Hoppa yfir valmynd
14. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

23/2010 - Úrskurður

Miðvikudaginn 14. desember 2011

 

 

 

23/2010

 

 

 

A

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann xx 2010 kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá xx 2009 að skerða lífeyrisréttindi hennar vegna búsetu erlendis.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. xx 2009, að við endurskoðun á réttindum hennar hafi komið í ljós að búsetuhlutfall hafi ekki verið rétt skráð. Búsetuhlutfall hafi verið skráð 72% en í ljós hafi komið að rétt búsetuhlutfall eigi að vera 56,73%.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir svo:

 

„Kærandi er með 75% örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Við endurmat í xx 2009 lækkuðu greiðslur kæranda umtalsvert. Samkvæmt bréfi TR dags.  xx 2009 var búsetuhlutfall kæranda og þar með greiðsluhlutfall örorkulífeyrisgreiðslna lækkað frá 72% í 56,73% vegna búsetu kæranda erlendis.

 

Réttur til lífeyris tekur meðal annars mið af búsetu lífeyrisþega í landinu. xx 2009 úrskurði (sic) úrskurðarnefnd almannatrygginga í máli nr. 221/2009, en málavextir í kærumáli þessu eru mjög svipaðir málavöxtum kæranda. Skv. úrskurðinum á breytt réttarframkvæmd og lögskýring af hálfu TR ekki beina stoð í orðalagi 18. gr. almannatrygginga nr. 100/2007. Úrskurðarnefndin bendir einnig á að engar lagabreytingar hafa átt sér stað sem kalla á hina nýju framkvæmd TR. Kærandi fer fram á að TR endurskoði og leiðrétti búsetuhlutfallið í samræmi við úrskurð nr. 221/2009.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. xx 2010, eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.  Greinargerðin er dagsett xx 2010. Í henni segir svo:

 

„Kærð er leiðrétting á skerðingarhlutfalli örorkulífeyris vegna búsetu erlendis.

 

Heimild til greiðslu örorkulífeyris byggist á 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL).  Þar segir í 1. og 4. mgr.:

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:

  1. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
  2. b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

...

Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Í 1. mgr. 17. gr. segir:

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

 

Í ATL er í 58. og 68. gr. að finna ákvæði sem gera ráð fyrir að ákvæði milliríkjasamninga um almannatryggingar geti haft áhrif á útreikning bóta skv. lögunum.

 

Ísland er aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningum), sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993.  Í VI. viðauka við samninginn er fjallað um félagslegt öryggi og þar kemur fram að ákvæði reglugerðar ESB nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja gilda hér á landi ef jafnframt búsetu hér landi hefur einnig verið um að ræða búsetutímabil í öðrum aðildarríkjum.  Í reglugerðinni er að finna reglur sem kveða á um að ef um búsetu í fleiri en einu landi hefur verið að ræða eigi greiðslur í hverju landi að vera í hlutfalli við lengd búsetu- eða tryggingatímabila í viðkomandi landi.

 

Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá xx 2007 og eru greiðslur skertar vegna búsetutímabila í B og D á árunum 1977 – 1980, 1984 – 1994 og 1996 - 2005. 

 

Við afgreiðslu endurmats á örorku hennar frá xx 2009 kom í ljós að búsetuhlutfallið hafði ekki verið rétt reiknað og var það því leiðrétt.  Kæranda var tilkynnt um leiðréttingu búsetuhlutfallsins með bréfi dags. xx 2009.

 

Greiðsluhlutfall hennar reiknast nú hlutfallslega miðað við búsetutímabil hér á landi og í samræmi við ákvæði reglugerðar ESB 1408/71 um útreikning á greiðslum þegar um búsetu í fleiri en einu aðildarríki hefur verið að ræða.

 

Tryggingastofnun telur að greiðsluhlutfalli kæranda hafi réttilega verið leiðrétt þannig að hún fær ekki lengur greitt hér á landi vegna tímabils sem hún hefur verið búsett erlendis.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. xx 2010 og var henni jafnframt gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. xx 2010. Í því segir svo:

 

„Allt í einu breytti Tryggingastofnun greiðslunum. Þeir segjast hafa sent mér bréf um breytingu á búsetu hlutfallinu. Ég fékk aldrei það bréf. Ég er viss. Það var reiknað út á vissan hátt og var 72% (Ég veit ekki hvernig). Svo varð það allt í einu 73% og ég hef alltaf verið að hringja og spyrja og fara og spyrja. Aldrei almennileg svör. Allt í einu sá ég að % hlutfallinu hafði verið breytt í eitthvað yfir 50% (54,83%). Ég spyr, aldrei almennileg svör. Ég hef lesið í fjölmiðum að þeir ætluðu að breyta þessu. Svo sá ég að einhver hafði kvartað og fengið rétt. Það höfðu engin lög verið sett. Tryggingastofnun fékk ekki að breyta þessu.

 

Ég, A,  er með fulla örorku, það þýðir að ég sé með skerta starfsorku. Ég er að borga Tryggingastofnun meira en ég fæ. Tryggingastofnun hefur sótt um örorku frá B og D fyrir mig, það var gert í xx í fyrra. B hefur neitað. D hefur ekki svarað. Ég hef haft x íbúðir í útleigu. Ég er að borga gjöldin af íbúðunum, með leigupeningnum. Og það er ekkert eftir. Atvinnuleysisbætur á ég ekki rétt á, þegar ég er með x íbúðirnar í leigu. Mér var ráðlagt að sækja um pening hjá Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og fékk neitun. Ég er alstaðar í mínus og til að standa í skilum, þá tók ég lífeyrisjóðslán til x ára, sem þarf að borga.

 

SJÚKDÓMAR

[…]

 

VINNA

[…]

 

ÚTLEIGUÍBÚÐIRNAR

      […]

 

Bréf kæranda var sent Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. xx 2010. Frekari gögn bárust frá kæranda þann xx 2010. Voru þau kynnt Tryggingastofnun með bréfi dagsettu sama dag. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett xx 2010. Í henni segir svo:

 

„Borist hafa athugasemda frá kæranda sem varða það að hún telur sig ekki geta lifað á tekjum sínum.

 

Greiðsluhlutfall kæranda reiknast nú hlutfallslega miðað við búsetutímabil hér á landi og í samræmi við ákvæði reglugerðar ESB 1408/71 um útreikning á greiðslum þegar um búsetu í fleiri en einu aðildarríki hefur verið að ræða.

 

Tryggingastofnun hefur haft milligöngu við umsókn kæranda um örorkulífeyri frá G, B og D.  Umsókn um örorkulífeyri hefur verið synjað í G vegna þess að ekki er fyrir hendi tryggingatímabil þar í landi og í B vegna þess að læknisfræðileg skilyrði fyrir örorku eru ekki talin uppfyllt.  Umsóknin er enn í vinnslu í D.

 

Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um synjun á örorkulífeyri í B með bréfi dags. 15. júní þar sem kom fram að úrskurðurinn væri framsendur svo hún gæti kynnt sé úrskurðinn og kæruleiðir.  Í úrskurðinum kom fram að heimilt væri að kæra innan 2ja mánaða með því að skrifa bréf til tryggingastofnunar í B.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um að kæra hafi átt sér stað.

 

Tryggingastofnun er ekki heimilt að greiða kæranda örorkulífeyri umfram það hlutfall sem tryggingatímabil hennar hér á landi gefur tilefni til.“

 

Viðbótargreinargerðin var kynnt kæranda með bréfi dags. xx 2010. Frekari gögn bárust frá kæranda þann xx 2011. Voru þau kynnt Tryggingastofnun með bréfi, dags. xx 2011. Í tölvubréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar þann xx 2011 gerir kærandi athugasemdir við það sem fram kom í greinargerð Tryggingastofnun ríkisins varðandi umsóknir um örorkulífeyri frá B og G. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar skerðingu á greiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta til kæranda. Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda að örorkulífeyrisgreiðslur til hennar lækkuðu úr 72% í 56,73% vegna búsetu hennar erlendis.

 

Kærandi er ósátt við endurmat á greiðsluhlutfalli örorkulífeyris vegna búsetu hennar erlendis. Kærandi vísar til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 221/2009 og segir að í þeim úrskurði hafi nefndin talið að breytt réttarframkvæmd og lögskýring Tryggingastofnunar hafi ekki átt beina stoð í orðalagi 18. gr. um almannatryggingar. Telur kærandi að málsatvik í framangreindum úrskurði nefndarinnar eigi einnig við í hennar tilviki.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að við endurmat á lífeyrisgreiðslum til kæranda í xx 2009 hafi komið í ljós að búsetuhlutfallið hafi ekki verið rétt reiknað. Það hafi því verið leiðrétt og kæranda tilkynnt um leiðréttinguna. Greiðsluhlutfall kæranda reiknist nú hlutfallslega miðað við búsetutímabil hér á landi og í samræmi við ákvæði reglugerðar ESB 1408/71 um útreikning á greiðslum þegar um búsetu í fleiri en einu aðildarríki sé að ræða. Kærandi fái því ekki lengur greitt hér á landi vegna tímabils sem hún hefur verið búsett erlendis.

 

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Í 1. mgr. 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem eru á aldrinum 16-67 ára og hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu. Í 1. mgr. nefndrar 18. gr. segir að örorkulífeyrir skuli greiðast eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Við ákvörðun á búsetutíma skuli reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Um greiðslu ellilífeyris er fjallað í 17. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. 17. gr. segir m.a. svo:

 

„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera [...] kr. á ári og reiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs ... Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann....“

 

Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar því aðeins til álita að um búsetu í a.m.k. 40 almanaksár sé að ræða frá 16 til 67 ára aldurs framreiknað í samræmi við 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu uppfyllir kærandi búsetuskilyrðin ekki að fullu vegna búsetu erlendis á þessu tímabili. Nýtur kærandi því skertra lífeyrisréttinda. Samkvæmt gögnum málsins bjó kærandi erlendis frá xx til xx. Þá bjó kærandi erlendis frá xx til xx. Loks bjó kærandi erlendis frá xx til xx . Kærandi hefur verið búsett hérlendis frá þeim tíma. Samanlagður búsetutími hennar hér á landi til xx 2006, er hún hóf töku örorkulífeyris eru því 15 ár, 2 mánuðir og 9 dagar. Samanlagður búsetutími kæranda erlendis eftir 16 ára aldur þar til hún hóf töku lífeyris hérlendis eru 22 ár og 4 dagar. Framreiknaður búsetutími kæranda hérlendis frá 16 ára til 67 ára aldurs eru 13 ár og 10 mánuðir. Samanlagt eru því framreiknuð búsetuár kæranda hérlendis 20,84 ár og á hún því rétt á 52,09% greiðsluhlutfalli örorkulífeyris. Tryggingastofnun ríkisins hefur fallist á að greiðsluhlutfall örorkulífeyris til kæranda skuli vera 56,73%. Telur úrskurðarnefndin ekki efni til að hrófla við ívilnandi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að Tryggingastofnun ríkisins sé óheimilt að endurskoða og leiðrétta búsetuhlutfall hennar er rétt að taka fram að samkvæmt 3. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 má endurskoða grundvöll bóta hvenær sem er. Í tilviki kæranda háttar svo til að með nýju örorkumati var fyrri stjórnvaldsákvörðun endurskoðuð og henni breytt með íþyngjandi hætti. Það er hins vegar mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins og ný ákvörðun um bótarétt kæranda hafi verið rökstudd með fullnægjandi hætti. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að ákvarða lífeyrisgreiðslur til kæranda 56,73% í stað 72% vegna búsetu hennar erlendis er staðfest.

 

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að greiðsluhlutfall örorkulífeyris til kæranda skuli vera 56,73%.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiðsluhlutfall örorkulífeyris til A, skuli vera 56,73% er staðfest.

 

 

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

Friðjón Örn Friðjónsson hrl.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta