Frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega hækkar í 100.000 kr. á mánuði 1. júlí nk.
Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, þar sem lagt er til að á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geti öryrkjar valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar.
Frumvarpið felur í sér að á umræddu tímabili geti örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar aflað atvinnutekna allt að 100.000 kr. á mánuði án þess að þær skerði tekjutryggingu. Hér er um mikla hækkun frítekjumarksins að ræða en í dag skerðist tekjutrygging vegna atvinnutekna umfram 327.000 kr. á ári eða um 27.000 kr. á mánuði. Þann 1. janúar 2009 er gert ráð fyrir að nýtt örorkumatskerfi hafi öðlast gildi og komi í stað þessa frítekjumarks.
Ætla má að hækkun frítekjumarksins muni leiða til aukinnar atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og hafa þannig í för með sér hærri tekjur þeim til handa. Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á hækkun frítekjumarks í baráttunni fyrir bættum kjörum öryrkja og virkrar þátttöku þeirra í samfélaginu og er þessi breyting í samræmi við áherslur bandalagsins. Breytingin er jafnframt í samræmi við þau markmið sem hugmyndir örorkumatsnefndar um starfshæfnismat og starfsendurhæfingu byggja á. Í ljósi fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu með áherslu á starfshæfnismat og starfsendurhæfingu mun hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega aðeins gilda til bráðabirgða þar til nýtt kerfi með nýjar viðmiðunarreglur hefur verið tekið upp.
Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru liðlega 30% örorkulífeyrisþega með launatekjur eða reiknað endurgjald í desember 2007 eða um 4.600 einstaklingar. Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar má áætla að þar af muni um 2.650 einstaklingar hafa ávinning af hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur í 100.000 kr. á mánuði. Ekki er unnt að áætla fyrirfram þann fjölda sem mun nýta sér nýjar viðmiðunarreglur varðandi frítekjumark á atvinnutekjur, en þess má vænta að talsvert fjölmennur hópur örorkulífeyrisþega nýti sér þetta tækifæri til þess að feta sig á ný út á vinnumarkaðinn. Breytingin mun því fela í sér aukin tækifæri til handa örorkulífeyrisþegum með þeim auknu lífsgæðum sem þátttaka á vinnumarkaði felur í sér fyrir lífeyrisþegana sjálfa og samfélagið í heild.