekki þess eðlis að þau innihaldi upplýsingar um einkamálefni annarra sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og úrskurð nefndarinnar nr. A-541/2014. Í úrskurðinum sé farið gaumgæfilega í gegnum þau gögn sem Gámaþjónustan hf. lagði fram og lagt mat á það hvort um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni annarra. Niðurstaðan hafi verið að svo væri ekki. Þá væri einnig rakið í úrskurðinum sjónarmið varðandi það hvort eðlilegt sé að tilboðsgjafi í útboði geti fengið nákvæmar upplýsingar samkeppnisaðila með því að fá aðgang að upplýsingum um ný og nákvæm einingaverð sem viðkomandi leggi til grundvallar tilboði sínu. Nefndin hafi áréttað að umrætt sjónarmið væri að vissu marki lögfest í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Hins vegar sé sérstaklega kveðið á um það í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 að ákvæði 1. mgr. 17. gr. laganna hafi ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.  

Málsmeðferð

Dalvíkurbyggð var kynnt kæran með bréfi, dags. 28. október 2015, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.  

Í umsögn Dalvíkurbyggðar kemur fram að sveitarfélagið byggi synjun sína um aðgang að þeim gögnum sem óskað var eftir á því að samkeppnishagsmunir þeirra aðila sem þátt tóku í útboðinu gangi framar hagsmunum kæranda til þess að fá gögnin afhent. Leitað hafi verið eftir afstöðu Gámaþjónustu Norðurlands ehf. sem hafi ekki heimilað afhendingu gagnanna. Í umsögninni kemur einnig fram að Dalvíkurbyggð eigi erfitt með að átta sig á því á hverju kærandi byggi kröfu sína þegar kröfugerðin bendi til þess að krafist sé allra upplýsinga og gagna er varða annan aðila en kæranda sjálfan. Þó sé tilgreint í rökstuðningi að um sé að ræða gögn sem varða kæranda sjálfan.  

Dalvíkurbyggð heldur því fram að í gögnunum sé að finna upplýsingar um einkamálefni Gámaþjónustu Norðurlands ehf. og sé því óheimilt að veita aðgang að þeim hvort sem horft sé til 9. gr. eða 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Eðli málsins samkvæmt séu í gögnunum mikilvægar fjárhagslegar upplýsingar sem geti skaðað samkeppnisstöðu Gámaþjónustu Norðurlands ehf. komist þær í hendur samkeppnisaðila félagsins.  

Í umsögninni er tekið fram að Dalvíkurbyggð hafni því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 472/2015 hafi fordæmisgildi í málinu. Niðurstaðan í þeim dómi sé að öllu leyti í samræmi við takmörkunarákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til laganna. Ljóst sé að heildstætt mat verði að fara fram hverju sinni og skoða þurfi hvert mál sérstaklega áður en hægt sé að skera úr um það hvort hagsmunir þess sem óskar aðgangs að gögnum séu ríkari en þess sem gæti orðið fyrir tjóni verði gögnin afhent. Í framangreindu máli Hæstaréttar hafi mat á aðstæðum aldrei farið fram, eðli málsins samkvæmt, þar sem gögnin voru aldrei lögð fyrir dóminn.  

Dalvíkurbyggð telur ljóst að verði gögnin afhent komi það niður á hagsmunum Gámaþjónustu Norðurlands ehf. og því sé ekki unnt að afhenda kæranda umbeðin gögn. Þá telur Dalvíkurbyggð að hagsmunir sveitarfélagsins, og í raun allra opinberra aðila sem standa að útboðum á vörum og þjónustu, séu að miklu leyti fyrir borð bornir verði niðurstaðan sú að kærandi eigi rétt á fullum aðgangi að gögnunum þar sem samkeppnisstaða á markaði muni raskast verulega. Áhrif þessa yrðu ekki einungis bundin við Dalvíkurbyggð og íbúa sveitarfélagsins heldur almenning allan. Í þessu samhengi þurfi að horfa til þess hver séu almennt talin markmið að baki opnum útboðum og samkeppnishæfum markaði, sbr. m.a. 1. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og 1. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Verði niðurstaða málsins á þann veg að sveitarfélaginu verði gert að láta af hendi umbeðin gögn megi vænta þess að fyrirtæki ýmist haldi að sér höndum þegar kemur að útboðum af þessu tagi eða nýti sér þau til þess að komast yfir trúnaðarupplýsingar um keppinauta sína á markaði, jafnvel með framsetningu málamyndatilboða.  

Þá tekur Dalvíkurbyggð fram að sveitarfélagið telji ekki lagastoð fyrir því að hægt sé að skylda opinberan aðila til þess að afhenda gögn af því tagi sem hér um ræði, algjörlega óháð þeim afleiðingum sem það hafi í för með sér. Upplýsingalögin geri ráð fyrir að fram fari heildstætt mat á þeim gögnum sem um ræði hverju sinni en við það mat hljóti að koma til skoðunar þau sjónarmið sem rakin hafi verið. Þessu til stuðnings vísar Dalvíkurbyggð til niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli nr. T-536/11 frá 8. júlí 2015 sem varðaði almennt útboð innan Evrópusambandsins. Í málinu hafi Evrópudómstólinn m.a. lagt það til grundvallar að aðgangur að gögnum sem þessum sé ekki án takmarkana heldur verði að meta þau í hvert sinn m.t.t. hagsmuna annarra þátttakenda í útboðinu og hagsmuna almennings. Að mati Dalvíkurbyggðar hafi réttarframkvæmdin hér á landi og meðferð ágreiningsmála fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál gengið of langt í því skyni að vernda hagsmuni tilboðsgjafa í útboði sem ekki er með lægsta tilboðið í því skyni að hann geti gengið úr skugga um að rétt hafi verið staðið að útboðinu. Dalvíkurbyggð heldur því fram að þessi réttarframkvæmd sé í andstöðu við gildandi réttarframkvæmd á EES svæðinu og dóma Evrópudómstólsins þar sem áherslan hefur verið á samanburð á þeim hagsmunum sem vegast á.  

Þá kemur fram að Dalvíkurbyggð byggi synjun sína einnig á 17. gr. laga um opinber innkaup. Öllum bjóðendum hafi í útboðsgögnum verið heitið trúnaði og allir hafi þeir skilað inn gögnum í trúnaði. Dalvíkurbyggð sé því skv. 1. mgr. 17. gr. laganna beinlínis óheimilt að láta af hendi umbeðin gögn enda verði að telja að þau falli undir verndarandlag greinarinnar. Dalvíkurbyggð telur að 3. mgr. 17. gr. breyti engu í þessu samhengi enda sé með vísan til alls þess sem rakið er í umsögninni allsendis óvíst hvort sú skylda hvíli á Dalvíkurbyggð að afhenda umbeðin gögn. Dalvíkurbyggð telur synjun sína á afhendingu umbeðinna gagna réttmæta og að ekki séu lagaskilyrði fyrir því að úrskurða á annan veg. Við mat á þeim hagsmunum sem rekist á í málinu verði, auk þeirra atriða sem þegar hafi verið bent á, að horfa til þess að kærandi og Gámaþjónusta Norðurlands ehf. hafi í gegnum tíðina átt í harðri samkeppni á sérhæfðum markaði. Sú röskun sem orðið geti á þeim markaði komi til með að hafa neikvæð áhrif á almenning allan og komi hún í veg fyrir að opinberir aðilar nái fram þeim markmiðum sem að er stefnt með opnum útboðum. Til þess væri að líta að verðsamráð séu ólögleg og verði að ætla að Íslenska gámafélaginu ehf. og Gámaþjónustu Norðurlands ehf. væri óheimilt að skiptast á upplýsingum um verðlagningu og uppbyggingu þjónustu hvors annars. Sé því fráleitt að kærumál sem þetta geti opnað boðleiðir fyrirtækja til að skiptast á upplýsingum.  

Umsögn Dalvíkurbyggðar var kynnt kæranda með bréfi dags. 22. nóvember 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 8. desember 2014, segist kærandi hafna því að afstaða Gámaþjónustu Norðurlands ehf. hafi áhrif á skyldu sveitarfélagsins skv. upplýsingalögum til afhendingar á gögnum. Þá hafi gögnin ekki að geyma viðkvæmar upplýsingar sem varði fjárhags- og viðskiptahagsmuni Gámaþjónustu Norðurlands ehf. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi í fjölmörgum úrskurðum sínum úrskurðað á þá leið að þótt veittur yrði aðgangur að umræddum gögnum skaði það ekki hagsmuni viðkomandi fyrirtækis, viðskiptakjör, álagningu eða afkomu. Vísar kærandi til m.a. úrskurðar nr. 570/2014, frá 21. janúar 2015, sem hann telur fordæmisgefandi í þessu máli enda álitaefnin þau sömu eða sambærileg. Þá vísar kærandi einnig til úrskurðar nr. A-409/2012 frá 22. mars 2012 en hann telur 4. kafla í niðurstöðuhluta úrskurðarins hafa fordæmisgildi fyrir málið. Eins er því hafnað að hagsmunir Gámaþjónustu Norðurlands ehf. af því að halda upplýsingunum leyndum séu meiri en hagsmunir kæranda af gagnsæi útboðsins, stjórnsýslunnar og meðferð opinberra fjármuna.  

Kærandi segir synjun Dalvíkurbyggðar vera í andstöðu við grundvallarmarkmið upplýsingalaga nr. 140/2012. Ef ekki sé upplýst hvort besti bjóðandi í útboði hafi verið hæfur, sé það tómt mál að gera hæfiskröfur yfirleitt, þar sem hægt yrði að fara á svig við hæfiskröfurnar og velja hagstæðasta tilboðið óháð hæfi bjóðandans. Þá er bent á að mikilvægi þeirra upplýsinga sem koma fram á tilboðsblöðum sé mjög takmarkað eftir opnun tilboða. Þannig séu þær tölur sem settar séu fram með sundurliðuðum hætti ekki mikilvægir hagsmunir eftir opnun tilboða enda útboðinu þá lokið. Ekkert hefðist þannig upp úr því að rýna í tölurnar eftir opnun tilboða. Hins vegar væri mikilvægt að sjá hvað væri nákvæmlega sett fram og hvort þeim kröfum sem gerðar hafi verið um hæfi bjóðenda og eiginleika tilboða samkvæmt útboðsgögnum hafi verið mætt og þær rétt metnar.  

Þá tekur kærandi fram að hann telji sig eiga rétt til upplýsinganna á grundvelli 14. gr. laga nr. 140/2014 en um það er vísað til úrskurðar nefndarinnar nr. A-409/2012. Kærandi telur auk þess að úrskurður nefndarinnar nr. A-472/2013 styrki kröfu hans um að fá afhent öll gögn sem lágu til grundvallar við mat á hæfi bjóðenda og mat á því tilboði sem tekið var, enda hafi úrskurðurinn falið í sér að afhenda bæri öll þau gögn sem lágu til grundvallar við val kaupanda á umræddu útboði. Hvað varðar tilvísun Dalvíkurbyggðar til 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 570/2015 þar sem úrskurðarnefnd hafi tekið rökstudda afstöðu til þessa sjónarmiðs.  

Niðurstaða

1. 

Í málinu er deilt um rétt kæranda til tilboðsgagna í útboði á vegum Dalvíkurbyggðar. Úrskurðarnefndin fékk send afrit eftirtalinna gagna:  

  1. Útboðs- og verklýsing, tilboðsblað

  2. Minnisblað Eflu dags. 22. júní 2015

  3. Tilboðsskrá

  4. Tilboð Gámaþjónustu Norðurlands ehf. ásamt fylgiskjölum.

Af hálfu kæranda er vísað til 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um rétt hans til aðgangs að gögnunum en samkvæmt ákvæði 1. mgr. er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann. Úrskurðarnefndin hefur skýrt ákvæðið svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Þessi túlkun nefndarinnar á ákvæðinu á sér skýra stoð í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 120/2014. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en gengið er til samninga við tiltekinn bjóðanda. Vísast um þetta meðal annars til úrskurða nefndarinnar nr. A-407/2012, A-409/2012, A-472/2013, A-432/2014 og A-541/2014. Að öðru leyti, þ.e. eftir það tímamark, fer um upplýsingarétt bjóðanda skv. 5. gr. upplýsingalaga nema annað komi til.

Kærandi var meðal tilboðsgjafa í því útboði er mál þetta lýtur að. Gögn þau sem úrskurðarnefndinni hafa verið látin í té og mál þetta lýtur að bera það með sér að þau voru útbúin áður en gengið var til samninga um verkefnið sem útboðið náði til. Kærandi nýtur því réttar til aðgangs að þeim á grundvelli ákvæðis 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og er réttur hans því ríkari en réttur almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna.

2.

Í umsögn Dalvíkurbyggðar er vísað til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og þess að þátttakendum í útboðinu hafi verið heitið trúnaði til stuðnings synjunar á aðgangi að umbeðnum gögnum.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er kveðið á um trúnaðarskyldu kaupanda í útboði um upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Í ákvæðinu kemur fram að til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara. Í 3. mgr. 17. gr. laganna er hins vegar sérstaklega kveðið á um að ákvæði 1. mgr. 17. gr. hafi ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 84/2007 verður ráðið að 1. mgr. 17. gr. laganna feli í sér almennt þagnarskylduákvæði sem takmarki ekki rétt til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum sbr. 3. mgr. 4. gr. þeirra laga.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli ákvæða laganna. Stjórnvald getur því ekki vikið frá ákvæðum þeirra með því að heita þeim trúnaði sem látið hefur af hendi upplýsingar. Hefur það því ekki þýðingu við úrlausn þessa máls þótt Dalvíkurbyggð hafi heitið tilboðsgjöfum trúnaði.

3.

Réttur aðila til aðgangs að gögnum samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga lýtur takmörkunum sem m.a. fram koma fram í 3. mgr. 14. gr. laganna þar sem kveðið er á um að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Í málinu reynir því á hvort hagsmunir Gámaþjónustu Norðurlands ehf. af því að gögnin fari leynt vegi þyngra en réttur kæranda til aðgangs að gögnunum.  

Dalvíkurbyggð telur samkeppnishagsmuni þáttakenda í útboðinu ganga framar hagsmunum kæranda af afhendingu gagnanna. Afhending umbeðinna gagna muni hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu útboða þar sem samkeppnisaðilar geti nýtt sér þessar nákvæmu upplýsingar um tilboð gagnaðila sér í hag.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt áherslu á hagsmuni þeirra sem taka þátt í slíkum útboðum er lúta að því að rétt sé staðið að framkvæmd þeirra. Jafnframt standi almannahagsmunir til þess að veittur sé aðgangur að gögnum er varði ráðstöfun opinberra fjármuna. Þá sé rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. Þrátt fyrir þessi almennu sjónarmið verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort aðgang að slíkum upplýsingum beri að takmarka á grundvelli upplýsingalaga. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur við það mat einkum til skoðunar hvort hætta sé á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum. Í athugasemdunum kemur einnig fram að aðila verði ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um það hvort aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni.

4.

Á meðal þeirra gagna sem úrskurðarnefndinni voru látin í té er útboðs- og verklýsing, tilboðsblað frá maí 2015. Um er að ræða gagn sem afhent var öllum þátttakendum í útboðinu, þ. á m. kæranda. Því er ljóst að kærandi hefur þegar fengið gagnið afhent. Verður því ekki séð að rök standi til þess að það fari leynt á grundvelli framangreindra takmarkana á rétti til aðgangs kæranda samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í máli þessu er í öðru lagi deilt um aðgang að minnisblaði Eflu verkfræðistofu, dags. 22. júní 2015. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram heildarupphæð kostnaðaráætlunar Dalvíkurbyggðar, heildarupphæð þeirra tilboða sem bárust frá kæranda og Gámaþjónustu Norðurlands ehf. og hlutfall þeirrar fjárhæðar af kostnaðaráætlun sveitarfélagsins. Þá koma fram athugasemdir Eflu vegna yfirferðar yfir tilboðsskrá beggja tilboða. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál geymir umrætt minnisblað ekki upplýsingar sem skaðað geta hagsmuni Gámaþjónustu Norðurlands ehf. eða Dalvíkurbyggðar þannig að vikið geti til hliðar upplýsingarétti kæranda skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Er því ekki fallist á að rétt hafi verið að synja kæranda um aðgang að minnisblaðinu.

Í þriðja lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tilboðsskrá þar sem finna má samanburð á einingarverði samkvæmt tilboði Gámaþjónustu Norðurlands ehf. annars vegar og Íslenska gámafélagsins hins vegar. Í málum þar sem fjallað hefur verið um beiðnir um aðgang að einingaverði í tilboðum útboða á vegum aðila er falla undir upplýsingalög hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál almennt komist að þeirri niðurstöðu að veita beri aðgang á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og samsvarandi ákvæðis eldri upplýsingalaga, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar nr. 570/2015, A-541/2014 og A-472/2013. Í þessum málum hefur úrskurðarnefndin lagt til grundvallar að meta beri hverju sinni hvort aðgangur að einingaverði bjóðanda leiði til þess að bjóðandi verði fyrir tjóni. Í því máli sem hér er til úrlausnar er það mat nefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að líklegt sé að Gámaþjónusta Norðurlands ehf. verði fyrir tjóni við það að kærandi fái aðgang að upplýsingum um einingaverð félagsins í tilboðinu. Í röksemdum sínum hefur Dalvíkurbyggð fyrst og fremst vísað til almennra samkeppnishagsmuna bjóðenda í útboði af því að aðrir bjóðendur fái ekki aðgang að tilboðsgögnum. Með hliðsjón af fyrrnefndum skýringum við 14. gr. upplýsingalaga í lögskýringargögnum nægja slíkar röksemdir ekki til þess að synja um aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur því svo á að ekki séu skilyrði til að víkja frá þeirri úrskurðarframkvæmd að veita beri kæranda aðgang að einingaverði í tilboðsgögnum. Er það því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi rétt til aðgangs að tilboðsskrá vegna útboðsins.

Í fjórða lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tilboði Gámaþjónustu Norðurlands ehf. vegna umrædds útboðs. Þau gögn sem stafa frá Gámaþjónustu Norðurlands ehf. vegna útboðsins eru tilboðsblað sem geymir almennar upplýsingar um bjóðanda og tilboðsskrá þar sem fram koma upplýsingar um sundurliðun tilboðsupphæðar, þ.á m. um einingaverð. Þá er um að ræða fylgiskjöl með tilboði í stafliðum A-L. Fylgiskjölin eru m.a. staðfestingar á skuldastöðu bjóðanda hjá hinu opinbera, vottorð úr fyrirtækjaskrá, upplýsingar um tengiliði bjóðenda vegna samskipta um tilboð og nöfn og starfsreynslu lykilstarfsmanna sem að verkinu koma, almenn lýsing á starfsemi bjóðanda, starfsleyfi Tollstjóra og upplýsingar um vottun. Þá fylgir með efnislýsing fyrir girðingu á endurvinnslustöð ásamt lýsingu frá framleiðsluaðila girðingarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni tilboðsgagna Gámaþjónustu Norðurlands. Af gögnunum verður ekki ráðið að hagsmunum Gámaþjónustu Norðurlands ehf. sé hætta búin þótt kæranda verði veittur aðgangur að þeim. Í hinum umbeðnu gögnum er ekki að finna neinar þær upplýsingar um sambönd Gámaþjónustu Norðurlands ehf. við viðskiptamenn fyrirtækisins sem virðast til þess fallnar að skaða hagsmuni þess, þau viðskiptakjör sem fyrirtækið nýtur, álagningu þess eða afkomu. Að því er varðar möguleika á því að Gámaþjónusta Norðurlands ehf. verði fyrir tjóni vegna mögulegs aðgangs kæranda að hinum umbeðnu gögnum hefur Dalvíkurbyggð aðeins vísað til þess að aðgangur samkeppnisaðila að gögnunum sé almennt til þess fallinn að valda því tjóni. Í máli þessu lítur úrskurðarnefndin svo á að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að gögnunum vegi þyngra en hagsmunir Gámaþjónustu Norðurlands ehf. af því að gögnunum verði haldið leyndum, enda varða gögnin m.a. ráðstöfun opinberra hagsmuna og hagsmuni kæranda af því að rétt hafi verið staðið að mati á tilboðum í útboðinu. Í ljósi þessa fellst nefndin ekki á að neita beri kæranda aðgangi að útboðsgögnum Gámaþjónustu Norðurlands ehf. vegna útboðsins „Sorphirða í Dalvíkurbyggð og þjónusta við endurvinnslustöð 2015-2020.“ 

Úrskurðarorð:

Dalvíkurbyggð skal afhenda kæranda, Íslenska Gámafélaginu ehf., útboðs- og verklýsingu, minnisblað Eflu verkfræðistofu, dags. 22. júní 2015, og tilboðsskrá og tilboðsgögn Gámaþjónustu Norðurlands ehf. vegna útboðs í verkið „Sorphirða í Dalvíkurbyggð og þjónusta við endurvinnslustöð 2015-2020“. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta