Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 2/2015

Hinn 23. október 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 2/2015:

 

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 418/2012 

Mango Tree B.V.

gegn

Eiríki Óskarssyni,

Óskari Erni Eiríkssyni,

Signýju Eiríksdóttur og

Sigyn Eiríksdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 10. febrúar 2015 fór Hróbjartur Jónatansson hrl. þess á leit fyrir hönd Mango Tree B.V. að hæstaréttarmál nr. 418/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. febrúar 2013, yrði endurupptekið. Með bréfi endurupptökunefndar, dagsettu 13. mars 2015, var endurupptökubeiðni send gagnaðilum og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegri greinargerð um viðhorf sín til beiðninnar, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með bréfi, dagsettu 10. apríl 2015, sendi Björn Líndal hdl. fyrir hönd gagnaðila skriflega greinargerð um viðhorf þeirra. Endurupptökubeiðanda var kynnt sú greinargerð og bárust engar frekari athugasemdir af hans hálfu.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.


II. Málsatvik

Gagnaðilar ásamt einum öðrum, sem síðar seldi hlut sinn tveimur mönnum, stofnuðu einkahlutafélagið Leikhúsmógúlinn á árinu 2000 í þeim tilgangi að setja upp sýningar á leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi. Hafði áður verið samið við höfund verksins um sýningarrétt og greiðslur fyrir hann. Þegar til stóð að semja við höfundinn um sýningar á verkinu um allan heim á árinu 2006 var ákveðið að leita að fjárfesti sem væri tilbúinn til þess að kaupa hlut í einkahlutafélaginu og leggja fram fé til að taka þátt í að auka hlutafé félagsins. Gerðir voru samningar við forvera endurupptökubeiðanda, Brú II, hinn 21. ágúst 2006 og var undirritaður sérstakur áskriftarsamningur um forgangshluti í félaginu með breytirétti (e. Subscription Agreement for Convertible Preferred Shares in the firm Theater Mogul ehf.), undirritað hluthafasamkomulag (e. Shareholders Agreement) og nýjar samþykktir. Samþykktir þessar fólu í sér að hlutum í félaginu var skipt í forgangshluti og almenna hluti auk margvíslegra annarra breytinga sem gerðu stöðu forgangshluthafa í félaginu mun sterkari en almennra hluthafa.

Annað hluthafasamkomulag milli gagnaðila og forvera endurupptökubeiðanda var gert 30. nóvember 2007 um stjórnarmenn. Samhliða samþykktu allir hluthafar Leikhúsmógúlsins ehf. framsal Brúar II á hlutum í félaginu til endurupptökubeiðanda. Tókst endurupptökubeiðandi á hendur skuldbindingar forvera síns við gagnaðila samkvæmt hluthafasamkomulaginu.

Um áramótin 2008/2009 samþykktu stjórnir einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins og Mogul Holding að sameina þau þannig að hið síðarnefnda rynni inn í hið fyrrnefnda og að samþykktir þess giltu eftir samrunann. Sameiningin skyldi miðast við 30. júní 2008. Í framhaldi af sameiningunni varð uppi ágreiningur hvort forgangshlutir í Mogul Holding ehf. hefðu breyst í almenna hluti eða ekki, sbr. lið (iii) í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 var fallist á kröfu gagnaðila að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. hefðu breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag þess Mogul Holding ehf. undir nafni hins síðarnefnda. Komist var að þeirri niðurstöðu meðal annars með skírskotun til beinna fyrirmæla í samþykktum félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað og þess að ekki hefði verið leitast við að breyta ákvæðum samþykktanna fyrir samrunann. Þá var einnig fellt úr gildi tiltekið hluthafasamkomulag milli endurupptökubeiðanda annars vegar og gagnaðila hins vegar.


III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á 1. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 laga um meðferð einkamála. Vísar hann til þess að öll skilyrði ákvæðisins sem greinir í 1. mgr. 167. gr. laganna séu uppfyllt og því beri að endurupptaka málið fyrir Hæstarétti.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er á því byggt að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar og honum verði ekki kennt um það, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Í dómi Hæstaréttar hafi verið vísað til 3. gr. samnings um „áskrift að forgangshlutum með breytirétti í félaginu“ um réttindi þeirra sem áttu forgangshluti í félaginu umfram eigendur almennra hluta. Í grein 3.4. í umræddu samkomulagi hafi meðal annars sagt:

Sjálfkrafa umbreyting: Forgangshlutir skulu breytast sjálfkrafa í almenna hluti á því breytiverði sem þá gildir, … (iii) þegar samningur tekur gildi um samruna, yfirtöku eða sölu á ráðandi hlut í félaginu eða nær öllum eignum þess, þ.á m. hugverkaréttindum félagsins til grandlauss þriðja aðila á verði á hlut sem nemur a.m.k. 3,5 földu upphafskaupverði hlutar (að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhluta, arðgreiðslna umfram 8%, sbr. skilgreiningu í gr. 3.1 að ofan, og atvika af þeim toga).

Þá hafi Hæstiréttur slegið því föstu að samþykktum félagsins hafi verið breytt 21. ágúst 2006 til samræmis við þá samninga sem áður höfðu verið gerðir. Í samþykktum félagsins hafi verið tilgreind skipting hluta í almenna hluti og forgangshluti, sérstök réttindi forgangshluta og aðrar reglur um þá. Í forsendum Hæstaréttar komi ennfremur fram að réttaráhrif samruna einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins og Mogul Holding hafi meðal annars verið þau að forgangshlutir hafi sjálfkrafa breyst í almenna hluti. Þessi breyting hafi orðið vegna beinna fyrirmæla í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað. Endurupptökubeiðandi telur því ljóst að niðurstaða Hæstaréttar byggi á túlkun 5. mgr. 4. gr. samþykktanna sem Hæstiréttur hafði áður sagt að væru í samræmi við þá samninga sem áður hefðu verið gerðir.

Þá verði einnig að líta til forsendna hins áfrýjaða dóms, en þar segi:

Við meðferð málsins hefur ekkert komið fram sem bendir til að það hafi verið sameiginlegur skilningur málsaðila eða skilningur einhverra málsaðila að ákvæðið ætti einungis við þegar um samruna við þriðja aðila væri að ræða enda styður orðalag ákvæðisins á engan hátt þá niðurstöðu.

Úrslitaatriði í forsendum Hæstaréttar sé orðalag 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins, en komið hafi í ljós að umræddar samþykktir hafi verið ranglega þýddar úr ensku yfir á íslensku og geti niðurstaðan þar af leiðandi ekki verið rétt.

Þá byggir endurupptökubeiðandi á því að röng þýðing, nýtt skjal sem sýnir fram á vilja allra aðila sem og yfirlýsingar fyrrverandi stjórnarmanna og endurskoðanda sem framkvæmdi breytingarnar falli að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála þannig að leiddar séu sterkar líkur að því að fram séu komin ný gögn sem muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Í fyrsta lagi telur endurupptökubeiðandi að komið hafi í ljós að þýðing á skjali sem ber heitið „áskrift að forgangshlutum með breytirétti í félaginu“ hafi ekki verið rétt. Hin íslenska þýðing á síðari hluta gr. 3.4 hafi verið eftirfarandi:

(iii) þegar samningur tekur gildi um samruna, yfirtöku eða sölu á ráðandi hlut í félaginu eða nær öllum eignum þess, þ. á m. hugverkaréttindum félagsins til grandlauss þriðja aðila á verði á sem nemur a.m.k. 3,5 földu upphafskaupverði hlutar (að teknu tilliti til útgáfu, jöfnunarhluta, arðgreiðslna umfram 8%, sbr. skilgreiningu í gr. 3.1 að ofan, og atvika af þeim toga).

Enska ákvæðið hljómi svo:

(iii) upon a closing of a merger, acquisition, sale of voting control or sale of substantially all of the assets, including any intellectual property, of the Company to a bona fide 3rd party at a price per share not less than 3,5 times the Original Purchase Price (as adjusted for stock splits, paid dividends in excess of the 8% as defined in clause 3.1 above and the like) per share.

Hin ranga þýðing lúti að orðunum „bona fide 3rd party“ sem þýtt hafi verið sem „grandlaus þriðji aðili“. Ef litið er til samhengis ákvæðisins sem og markmiðs þess sé ljóst að ekki hafi verið um rétta þýðingu að ræða enda yrði ákvæðið markleysa ef sú væri rétt merking þess. Hugtakið „samruni við grandlausan þriðja aðila“ gangi einfaldlega ekki upp, enda geti enginn verið grandlaus um eigin samruna.

Hugtakið „bona fide 3rd party“ geti haft tvenns konar merkingu, það er annars vegar „grandlaus þriðji aðili“ og hins vegar „raunverulegur þriðji aðili“. Af samhengi ákvæðisins sé með öllu ljóst að það sé hin síðarnefnda merking sem eigi við í ákvæðinu.

Hin nýja og rétta þýðing umþrætts ákvæðis samkvæmt þýðingu löggilts skjalaþýðanda hljóði svo:

(iii) þegar gengið er frá samruna, kaupum, sölu atkvæðayfirráða eða sölu nokkurn veginn allra eigna, þ.á m. hugverkaréttinda, félagsins til raunverulegs þriðja aðila á verði á hvern hlut sem er að minnsta kosti 3,5 sinnum hærra en upphaflega kaupverðið (leiðrétt vegna útgáfu jöfnunarhlutabréfa, arðgreiðslna umfram 8% mörkin sem skilgreind eru í gr. 3.1 að ofan og viðlíka ráðstafana) á hvern hlut.

Að mati endurupptökubeiðanda sé umrædd þýðing nýtt gagn í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og sterkar líkur á því að niðurstaða málsins hefði verið gagnstæð hefði skjalið verið lagt fram í málinu.

Óháð því hvort að Mogul Holding ehf., dótturfélag Leikhúsmógúlsins ehf., teljist vera þriðji aðili í merkingu ákvæðisins, þá gefi það auga leið að Mogul Holding ehf. hafi ekki verið raunverulegur þriðji aðili, enda um félag innan sömu samsteypu að ræða með sama eignarhaldi og hlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. Við breytinguna hafi hlutir Mango Tree B.V. ekki verið að breytast í almenna hluti, sbr. skýrt ákvæði þriðja liðar ákvæðis 3.4 í skjalinu „áskrift að forgangshlutum með breytirétti í félaginu“.

Hæstiréttur hafi slegið því föstu að samþykktum félagsins hafi verið breytt til samræmis við þá samninga sem áður hafi verið gerðir. Sama komi fram í áskriftarsamningnum. Við túlkun samþykktanna verði þar af leiðandi að taka tillit til þeirra samninga sem áður hafi verið gerðir og áttu að endurspeglast í samþykktunum. Sé það gert og rétt þýðing á orðinu „bona fide 3rd party“ skoðuð með teknu tilliti til heildarsamhengis skjalanna sé ljóst að niðurstaðan um það þegar orðið „samruni“ í samþykktum félagsins væri túlkað þá sést að niðurstaðan í dómi Hæstaréttar ráðist af rangri þýðingu á orðinu í dómskjölum málsins. Augljóslega, að teknu tilliti til heildarsamhengis ákvæðisins, sé átt við að um samruna við raunverulegan þriðja aðila þurfi að vera að ræða, ekki að félagið geti með samruna við dótturfélag losað sig við forgangshluta í félaginu með því að sameinast grandlausum þriðja aðila, nema að um raunverulegan þriðja aðila sé að ræða.

Í öðru lagi hafi fundist nýtt skjal sem beri heitið „Theater Mogul ehf. – Summary of Terms and Conditions – Sale of Convertible Preferred Shares“. Skjalið sé undirritað bæði af Theater Mogul ehf. og forsvarsmanni Brúar II Sicar. Skjalið sé annað nýtt gagn í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, enda hafi það ekki verið lagt fram áður.

Í þriðja hluta greinar 2.4 skjalsins segi: „(iii) upon a closing of a merger, acquisition, sale of voting control or sale of substantially all of the assets, including any intellectual property, of the Company at a price per share not less than 3,5 times the Original Purchase Price (as adjusted for stock splits, paid dividends in excess of the 8% as defined in clause 2.1 above and the like) per share.“ Framangreint þýði: „þegar samningur tekur gildi um samruna, yfirtöku eða sölu á ráðandi hlut í félaginu eða nær öllum eignum þess, þ.á m. hugverkaréttindum félagsins á verði á hlut sem nemur a.m.k. 3,5 földu upphafskaupverði hlutar (að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhluta, arðgreiðslna umfram 8%, sbr. skilgreiningu í gr. 2.1 að ofan, og atvika af þeim toga).“

Umrætt ákvæði sé nánast samhljóða því sem áður hafi verið fjallað um og sé að finna í áskriftarsamningi aðila, að því undanskildu að ekki sé fjallað um „bona fide third party“ heldur sé hér að finna, eins og í áskriftarsamningnum, lágmarksverð sem sýni fram á að hér sé átt við raunverulegan samruna sem sé gerður í viðskiptalegum tilgangi, ekki tæknilegum.

Þá segi í 5. gr. þessa skjals: „All parties agree to use their best efforts to consummate a transaction on the terms set forth herein…“ sem þýðist sem: „Allir aðilar eru sammála um að leggja sig fram um að fullgera viðskiptin á þeim skilmálum sem hér koma fram“.

Auk nýrrar þýðingar á orðinu „bona fide“ sé því um að ræða nýtt gagn sem nýtist við túlkun á orðinu samruni í samþykktum félagsins. Vilji aðila hafi augljóslega staðið til þess að um raunverulegan samruna væri að ræða og sýni þessi nýju gögn fram á það.

Í þriðja lagi séu yfirlýsingar fyrrverandi stjórnarmanna og endurskoðanda sem framkvæmdi umræddan samruna ný gögn í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Í forsendum héraðsdóms hafi eftirfarandi komið fram:

Við meðferð málsins hefur ekkert komið fram sem bendir til að það hafi verið sameiginlegur skilningur málsaðila eða skilningur einhverra málsaðila að ákvæðið ætti einungis við þegar um samruna við þriðja aðila væri að ræða enda styður orðalag ákvæðisins á engan hátt þá niðurstöðu.

Nú liggi fyrir yfirlýsingar endurskoðanda Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul Holding ehf., og tveggja fyrrverandi stjórnarmanna í Leikhúsmógulnum ehf. og síðar í yfirtökufélaginu að það hafi meðal annars ekki verið skilningur þeirra að forgangsbréf ættu að breytast í almenn bréf við samrunann. Markmiðið með samrunanum hafi verið að sameina starfsemi tveggja félaga í eigu sömu aðila í eitt félag. Samruninn hafi verið í raun til hagræðingar og innanhússaðgerð en ekki raunverulegur samruni.

Að mati endurupptökubeiðanda sýni framangreindar yfirlýsingar að það hafi verið skilningur og vilji allra aðila er stóðu að baki samrunanum að hann ætti ekki að hafa nein áhrif á réttarstöðu hluthafa heldur væri eingöngu um tæknilega breytingu að ræða. Væri því viðhorf aðilanna að Leikhúsmógúllinn ehf. væri ekki „bona fide 3rd party“ í skilningi 5. mgr. 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf.

Við túlkun samninga, þar með talin samþykkta félaga, sé lykilatriði að sameiginlegur vilji aðila sé leiddur í ljós. Þar sem endurskoðandinn og stjórnarmennirnir hafi ekki borið vitni fyrir dómi hafi vilji þeirra ekki verið leiddur í ljós en hin nýju skjöl geri það.

Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt að önnur atvik mæli með því að leyfið verði veitt þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Niðurstaða Hæstaréttar að samruni á milli móður- og dótturfélags sem hafi þau einu réttaráhrif í för með sér að fella úr gildi samninga, virkja innlausnarrétt og skerða réttindi hluthafa sé ekki tæk. Við slíkar aðstæður sé ekki um raunverulegan samruna að ræða og með tilliti til hagsmuna viðskiptalífsins sé svo bókstafleg túlkun á orðinu samruni ótæk af hálfu Hæstaréttar. Því séu miklir hagsmunir bundnir við það að niðurstöðunni sé snúið við með tilliti til hinna nýju gagna.

Endurupptökubeiðandi hafi stórfellda hagsmuni þar sem með umræddum samruna hafi innlausnarákvæði orðið virkt og þar af leiðandi hafi endurupptökubeiðandi verið þvingaður út úr félaginu. Hluthafasamkomulag hafi sjálfkrafa verið fellt úr gildi og endurupptökubeiðandi misst þar af leiðandi öll stjórnunarleg réttindi í félaginu auk þess sem réttindi til forgangsarðgreiðslna hafi fallið niður.

Þá sé það ekki tækt að endurupptökubeiðandi beri hallann af rangri þýðingu löggilts skjalaþýðanda, né af því að vitni hafi ekki verið leidd fyrir héraðsdóm eða að grundvallarskjal í málinu hafi ekki verið lagt fram. Endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um framangreint. Jafnframt hafi ekki verið hægt að sjá fyrir að miðað yrði eingöngu við íslenska og bókstaflega þýðingu ákvæðisins í forsendum Hæstaréttar. Endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að nýtt skjal sem hafi þýðingu við túlkun samþykktanna hafi ekki komið fram fyrr.


IV. Viðhorf gagnaðila

Gagnaðilar gera þá kröfu að endurupptökubeiðni verði hafnað á grundvelli þess að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki fyrir hendi. Gagnaðilar telja rökstuðning fyrir endurupptöku vera áfátt og hann oft beinlínis rangur.

Þá benda gagnaðilar á að endurupptökubeiðandi hafi höfðað einkamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, mál nr. E-2746/2013, gegn félaginu Mogul Holding ehf. til viðurkenningar á innlausnarskyldu félagsins á forgangshlutum endurupptökubeiðanda í félaginu. Þar hafi endurupptökubeiðandi beitt málsástæðum sem séu í andstöðu við þau sjónarmið sem reifuð séu í endurupptökubeiðni. Helsta málsástæða endurupptökubeiðanda hafi verið að skýra beri tiltekið ákvæði samþykkta Mogul Holding ehf. til samræmis við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 418/2012, það er til samræmis við skýringu réttarins á 5. mgr. 4. gr. samþykktanna. Ekki hafi verið minnst einu orði á ranga þýðingu.

Gagnaðilar kannast ekki við að samþykktir félagsins hafi verið upphaflega á ensku líkt og endurupptökubeiðandi haldi fram. Þær hafi ætíð verið á íslensku. Hins vegar hafi áskriftarsamningur verið gerður á ensku. Áskriftarsamningurinn, þýddur á íslensku, hafi verið dómskjal í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Þýðingunni hafi í engu verið mótmælt af hálfu endurupptökubeiðanda við rekstur þess máls, hvorki í héraði né fyrir Hæstarétti. Þá hafi endurupptökubeiðandi annast samningu allra samningsskjala, þar á meðal áskriftarsamnings og samþykkta, þegar félagið gerðist hluthafi í Mogul Holding ehf., sbr. 7. gr. áskriftarsamnings.

Í fyrsta lagi telja gagnaðilar skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki vera uppfyllt. Í dómi Hæstaréttar komi fram að samþykktum Mogul Holding ehf. hafi verið breytt 21. ágúst 2006 til samræmis við þá samninga sem gerðir hafi verið. Endurupptökubeiðandi álykti út frá því að með orðum sínum hafi rétturinn túlkað 5. mgr. 4. gr. samþykktanna á grundvelli rangrar þýðingar á orðalagi enskrar útgáfu áskriftarsamnings. Gagnaðilar árétta að þeir samningar sem vísað sé til séu tveir, áðurnefndur áskriftarsamningur og sérstakt hluthafasamkomulag, sem skipti ekki máli við úrlausn þessa endurupptökumáls.

Ennfremur mótmæla gagnaðilar röksemdafærslu endurupptökubeiðanda að vegna rangrar þýðingar á grein 3.4 í áskriftarsamningi sé ekki til staðar samræmi milli texta skjala, samninga og félagssamþykkta. Af hálfu gagnaðila sé rangt að framangreind atriði séu grundvallaratriði við túlkun á ákvæði 5. mgr. 4. gr. samþykktanna. Annars vegar sé samræmi milli nefndra skjala eins og nefnt sé í dómi Hæstaréttar. Hins vegar, þótt slíkt samræmi væri ekki talið til staðar, verði að líta til þess að Hæstiréttur vísi í forsendum sínum í máli nr. 418/2012 til fleiri atriða, þar á meðal til forsendna héraðsdóms í heild sinni, ótvíræðs orðalags 5. mgr. 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. og sjálfstæðrar stöðu félagssamþykkta í einkahlutafélagi. Sú staða markist af því að allir hluthafar, þar á meðal endurupptökubeiðandi, hafi ritað undir félagssamþykktirnar 21. ágúst 2006, og að lögum verði samþykktum ekki breytt nema með lögmætri ákvörðun hluthafafundar.

Sé hins vegar um ósamræmi að ræða sé ljóst að allir hluthafar, þar á meðal endurupptökubeiðandi, hafi skrifað fyrirvaralaust undir samþykktir Mogul Holding ehf. á íslensku eftir að hafa skrifað undir áskriftarsamning á enskri tungu. Rekstraraðili endurupptökubeiðanda sé reynslumikill aðili og hafi því borið að sýna sérstaka aðgæslu við frágang samningsskjala. Samkvæmt 7. gr. áskriftarsamnings hafi lögmanni endurupptökubeiðanda verið falið að annast allan frágang fyrrnefndra samningsskjala. Verði talið að um ósamræmi sé að ræða sé það augljóslega endurupptökubeiðanda og rekstraraðila félagsins um að kenna.

Þá komi skýrt fram í forsendum héraðsdóms að orðalag 5. mgr. 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. styðji á engan hátt þá niðurstöðu að „sameiginlegur skilningur málsaðila eða skilningur einhverra málsaðila ætti einungis við þegar um samruna við þriðja aðila væri að ræða.“ Framangreint styðji kröfu gagnaðila að hafna eigi endurupptökubeiðni. Það sé orðalag samþykktanna sem ráði en ekki skilningur málsaðila.

Þessu til viðbótar hafna gagnaðilar því að hin nýju gögn, það er ný þýðing á grein 3.4 í áskriftarsamningi, nýtt skjal sem sýni fram á vilja allra aðila og yfirlýsingar tveggja fyrrverandi stjórnarmanna og fyrrverandi endurskoðanda Mogul Holding ehf. geti talist ný gögn í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þessi gögn hafi endurupptökubeiðandi látið hjá líða að leggja fram við meðferð málsins. Hann hafi heldur ekki gert athugasemdir undir rekstri málsins við meint misræmi milli orðalags greinar 3.4 í áskriftarsamningi og ákvæði 5. mgr. 4. gr. samþykkta Mogul Holding ehf. Sjálfur hafði endurupptökubeiðandi annast samningu beggja skjalanna. Sú staðreynd að framangreind atriði hafi ekki komið til umfjöllunar við meðferð málsins sé því endurupptökubeiðanda um að kenna.

Með vísan til alls framangreinds sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki uppfyllt. Telja gagnaðilar að málsatvik hafi verið leidd réttilega í ljós við meðferð málsins, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Það sé endurupptökubeiðanda um að kenna að hin nýju gögn hafi ekki komið fram við meðferð málsins.

Í öðru lagi telja gagnaðilar skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki uppfyllt. Hvað varðar ranga þýðingu greinar 3.4 áskriftarsamnings þá ítreki gagnaðilar að samningurinn hafi verið lagður fram á ensku ásamt þýðingu hans yfir á íslensku. Löggiltur skjalaþýðandi hafi annast þýðinguna. Hvorki hafi verið gerðar athugasemdir við þýðinguna af hálfu endurupptökubeiðanda í dómsmálinu né því haldið fram að misræmi væri milli orðalags greinar 3.4 í áskriftarsamningi og 5. mgr. 4. gr. félagssamþykkta.

Gagnaðilar telja túlkun endurupptökubeiðanda fái ekki staðist að lesa beri lið (iii) í grein 3.4 í einni heild og að orðin „bona fide 3rd party“ vísi til allra atriða sem upp séu talin í liðnum. Að mati gagnaðila verði við túlkun liðar (iii) í grein 3.4 að lesa hann saman við upphafsorð áskriftarsamningsins en þau séu svohljóðandi:

Automatic conversion. The Preferred Shares shall be automatically converted into common shares, at the applicable conversion price, […] (iii) upon a closing of a merger, acquisition, sale of voting control or sale of substantially all of the assets, including any intellectual property, of the Company to a bona fide 3rd party at a price per share not less than 3,5 times the Original Purchase Price (as adjusted for stock splits, paid dividends in excess of the 8% as defined in clause 3.1 above and the like) per share“

Í framangreindum texta felist augljóslega að forgangshlutir skuli sjálfkrafa breytast í almenna hluti þegar eitthvert þeirra tilvika sem nefnd séu í (iii) lið eigi sér stað. Orðið „bona fide 3rd party“ vísi því ekki til samruna heldur einungis þess tilviks þegar verulegir hluti eigna félagsins sé seldur til „bona fide“ þriðja aðila. Sé reynt að skilja orðasambandið með öðrum hætti verði það merkingarleysa bæði á enskri og íslenskri tungu. Í lið (iii) í grein 3.4 séu þannig tilgreind fjögur sjálfstæð tilvik sem hvert um sig geti leitt til þess að forgangshlutir skuli sjálfkrafa breytast í almenna hluti. Sú nýja þýðing sem endurupptökubeiðandi leggi fram breyti hér engu um og staðfesti einungis þessa túlkun textans.

Af framangreindu leiði að hugleiðingar endurupptökubeiðanda um rétta þýðingu hugtaksins „bona fide“ skipti engu máli enda eigi það einungis við um það tilvik þegar verulegur hluti eða nær allar eignir Mogul Holding séu seldar til grandlauss þriðja aðila.

Engu að síður hafna gagnaðilar því að orðalag áskriftarsamningsins „bona fide 3rd party“ þýði „raunverulegan þriðja aðila“. Í íslenskri lögfræði hafi það lengi verið ráðandi skilningur að orðalagið „bona fide“ merki „í góðri trú“, grandlaus eða grandleysi.

Af framangreindum sökum sé nýja þýðingin ekki nýtt gagn í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og verði ekki með nokkru móti séð að hún muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Fyrirliggjandi þýðingarskjal greini ekki frá því hvort þýðandi hafi kynnt sér efni áskriftarsamnings í heild, fyrirliggjandi þýðingu annars löggilts endurskoðanda eða yfirhöfuð hvað hafi verið lagt fyrir hann að gera. Sé skjalið gallað að þessu leyti.

Ef fallist sé að umrætt orðalag megi þýða á íslensku með þeim hætti sem endurupptökubeiðandi leggi áherslu á sé því hafnað af gagnaðilum að það verði til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Þegar áskriftarsamningur liggi fyrir undirritaður af öllum hluthöfum og félaginu sjálfu sé fyrst unnt að halda hluthafafund, þar sem endurupptökubeiðandi (fyrirrennari hans) njóti fullra réttinda í félaginu sem hluthafi. Þetta hafi gerst 21. ágúst 2006. Í 7. gr. áskriftarsamnings segi meðal annars orðrétt: „Seljandi [þ.e. félagið sjálft] skal greiða útlagðan kostnað kaupenda [þ.e. hluthafa], þ. á m. þóknanir og útgjöld við gerð samningsskjalanna sem lögmaður Brúar II ehf. mun annast.“

Samkvæmt ákvæðinu hafi það verið lögmaður Brúar II ehf. (þ.e. Thule Investments ehf.), sem hafi annast gerð samningsskjala, bæði gerð áskriftarsamnings, hluthafasamkomulags og samþykkta félagsins. Samkvæmt þessu hafi það verið endurupptökubeiðandi sjálfur sem hafi samið samþykktir og áskriftarsamning. Að bera nú fyrir sig ranga þýðingu fái því ekki staðist. Allir hluthafar, þar á meðal endurupptökubeiðandi, hafi undirritað samþykktir félagsins fyrirvaralaust. Í 1. mgr. 21. gr. samþykktanna segi orðrétt: „Engin sérréttindi, önnur en þau sem koma fram í samþykktum þessum, fylgja hlutum í félaginu. Hluthafar þurfa ekki að sæta innlausn á hlutum sínum nema lög standi til annars.“

Ákvæði þetta, sem sé óbreytt í samþykktum félagsins, taki af allan vafa um það að efni samþykktanna en ekki áskriftarsamningsins, hvorki íslensk þýðing né ensk frumútgáfa, ráði réttindum og stöðu hluthafa í félaginu. Beri því að leggja efni samþykktanna til grundvallar niðurstöðu í hæstaréttarmáli nr. 418/2012 án tillits til efni áskriftarsamnings.

Þá telja gagnaðilar hið nýja skjal sem beri heitið „Theater Mogul ehf. - Summary of Terms and Conditions- Sale of Convertible Preferred Shares“ ekki nýtt gagn. Hér sé um að ræða skjal sem hafi augljóslega verið í vörslu endurupptökubeiðanda þegar meðferð hæstaréttarmáls nr. 418/2012 hafi staðið yfir, bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Hefði endurupptökubeiðandi við rekstur málsins talið skjalið skipta máli hafi honum borið að leggja það fram. Sú staðreynd að það hafi ekki verið gert sé honum sjálfum að kenna.

Þá sé ljóst að gagnaðilar hafi ekki undirritað umrætt skjal heldur einungis framkvæmdarstjóri Theater Mogul ehf. (síðar Mogul Holding ehf.) og forsvarsmaður Brúar II ehf. Loks sé ljóst að skjalið geri ráð fyrir að eitt félag til viðbótar ætti að undirrita það en það virðist ekki hafa verið gert. Samkvæmt grein 1.2 í skjalinu sé gert ráð fyrir að síðasttalda félagið myndi kaupa hlutafé fyrir verulega fjárhæð. Það hafi augljóslega ekki gengið eftir og aðrir aðilar litið svo á að skjalið væri þar með fallið úr gildi. Skjalið sé dagsett 12. júlí 2006 og hafi tekið fimm vikur til viðbótar að ganga frá aðkomu endurupptökubeiðanda eða fyrirrennara hans að félaginu. Gagnaðilar vísi til þeirra sjónarmiða er varða skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Gagnaðilar mótmæla sérstaklega því hvernig endurupptökubeiðandi slíti efni greinar 2.4 úr samhengi, einkum í íslensku þýðingunni. Sé það gert á þann hátt að birta ekki aðalsetninguna „Forgangshlutir skulu sjálfkrafa breytast í almenna hluti …“.

Hvað varðar síðan yfirlýsingar fyrrverandi stjórnarmanna og endurskoðanda vísa gagnaðilar til forsendna Hæstaréttar í máli nr. 418/2012, en þar segi:

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að réttaráhrif samruna einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins og Mogul Holding hafi meðal annars verið þau að forgangshlutir hafi sjálfkrafa breyst í almenna hluti. Varð þessi breyting vegna beinna fyrirmæla í 5. málsgrein 4. greinar samþykkta félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað. Getur viðhorf einstakra stjórnarmanna, sem þó er ekki upplýst um, ekki haggað þessari niðurstöðu, sem leiðir af ótvíræðu orðalagi samþykktanna.

Í niðurlagi ummæla héraðsdóms komi síðan skýrt fram að orðalag 5. mgr. 4. gr. samþykktanna styddi „á engan hátt“ þann skilning að málsaðilar eða einhverjir þeirra hefðu talið að ákvæðið ætti einungis við þegar um samruna við þriðja aðila væri að ræða. Síðar segi í niðurstöðu héraðsdóms:

Það er mat dómarans að afstaða stjórnarmanna til réttaráhrifa sameiningarinnar verður ekki talin bindandi fyrir hluthafa. Um er að ræða afstöðu sem gengur gegn ákvæði samþykkta félagsins og þeim verður einungis breytt á lögmætum aðalfundi.

Framangreind afstaða Hæstaréttar og héraðsdóms sýni með ótvíræðum hætti að yfirlýsingar tveggja fyrrverandi stjórnarmanna hafi ekki það gildi sem endurupptökubeiðandi telji. Keimlíkar yfirlýsingar stjórnarmannanna vísi til stöðu viðkomandi sem stjórnarmanna í félaginu. Ályktun endurupptökubeiðanda þess efnis að "ekki verði um villst, að það var skilningur og vilji allra aðila er stóðu að baki samrunanum, að hann ætti ekki að hafa nein áhrif á réttarstöðu hluthafa …“ megi hins vegar skilja þannig að hluthafar hafi tekið afstöðu til málsins, samanber notkun orðsins „aðilar“. Hafi sá verið tilgangurinn sé endurupptökubeiðandi að leiða málið á villigötur. Yfirlýsingar gefi viðkomandi einungis sem stjórnarmenn og samkvæmt Hæstarétti geti viðhorf einstakra stjórnarmanna ekki haggað niðurstöðu sem leiði af ótvíræðu orðalagi samþykktanna. Þá hafi hvorugur þessara einstaklinga verið hluthafi Mogul Holding ehf. en báðir hafi þeir verið starfsmenn Thule Investments. Jafnframt verði að telja að stjórnarmenn séu bundnir af svari þáverandi lögmanns Mogul Holding ehf., dags. 7. apríl 2009 við bréfi lögmanns gagnaðila dagsett sama dag.

Endurupptökubeiðanda hafi verið í lófa lagið að kalla umrædda stjórnarmenn fyrir héraðsdóm. Það að hvorugur þeirra mætti fyrir héraðsdóm verði því að skrifast á reikning endurupptökubeiðanda. Að þessu leyti uppfylli endurupptökubeiðnin ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Varðandi yfirlýsingu endurskoðandans þá hafi hann ekki verið hluthafi. Yfirlýsing hans hafi ekkert gildi gagnvart ótvíræðum ákvæðum samþykkta félagsins. Þá beri að taka fram að endurskoðandinn annaðist ýmis önnur endurskoðunarstörf fyrir rekstrarfélög endurupptökubeiðanda á árinu 2011. Sú staðreynd veiki yfirlýsingu hans enn frekar. Þá hefði endurupptökubeiðandi auðveldlega getað kallað hann til skýrslugjafar við meðferð málsins. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé því ekki uppfyllt.

Þá mótmæla gagnaðilar því sjónarmiði að „við túlkun samninga, þ.m.t. samþykkta félaga, er lykilatriði að sameiginlegur vilji aðila sé leiddur í ljós.“ Samþykktir einkahlutafélaga hafi ótvírætt sjálfstætt gildi eins og glöggt megi sjá af niðurstöðu Hæstaréttar og orðalag þeirra skipti mestu máli. Eigi það ekki síst við þegar ákvæðin séu jafn ótvíræð og ákvæði 5. mgr. 4. gr. samþykkta endurupptökubeiðanda.

Að lokum telja gagnaðilar skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki vera uppfyllt. Gagnaðilar mótmæla að samruni Mogul Holding ehf. við dótturfélag sitt hafi haft þau réttaráhrif að fella úr gildi samninga. Endurupptökubeiðandi vilji ekki skilja ákvæði samninga með réttum hætti enda þótt félagið sjálft hafi annast gerð þeirra, sbr. 7. gr. áskriftarsamnings. Þá virðist endurupptökubeiðandi ekki heldur átta sig á gildi samþykkta Mogul Holding ehf. þótt orðalag þeirra sé ótvírætt og megi í því efni meðal annars vísa til 4. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 21. gr. sem kveði svo á að hluthafar njóti engra sérréttinda umfram það sem kveðið sé á um í samþykktum.

Þá sé því mótmælt að samruninn hafi haft þau áhrif að „virkja innlausnarrétt“ og því síður hafi endurupptökubeiðandi „þar af leiðandi [verið] þvingað út úr félaginu“. Þvert á móti krefjist endurupptökubeiðandi að innlausnarréttur þess verði viðurkenndur í einkamáli nr. E-2746/2013, sem endurupptökubeiðandi höfðaði gegn Mogul Holding ehf. árið 2013. Í því máli byggi endurupptökubeiðandi meðal annars á hæpnum orðskýringum. Sú staðhæfing endurupptökubeiðanda að við undirbúning þessarar málsóknar hafi „hin nýju gögn í þessu máli [komið] fram“ sé einnig fjarstæðukennd. Gögnin og þær upplýsingar sem þau hafi að geyma hafi öll legið fyrir hjá endurupptökubeiðanda þegar hæstaréttarmálið nr. 418/2012 hafi verið til meðferðar fyrir dómstólum.

Sem hluthafi í Mogul Holding ehf. njóti endurupptökubeiðandi fullra réttinda í samræmi við eignarhlut sinn, þar á meðal rétt til arðs líkt og aðrir hluthafar. Þá hafi endurupptökubeiðandi notið verulegs arðs af fjárfestingu sinni í félaginu frá árinu 2006. Það sé mat gagnaðila að ekki séu til staðar önnur atvik í máli þessu sem styðji að undantekningarreglu 167. gr. laga um meðferð einkamála verði beitt.

Engin skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu fyrir hendi til að fallast á beiðnina. Málsatvik hafi verið leidd réttilega í ljós í hæstaréttarmáli nr. 418/2012 og endurupptökubeiðanda megi kenna um telji hann nú ástæðu til að leggja fram ný gögn sem hann gerði ekki í því máli. Svonefnd ný gögn séu ekki til þess fallin að leiða til breyttrar niðurstöðu í málinu og ekki verði séð að önnur atvik mæli með endurupptöku málsins. Beri í því sambandi meðal annars að leggja áherslu á að rekstraraðili endurupptökubeiðanda teljist sérfróður aðili sem hafi að auki annast alla skjalagerð. Gagnaðilar séu hins vegar fjórir einstaklingar og hafi enginn þeirra sérstaka viðskipta- eða lögfræðimenntun.


V. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Í hæstaréttarmáli nr. 418/2012 snerist deila aðila meðal annars um túlkun á ákvæði í samþykktum einkahlutafélagsins Leikhúsmógúlsins hvenær forgangshlutir breyttust sjálfkrafa í almenna hluti. Efnislegur ágreiningur var um hvort samruni Leikhúsmógúlsins ehf. við dótturfélagið Mogul Holding ehf. hafi leitt til þessa. Hæstiréttur taldi að réttaráhrif samrunans hefðu verið meðal annars þau að forgangshlutir hafi sjálfkrafa breyst í almenna hluti. Vísar rétturinn í þessu sambandi til beinna fyrirmæla í 5. málsgrein 4. gr. samþykkta félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað. Fyrirliggjandi endurupptökubeiðni byggist á því að ákvæði í samningi um áskrift að forgangshlutum með breytirétti í félaginu, um sjálfkrafa breytingu forgangshluta í almenna hluti, hafi verið ranglega þýtt úr ensku yfir á íslensku. Þar af leiðandi séu sterkar líkur leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar.

Við meðferð málsins bæði í héraði og fyrir Hæstarétti fór fram ítarlegt mat á umdeildum ákvæðum, þar á meðal síðastnefndu ákvæði samþykktanna, og skilyrðum þess að forgangshlutir breyttust í almenna hluti.  Endurupptökubeiðandi hafði fullt forræði á að koma á framfæri þeim rökum sem hann færir fyrir því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós bæði við meðferð málsins fyrir héraði og Hæstarétti. Efnislegur ágreiningur í málinu laut meðal annars að þessu atriði og röksemdir gagnaðila í héraði, úrskurður og dómur héraðsdóms í málinu, og greinargerð þeirra fyrir Hæstarétti, gáfu honum tilefni til að koma þessum röksemdum á framfæri við meðferð málsins. Einnig er rétt að líta til þess að íslensk þýðing á áskriftarsamningnum var lögð fram í héraði. Endurupptökubeiðandi hafði upphaflega lagt skjalið fram á ensku en málsaðilar voru sammála um að þörf væri á þýðingu. Löggiltur skjalaþýðandi annaðist þýðinguna og voru engar athugasemdir gerðar við hana, þar með talið af hálfu endurupptökubeiðanda. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. laga um meðferð einkamála, um að aðila verði ekki kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar er því ekki uppfyllt.

Ekki verður séð hvernig efni skjals sem ber heitið „Theater Mogul ehf. Summary of Terms and Conditions“ geti breytt niðurstöðu í mikilvægum atriðum auk þess sem lagalegt gildi skjalsins er óljóst. Dómur Hæstaréttar byggir einnig á því að viðhorf einstakra stjórnarmanna geti ekki haggað niðurstöðu er leiði af ótvíræðu orðalagi samþykkta Leikhúsmógúlsins ehf. Gögn þau sem endurupptökubeiðandi hefur lagt fram og fela í sér yfirlýsingar fyrrverandi stjórnarmanna og endurskoðanda eru því ekki fullnægjandi til að teljast vera ný gögn er geti breytt niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Með vísan til þessa eru skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, ekki uppfyllt.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er. Gerist því ekki þörf á að fjalla um c-lið 1. mgr. 167. gr. laganna. Beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 418/2012 er því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna nefndarmanna.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Mango Tree B.V. um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 418/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. febrúar 2013, er hafnað.


Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta