Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2015

 Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 15. október 2015 var tekið fyrir mál nr. 14/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hefur með kæru, dags. 20. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 22. apríl 2015, þar sem umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna var synjað.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

 

Kærandi stundaði nám við B deild Háskóla Íslands veturinn 2014 til 2015. Hún lauk 12 einingum á haustönn 2014 og 24 einingum á vorönn 2015. Með umsókn, dags. 23. mars 2015, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar þann Y. maí 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. apríl 2015, á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. Barn kæranda fæddist þann Y. maí 2015. Í framhaldinu áttu sér stað tölvupóstsamskipti milli kæranda og Fæðingarorlofssjóðs auk þess sem kærandi lagði fram frekari gögn, meðal annars læknisvottorð. Með bréfum, dags. 20. maí og 16. júní 2015, óskaði kærandi eftir endurskoðun á synjun Fæðingarorlofssjóðs en með bréfum Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. maí og 19. júní 2015, var þeirri beiðni hafnað.     

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 23. júlí 2015. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 12. ágúst 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. ágúst 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 31. ágúst 2015, og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar 1. september 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi krefst þess að afgreiðsla Fæðingarorlofssjóðs verði felld úr gildi og kveðinn upp úrskurður þess efnis að henni verði greiddur fæðingarstyrkur námsmanna.

Kærandi telur að afgreiðsla máls hennar sé röng og samræmist ekki lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof auk þess sem málsmeðferð og afgreiðsla Fæðingarorlofssjóðs sé ekki í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast barn þann Y. maí 2015 og hafði þá stundað nám við B deild Háskóla Íslands. Vegna veikinda hafi hún ekki getað lokið öllum prófum á haustönn 2014 en samkvæmt læknisráði hafi henni verið ráðlagt að hvílast til að ná heilsu og vernda heilsu fóstursins. Kæranda hafi einnig verið ráðlagt að taka vorönn 2015 rólega og þar sem sjúkrapróf haustannarinnar hafi verið dagsett í sömu viku og fæðing barnsins hafi verið ómögulegt fyrir hana að skrá sig í þau próf. Hún hafi heldur lagt áherslu á góðan námsárangur vorannar og lokið tilskildum fjölda eininga á þeirri önn.

Kærandi bendir á að hún hafi rakið mál sitt í heild sinni í bréfum til Fæðingarorlofssjóðs en svo virðist sem starfsmenn sjóðsins hafi ýmist ekki lesið rök hennar eða fylgiskjöl og því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Kærandi tekur fram að hún hafi í raun lokið fullu námi samkvæmt skilgreiningu laganna í að minnsta kosti sex mánuði á síðastliðnum tólf mánuðum. Svör Fæðingarorlofssjóðs hafi verið röng og ruglingsleg og henni hafi meðal annars verið hafnað á öðrum forsendum en eigi við í hennar máli, líkt og um fjöldaframleiðslu á synjunum hafi verið að ræða. Það hafi því valdið henni nokkru óöryggi og óvissu um hvort mál hennar hafi í raun fengið réttmæta meðhöndlun.

Kærandi tekur fram að á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns hennar hafi hún lokið alls 36 ECTS-einingum, þar af 12 einingum á haustönn 2014 og 24 einingum á vorönn 2015, sem sé vel yfir sex mánaða markinu og þeirri námsframvindu sem í því felist.

Kærandi telur að ekki sé rétt að telja eingöngu þá mánuði sem hver önn standi. Líta verði svo á að fullt nám í heilt skólaár feli í sér fullt nám í 12 mánuði. Fullt nám í eina önn feli í sér 6 mánaða fullt nám. Ætlan löggjafans hafi augljóslega verið að fullt nám í eina önn fullnægði skilyrðinu um sex mánaða nám á síðustu tólf mánuðum.

Jafnvel þótt námsferill myndi ekki uppfylla framangreint sex mánaða skilyrði telur kærandi að 11. mgr. 19. gr. ffl. eigi við um hennar mál en hún hafi lagt fram öll tilskilin gögn samkvæmt því ákvæði. Þar að auki komi ekki fram í lögunum að undanþágan sé háð því skilyrði að um sé að ræða meðgöngutengdan sjúkdóm/veikindi en Fæðingarorlofssjóður hafi hafnað umsókn hennar á þeirri forsendu með bréfi sjóðsins, dags. 26. maí 2015. Kærandi veltir því fyrir sér hvort Fæðingarorlofssjóði sé heimilt að setja sér verklag við úthlutun á fæðingarstyrk námsmanna sem samræmist ekki lögum.

Kærandi bendir á að það verði hvorki séð að þeim lágmarksskyldum sem felast í 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið sinnt af hálfu sjóðsins né að afgreiðsla máls hennar uppfylli lágmarkskröfur til rökstuðnings samkvæmt 22. gr. sömu laga. Þeir ágallar séu í raun nægilegir einir og sér til þess að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

 

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Væntanlegur fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. maí 2015 og verði því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. maí 2014 fram að fæðingardegi þess. Á námsferilsyfirliti Háskóla Íslands, dags. 16. júní 2015, komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi lokið 12 ECTS-einingum á haustmisseri 2014 og 24 ECTS-einingum á vormisseri 2015. Fæðingarorlofssjóður bendir á að þegar um er að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn almennt vera 100% nám og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti sjóðurinn svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hún hafi einungis lokið 12 ECTS-einingum á haustmisseri 2014 og því ekki í fullu námi þann tíma. Kærandi hafi hins vegar lokið 24 ECTS-einingum á vormisseri 2015, sem sé fullt nám á þeim tíma, en nái ekki sex mánuðum, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála nr. 24/2014.

Hvorki í ffl. né reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1218/2008 sé að finna heimild til að víkja frá framangreindu og leggja saman meðaltal tveggja anna eins og kærandi geri kröfu um. Því hafi verið svarað með tölvupósti til kæranda þann 29. apríl 2015 og engin ný gögn hafi borist um að kærandi uppfyllti skilyrði um fullt nám á haustönn 2014 þegar henni hafi verið svarað með bréfi, dags. 19. júní 2015. Athugasemdir kæranda um að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist hafi engin áhrif þar á, enda taki heimildin til þeirrar skólaannar sem barn fæðist sem hafi verið vorönn 2015 en ekki haustönn 2014. Jafnvel þótt heimilt væri að leggja saman meðaltal tveggja anna dygði það ekki til í tilviki kæranda þar sem hún hafi einungis lokið 36 ECTS-einingum á önnunum tveimur en ekki 44 ECTS-einingum að lágmarki.

Í ffl. sé að finna undanþágu fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna. Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008, komi þannig fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eigi við um veikindi móður sem valdi óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Í læknisvottorði D heimilislæknis, dags. 6. maí 2015, komi fram að sjúkdómur móður hafi verið inflúensa og sinusitis. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu komi fram að hún hafi fengið inflúensu 15. nóvember 2014 og síðan í framhaldi sinusitis og það hafi verið meðhöndlað með lyfjum. Í niðurstöðu skoðunar komi fram að vegna ofangreinds hafi kærandi misst af námi og prófum. Í læknisvottorði E, dags. 16. júní 2015, komi fram að kærandi hafi verið fjarverandi frá prófum við Háskóla Íslands á tímabilinu 3. desember 2014 til 17. mars 2015 samkvæmt læknisráði vegna veikinda, til að vernda heilsu sína og öryggi meðgöngu.

Þannig liggi skýrt fyrir að veikindi kæranda hafi verið inflúensa og sinusitis sem hafi verið meðhöndlað með lyfjum. Ekki verði séð að framangreind veikindi kæranda falli undir skilgreiningu á heilsufarsástæðum samkvæmt 13. mgr. 19. gr. ffl.  Þá verði ekki séð að nein önnur undanþága laganna geti átt við í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

 

Kærð er synjun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna. Ágreiningur málsins lýtur að túlkun 1. mgr. 19. gr. ffl. um að foreldri skuli hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 30 ECTS-einingar á önn almennt vera 100% nám og fullt nám í skilningi ffl. því 22–30 ECTS-einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl.

Nefndin fellst ekki á þann skilning kæranda að fullt nám í eina önn sem stendur í 5 mánuði feli í sér sex mánaða nám í skilningi laganna. Barn kæranda fæddist þann Y. maí 2015. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá Y. maí 2014 fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði nám við B deild Háskóla Íslands en um er að ræða 180 ECTS-eininga fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS-eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Samkvæmt yfirliti frá Háskóla Íslands, dags. 16. júní 2015, lauk kærandi 24 ECTS-einingum á vorönn 2015, eða fullu námi, en einungis 12 ECTS-einingum á haustönn 2014 sem telst ekki vera fullt nám. Í 1. mgr. 19. gr. ffl. er gert að skilyrði að foreldrar hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, til að öðlast rétt til fæðingarstyrks námsmanna. Þarf því að skoða umrædda mánuði sem í tilviki kæranda er á tímabilinu Y. maí 2014 til Y. maí 2015. Kærandi var í fullu námi í fimm mánuði af þessum tólf, eða á vorönn 2015, og fellur þar með ekki undir ákvæðið samkvæmt eðlilegum málskilningi á því. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð D, dags. 6. maí 2015, þar sem fram kemur að kærandi hafi fengið inflúensu 15. nóvember 2014 og síðan í framhaldi sinusitis sem hafi verið meðhöndlað með lyfjum. Vegna þessa hafi kærandi misst af námi og prófum. Kærandi hefur jafnframt lagt fram læknisvottorð E, dags. 16. júní 2015, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið fjarverandi frá prófum við Háskóla Íslands frá 3. desember 2014 til 17. mars 2015 samkvæmt læknisráði vegna veikinda, til að vernda heilsu hennar og öryggi meðgöngu.

Fyrrgreind 13. mgr. 19. gr. ffl. var lögfest með breytingarlögum nr. 74/2008. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarps er varð að þeim lögum greinir frá því að með þessari lagabreytingu sé heimild til að taka tillit til ófullnægjandi námsárangurs vegna heilsufarsástæðna færð úr reglugerð nr. 1056/ 2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks og inn í lagatextann. Segir svo nánar í greinargerðinni:

 

Jafnframt er lagt til að sú heimild að taka tillit til aðstæðna móður þegar hún getur ekki stundað nám sitt á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna verði færð í lögin en áður hefur eingöngu verið kveðið á um þessa heimild í reglugerð. Er þá átt við sambærilegar heilsufarsástæður og eiga við um veikindi móður sem valda óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hefur verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni, sbr. 9. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

 

Það er mat nefndarinnar að þessi texti í lagafrumvarpinu geti ekki þrengt svo mjög að þeim réttindum sem veitt eru með lögunum sjálfum að vegna hans verði litið fram hjá því að námsárangur kæranda varð lakari en efni stóðu til vegna veikinda. Hefði það verið ætlan löggjafans að synja námsmönnum um fæðingarstyrk þegar önnur veikindi hömluðu námi, en þau sem fjallað er um í 4. mgr. 17. gr. laganna, hefði það þurft að koma fram í lagatextanum. Ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. á við um tilvik kæranda samkvæmt efni sínu og verður talið að því beri að beita í máli hennar. Ekki er deilt um að kærandi uppfyllir að öðru leyti skilyrði þess að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna og verður úrskurðarorð í samræmi við það.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. apríl 2015, um synjun á umsókn A um fæðingarstyrk námsmanna er felld úr gildi. Kæranda skal greiddur fæðingarstyrkur námsmanna.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta