Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 362/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. ágúst 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 362/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060026

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. júní 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Íran (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júní 2021, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga hinn 13. nóvember 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júní 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 12. júní 2021. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 30. júní 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi uppfyllti ekki aldursskilyrði 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis, sbr. 69. gr. Var umsókn hennar því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi og eiginmaður hennar hafi bæði sótt um dvalarleyfi fyrir foreldra 67 ára og eldri, sbr. 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga, en þau eigi þrjú börn hér á landi. Eiginmaður kæranda sé orðinn 67 ára og óski hún því eftir því að vikið verði frá aldursskilyrðum ákvæðisins. Bendi kærandi á að hún glími við andleg veikindi og kvíða yfir því að vera svo fjarri börnum sínum en elsta dóttir hennar eigi fasteign og muni hýsa þau og sjá um framfærslu þeirra. Að auki sé dóttir hennar að ganga í gegnum erfiðan skilnað. Þá vísar kærandi til þess að aðstæður í heimaríki hafi verið sérstaklega slæmar í kjölfar Covid-19 heimsfaraldurs.

V.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt ákvæðinu teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Samkvæmt 72. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem á barn hér á landi dvalarleyfi í þeim tilvikum sem greinir í 2.-4. mgr. ákvæðisins. Þá þurfa skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. að vera uppfyllt þegar dvalarleyfi eru veitt á þessum grundvelli. Kemur fram í 2. mgr. 72. gr. að heimilt er að veita útlendingi sem er 67 eða eldri eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.

Grundvöllur umsóknar kæranda um fjölskyldusameiningu eru tengsl við þrjú börn hennar sem búsett eru hér á landi en kærandi er […] ára gömul. Af ákvæðum 69. gr. og 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga er ljóst að foreldri verði aðeins veitt dvalarleyfi samkvæmt ákvæðunum hafi það náð 67 ára aldri en um ófrávíkjanlegt skilyrði er að ræða. Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki náð þeim aldri og er því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Með vísan til framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Kærunefnd vekur athygli á því að kærandi kann að eiga rétt á dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd áréttar þó að með þessum leiðbeiningum er nefndin ekki að taka afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði slíks dvalarleyfis ef umsókn á grundvelli framangreinds ákvæðis bærist íslenskum stjórnvöldum.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta