Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 404/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 404/2018

Mánudaginn 8. apríl 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. nóvember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. nóvember 2018, um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 7. ágúst 2018. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. september 2018, var óskað eftir að kærandi legði fram U1 vottorð vegna starfa hans erlendis. Umbeðið vottorð barst stofnuninni 1. nóvember 2018. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. nóvember 2018, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að vinna hans á ávinnslutímabili samkvæmt fyrirliggjandi gögnum næði ekki því lágmarki sem kveðið væri á um í 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. nóvember 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 4. desember 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. desember 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 2. janúar 2019 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2019. Athugasemdir bárust frá Vinnumálastofnun 10. janúar 2019 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. janúar 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. febrúar 2019, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Gögn bárust 22. febrúar 2019 og voru þau send Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi skráð sig atvinnulausan við flutning til landsins X 2018 og skilað umbeðnum U1/E301 pappírum. Hann hafi fengið synjun með þeim rökum að einungis væri tekið við slíkum pappírum frá Norðurlöndunum. Að mati kæranda standist það ekki að EES-löndum sé mismunað á þennan hátt því samkvæmt 47. gr. laga nr. [54/2006] sé skýrt tekið fram að slíkur réttur eigi við um öll lönd EES/EFTA, auk Færeyja. Kærandi bendir á að hann og aðrir fjölskyldumeðlimir hafi farið með U1 pappíra frá Íslandi til B þar sem slíkir pappírar séu teknir gildir. Slíkur réttur verði að vera til staðar í báðum löndum og virka í báðar áttir á milli landanna.

Í athugasemdum kæranda er því mótmælt að hann eigi ekki atvinnuleysisbótarétt í B. Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hafi skilað komi aðeins fram að hann hafi ekki sótt um bótarétt í B og hafi ekki verið á bótum þegar hann hafi flutt til Íslands. Þar sé einnig tekið fram að hann hafi starfað í B árin X og X og því sé einkennilegt að álykta að hann hafi engan rétt þar. Kærandi tekur fram að hann hafi starfað á Íslandi til ársins 2014 en ekki flutt lögheimili sitt fyrr en um mitt ár 2015. Í greinargerð Vinnumálastofnunar sé ítrekað tekið fram að kærandi hafi ekki verið á innlendum vinnumarkaði síðan 2013 en stofnunin hafi ekki haft fyrir því að kanna hvenær hann hafi flutt. Kærandi hafi vissulega verið örlítið lengur en 3 ár í B og muni þar einhverjum örfáum mánuðum.

Kærandi vísar til þess að upplýsingagjöf Vinnumálastofnunar í málinu hafi verið algjörlega ófullnægjandi og nú komi stofnunin með aðrar skýringar en hann hafi fengið frá greiðslustofu þegar umsókn hafi verið synjað. Kærandi hafi verið beðinn um U1-vottorð sem sé furðulegt því að allar upplýsingar hafi legið fyrir við umsókn. Ráðgjafi hafi aðeins spurt hvort hann væri ekki örugglega með átta mánaða vinnu á síðustu tveimur árum samkvæmt því vottorði. Þrátt fyrir að kærandi hafi verið að bíða eftir vottorðinu, og Vinnumálastofnun haft upplýsingar um það, hafi umsókn hans verið synjað þar sem pappírar hafi ekki borist. Það sé algjör ósvífni og sýni einnig að engin samskipti séu á milli deilda Vinnumálastofnunar og lögboðið hlutverk hennar vanrækt á ýmsum sviðum.

Kærandi bendir á að hann hafi flutt til Íslands í byrjun árs 2018, þrátt fyrir að hafa ekki flutt lögheimilið fyrr en 20. júlí. Fyrstu mánuðina á Íslandi hafi kærandi starfað í hlutastarfi við [...] en ekki tekið það fram á umsókninni þar sem hann hafi ekki átt von á að það myndi hafa mikið vægi við útreikning bóta, enda hafi hann fengið misvísandi upplýsingar frá Vinnumálastofnun allt frá því hann hafi flutt aftur til landsins. Ef synjunin verði látin standa óski kærandi eftir að skila inn nýrri umsókn undir eins.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að samkvæmt gögnum í máli kæranda hafi hann síðast starfað á innlendum vinnumarkaði árið 2013. Samkvæmt U1-vottorði hafi kærandi verið við störf í B frá X til X. Í vottorðinu komi einnig fram að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum þar í landi. Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi ekki náð því lágmarki sem 15. gr., sbr. og a-lið 3. gr. laga nr. 54/2006, kveði á um. Samkvæmt 15. gr. teljist launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Launamaður, sem hafi starfað skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Kærandi hafi starfað síðast á innlendum vinnumarkaði á árinu 2013. Af þeim sökum geti hann ekki talist tryggður innan atvinnutryggingarkerfisins á grundvelli umræddrar greinar. Ákvæði V. kafla laganna um tilvik er leiði til þess að atvinnuleysistryggingar geymist eigi annaðhvort ekki við í máli kæranda eða heimili ekki að bótaréttur sé sóttur svo langt aftur í tímann.

Í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 54/2006 sé kveðið á um ávinnslutímabil í öðru aðildarríki. Ákvæðið feli í sér heimild til að meta vinnu atvinnuleitanda í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins til ávinnslu bótaréttar hérlendis. Heimildin sé háð því að störf viðkomandi atvinnuleitanda hafi veitt honum rétt samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar og að umsækjandi hafi starfað á Íslandi að einhverju marki á síðasta mánuði ávinnslutímabilsins. Samkvæmt U1-vottorði, útgefnu af B yfirvöldum, hafi störf kæranda í því ríki ekki veitt honum rétt samkvæmt lögum þess um atvinnuleysistryggingar. Að auki hafi kærandi ekki starfað á Íslandi síðasta mánuðinn á ávinnslutímabilinu. Ákvæði 1. mgr. 47. gr. veiti kæranda því ekki rétt til atvinnuleysisbóta og Vinnumálastofnun sé ekki heimilt að taka tillit til starfstímabila hans í B við mat á bótarétti hans hérlendis. Vinnumálastofnun bendi á að í 3. mgr. 47. gr. laga nr. 54/2006 sé að finna sérákvæði sem gildi um þá sem flytji til Íslands frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi eða Svíþjóð. Sú sérregla mæli fyrir um að þeir sem komi frá fyrrgreindum löndum þurfi ekki að uppfylla skilyrði 1. mgr. 47. gr. laga nr. 54/2006 um starfstíma á innlendum vinnumarkaði á síðasta mánuði ávinnslutímabils. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um að nægilegt sé að atvinnuleitandi sem flytji frá fyrrgreindum ríkjum til Íslands hafi starfað hér á landi á síðastliðnum fimm árum frá því að hann lagði inn umsókn um atvinnuleysisbætur. Sérákvæði 3. mgr. 47. gr. eigi ekki við í máli kæranda, enda hafi hann verið við störf í B en ekki þeim ríkjum sem talin séu upp í undanþáguákvæðinu. Þar að auki hafi störf kæranda ekki veitt honum rétt til atvinnuleysistrygginga erlendis. Þegar framangreindu undanþáguákvæði sleppi beri Vinnumálastofnun að byggja ákvörðun sína á meginreglu 15. gr. laganna. Kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga á grundvelli ákvæðisins, enda nái vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki því lágmarki sem ákvæðið kveði á um. Því beri Vinnumálastofnun að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar er vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi síðast starfað á innlendum vinnumarkaði í desember 2013 og ekki sé að finna færslur um launatekjur hjá kæranda frá vinnuveitanda í staðgreiðsluskrá á árinu 2018.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.   

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.

Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga á grundvelli 15. gr. laga nr. 54/2006 þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar nái ekki því lágmarki sem ákvæðið kveði á um. Undir rekstri málsins lagði kærandi fram gögn um vinnu sína í maí, júní og júlí 2018. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að gögnin gefi tilefni til að rannsaka málið frekar, en Vinnumálastofnun hefur ekki tekið afstöðu til þeirra. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. nóvember 2018, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta