Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Starfsmenntasjóður styrkir 32 verkefni um 46 milljónir króna

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur að tillögu Starfsmenntaráðs úthlutað vegna ársins 2008 rúmlega 46 milljónum króna úr starfsmenntasjóði til 32 verkefna.

Til úthlutunar að þessu sinni voru 55 milljónir króna. Alls bárust 62 umsóknir, samtals að fjárhæð 160.625.470 krónur frá 40 aðilum. Fengu 19 aðilar úthlutað styrkjum, samtals að fjárhæð 46.216.500 krónur til 32 verkefna.

Í ávarpi félags- og tryggingamálaráðherra sem aðstoðarmaður hennar flutti við kynningu úthlutunarinnar var lögð rík áhersla á sívaxandi mikilvægi starfsmenntunar, bæði fyrir fyrirtækin og einstaklingana sjálfa og áhersla ríkisstjórnarinnar í þeim efnum áréttuð:

Í tengslum við kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins lýstu ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins sig sammála um ýmsar ráðstafanir og áherslur á sviði menntamála, með sérstakri skírskotun til menntunar fólks á vinnumarkaði með takmarkaða menntun.

Það markmið var meðal annars sett að eigi fleiri en 10% fólks á vinnumarkaði verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar árið 2020.

Því verður markvisst unnið að því á næstu árum að skapa tækifæri og hvata til menntunar fyrir fólk sem er á vinnumarkaði og hefur takmarkaða menntun. Meðal annars hefur verið ákveðið að framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu sem nýtist fólki á vinnumarkaði verða aukin í jöfnum framlögum um 300 milljónir króna á næstu tveimur árum.

Frá árinu 1992 hefur Starfsmenntaráð veitt tæplega 800 milljónum króna til um 900 starfsmenntaverkefna sem hafa það að markmiði að efla hæfni starfsfólks og styrkja stöðu atvinnugreina og fyrirtækja hér á landi.

Fjölbreytni verkefna sem hlutu styrki í ár er að venju mikil og þau sem sérstaka athygli hlutu voru:

  • Ekra-starfsþróun fékk styrk að fjárhæð 1.137.500 krónur. Markmiðið er að hanna námskeið fyrir starfandi bréfbera hjá Íslandspósti hf. Áhersla verður lögð á sjálfseflingu starfsmanna, líkamsbeitingu og þá þætti sem eru til þess fallnir að auka trú starfsmanna á eigin getu og færni og með því að styrkja stöðu þeirra sem einstaklinga og starfsmanna. Umsækjandi er Íslandspóstur hf. og er verkefnið unnið í samstarfi við Mími-símenntun og Póstmannafélag Íslands.
  • Verkefnið staða og menntun starfsmenntakennara á Íslandi fékk styrk að fjárhæð 1.750.000 krónur. Verkefnið er rannsóknarverkefni og unnið í samstarfi við SRR-Símenntun Rannsóknir Ráðgjöf, Kennaraháskóla Íslands og Kennarasamband Íslands. Umsækjandi er Hróbjartur Árnason, lektor við Kennaraháskóla Íslands. Tilgangur verkefnisins er að afla haldgóðra upplýsinga um stöðu starfsmenntakennara á Íslandi með tilliti til menntunar, símenntunar og framtíðarsýnar.

 

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra flutt af aðstoðarmanni hennar við kynningu úthlutunar úr starfsmenntasjóði



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta