Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 10/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 10/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070034

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. júlí 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júlí 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 11. júní 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júlí 2019, var umsókn kæranda synjað. Þann 15. júlí sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 24. júlí sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 29. júlí sl. Viðbótargögn bárust frá kæranda þann 29. október sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að við vinnslu umsóknar hafi vaknað grunur hjá stofnuninni um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Hafi kærandi og maki hennar verið boðuð í viðtöl hjá Útlendingastofnun sem fram fóru þann 12. desember 2018. Í kjölfar þeirra viðtala hafi enn verið til staðar grunur hjá stofnuninni um að hjúskapur þeirra væri til málamynda og því hafi lögmanni kæranda verið sent bréf, dags. 16. apríl 2019, þar sem rakin voru þau atriði sem að mati stofnunarinnar bentu til þess að hjúskapur þeirra væri hugsanlega til málamynda. Þann 18. júní sl. hafi Útlendingastofnun borist greinargerð frá lögmanni kæranda.Vísaði Útlendingastofnun til og reifaði ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga auk lögskýringargagna með ákvæðinu. Vísaði stofnunin til þess kærandi hafi komið hingað til lands á vegabréfsáritun í apríl 2018 og gengið í hjúskap með maka sínum þann 8. júní s.á. en þau hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Þá væru nokkur atriði sem bentu til þess að kærandi og maki þekktu ekki til einstakra atriða og atvika úr lífi hvors annars. Að mati stofnunarinnar væri talsvert ósamræmi í svörum kæranda og maka hennar í viðtölum varðandi kynni maka af systur kæranda. Aðspurður hafi maki kæranda ekki vitað hvað kærandi starfaði við í heimaríki og hvaða skólastigi hún hefði lokið. Aðspurð kvað kærandi sig ekki vita af hverju maki hennar væri [...] en að hún vissi til þess að hann kvartaði yfir verkjum í baki. Jafnframt hafi kæranda og maka hennar ekki borið saman um það hvort þau byrjuðu saman í [...] eða [...] og hvort þeirra hafi haft frumkvæði að því að ganga í hjúskap. Ennfremur hafi kærandi ekki vitað að maki hennar hefði gegnt [...] en auk þess hafi stofnunin vísað til grunsemda varðandi hjúskaparsögu maka kæranda. Þá sé [...] ára aldursmunur á kæranda og maka hennar. Með vísan til alls framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri til staðar um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi og að kærandi hefði ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað og henni veitt færi á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum innan 15 daga frá móttöku ákvörðunarinnar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda vísar hún til þess að 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs og við túlkun á ákvæðinu beri að beita þröngri lögskýringu og vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Af því leiði að stjórnvöldum beri skylda til að framkvæma eigið mat og tryggja að slíkt fari raunverulega fram í hverju tilviki. Þá beri einnig að horfa til hugtaksins „rökstuddur grunur“, sem vísi m.a. til þess að eitthvað sé stutt ástæðum eða rökum. Kærandi vísar til úrskurða kærunefndar nr. 83/2019 og 315/2019 máli sínu til stuðnings. Gerir kærandi athugasemd varðandi niðurstöðu Útlendingastofnunar um meint ósamræmi í viðtölum hennar og maka hennar. Í fyrsta lagi sé ljóst af endurriti þeirra að kærandi og maki hennar þekki í reynd afar vel til hvors annars og að fullt samræmi hafi verið í svörum þeirra hvað varðar lýsingu á hefðbundnum degi, s.s. áhugamál, frítíma, mat, gælunöfn, lýsingu heimilis o.fl. Þá hafi Útlendingastofnun litið framhjá skýringum kæranda í greinargerð til stofnunarinnar. Í öðru lagi vísar kærandi til þess að verulegur menningarmunur sé á [...], þá sérstaklega hvað varði siði og venjur eldri kynslóða en í lögskýringargögnum með ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé áréttað að við mat á aðstæðum þurfi að taka tillit til þess að mismunur geti verið á milli menningarheima hvað varði hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna á hvort öðru við upphaf hjúskapar. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun ekki horft til framangreinds mats heldur reynt að draga ályktanir út frá efnisatriðum sem byggi á ólíkum menningarsiðum og venjum til að styðja niðurstöðu sína og að stofnuninni hafi borið lagaskylda til að skoða skýringar og sjónarmið hennar og maka hennar út frá þeirra menningarheimi. Í þriðja lagi hafi meint ósamræmi í svörum þeirra um hvar kærandi hafi búið í [...] verið skýrt í greinargerð til Útlendingastofnunar og hefði ekki frekari þýðingu. Í fjórða lagi sé í ákvörðun stofnunarinnar með engu skýrt hvaða ósamræmi sé í svörum kæranda og maka hennar um kynni maka kæranda af systur hennar og í fimmta lagi feli upptalning Útlendingastofnunar á svörum þeirra í sér útúrsnúninga frekar en að stofnunin hafi reynt að framkvæma heildstætt mat. Loks í sjötta lagi áréttar kærandi það sem fram kemur í greinargerð til Útlendingastofnunar hvað varðar fyrstu kynni þeirra, hvort þeirra hafi átt hugmyndina að því að ganga í hjúskap o.fl. en kærandi hafi þegar svarað öllum athugasemdum Útlendingastofnunar án þess að stofnunin hafi tekið tillit til þess.

Kærandi vísar ennfremur til þess að í úrskurði kærunefndar nr. 83/2019 komi fram að hinn rökstuddi grunur þurfi að beinast að stofnun hjúskapar. Telur kærandi að vísun Útlendingastofnunar til þess að við mat á rökstuddum grun hafi stofnunin litið til þess að kærandi eigi skyldmenni hér á landi og að kærandi og maki hennar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar hafi engin áhrif að lögum, enda væri þá ávallt uppi rökstuddur grunur um málamyndahjónaband ef erlendir aðilar, sem eigi skyldmenni á Íslandi, giftist íslenskum ríkisborgara. Þá sé ekkert í gögnum málsins sem sýni fram á tengsl á milli hjúskapar kæranda og maka hennar og þeirrar staðreyndar að kærandi eigi dóttur og systur hér á landi. Vísar kærandi til þess að hún eigi dóttur, foreldra og systkini í heimaríki og hafi dvalið mikið hjá foreldrum sínum. Þá sé siður í mörgum ríkjum og trúarbrögðum, þ.m.t. [...], að fólki eigi ekki að hefja búskap fyrir giftingu. Jafnframt sé ekkert í gögnum málsins sem geti verið grundvöllur að ályktun um að hjúskaparsaga maka kæranda veki grunsemdir um að hann hafi stofnað til hjúskapar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis fyrir eiginkonur sínar.

Taki kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að um rökstuddan grun um málamyndahjónaband sé að ræða byggir kærandi á því að henni hafi ekki verið gefið tækifæri á að sýna fram á annað með óyggjandi hætti. Hafi Útlendingastofnun ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni, sbr. m.a. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993; skýringar og svör í greinargerð kæranda til stofnunarinnar hafi verið þess eðlis að stofnuninni hafi borið að rannsaka málið betur. Þá hafi Útlendingastofnun ekki getað byggt á fyrri hjúskaparsögu maka kæranda án þess að rannsaka málið betur enda liggi engin gögn fyrir í málinu sem styðji niðurstöðu stofnunarinnar. Kærandi vísar þá jafnframt til meðalhófsreglu og sjónarmiða um jafnræði og vísar m.a. til þess að dvalarleyfi kæranda yrði ávallt tímabundið og stjórnvald geti því gripið til annarra úrræða í kjölfar þess að dvalarleyfi hafi verið veitt, sé áframhaldandi grunur um málamyndahjúskap til staðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi, enda hafi ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi sé. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að þessi niðurstaða stofnunarinnar hafi verið byggð á nokkrum atriðum; m.a. að kærandi og maki hennar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, að þau hafi ekki þekkt til atriða og atvika í lífi hvors annars, sem stofnunin byggði á svörum þeirra í viðtölum hjá stofnuninni, og að kærandi eigi systur og dóttur hér á landi. Jafnframt vísaði stofnunin til hjúskaparsögu maka kæranda en um væri að ræða hans þriðja hjónaband.

Eins og að framan greinir er í athugasemdum sem fylgdu 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga m.a. vísað til þess að hjúskaparsaga viðkomandi maka geti vakið rökstuddan grun um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Samkvæmt gögnum málsins hefur maki kæranda verið tvívegis áður í hjúskap; fyrsti hjúskapur hans var á árunum [...] og annar hjúskapur hans var á árunum [...]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er bent á að maki kæranda og önnur eiginkona hans hafi skilið árið [...] en þau hafi fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng sex mánuðum eftir að eiginkona hans öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt. Að mati kærunefndar verða ekki dregnar víðtækar ályktanir af framangreindu enda telur nefndin að sú staðreynd að hálft ár leið frá því að þáverandi eiginkona kæranda öðlaðist ríkisborgararétt og þangað til þau fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng ekki benda með skýrum hætti til þess að orsakasamhengi hafi verið þar á milli. Þá hefur nefndin jafnframt m.a. litið til þess að maki kæranda var í hjúskap með fyrstu eiginkonu sinni í [...] ár, en þau höfðu verið gift í meira en [...] ár þegar hann kom hingað til lands [...]. Þau eiga auk þess barn saman. Að mati kærunefndar leggja gögn málsins ekki fullnægjandi grundvöll að ályktunum þess efnis að hjúskaparsaga maka kæranda veki grunsemdir um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hafi verið stofnað til þess að afla dvalarleyfis.

Kærunefnd telur þá að takmarkaðar ályktanir verði dregnar af því að kærandi og maki hennar hafi ekki búið saman fyrir hjúskap m.a. með tilliti til þess sem tekið er fram í athugasemdum við 70. gr. frumvarps þess er varð að gildandi lögum um útlendinga, þ.e. að taka þurfi tillit til þess að mismunur geti verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Að mati kærunefndar benda gögn málsins til þess að kærandi og maki hennar hafi þekkst áður en þau gengu í hjúskap í [...].

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er m.a. byggt á því að kærandi og maki hennar þekki ekki til einstakra atvika eða atriða í lífi hvors annars, en að mati stofnunarinnar hafi verið talsvert ósamræmi í svörum þeirra í viðtölum varðandi kynni maka af systur kæranda, maki kæranda hafi ekki vitað hvað kærandi starfaði við í heimaríki og hvaða skólastigi hún hefði lokið og kæranda og maka hennar ekki borið saman um það hvort þau byrjuðu saman [..]og hvort þeirra hafi haft frumkvæði að því að ganga í hjúskap. Af endurriti viðtala sem Útlendingastofnun tók við kæranda og maka hennar telur kærunefnd ljóst að kærandi og maki hennar hafi verið samhljóða um ýmis atriði, s.s. um heimilishald og áhugamál. Að mati kærunefndar verður ekki verði dregin sú ályktun af gögnum málsins að kærandi og maki hennar þekki ekki til atriða eða atvika sem máli skipta í lífi hvors annars. Þá verður að mati kærunefndar ekki dregnar of víðtækar ályktanir af því að þau hafi vitað takmarkað um fortíð hvors annars eða að ósamræmi hafi verið í svörum þeirra um hvenær þau hafi ákveðið að gifta sig. Þá telur kærunefnd ljóst að ósamræmi í svörum kæranda og maka hennar um kynni maka af systur kæranda hafi orsakast af misskilningi við túlkun viðtalsins hjá Útlendingastofnun.

Í tilviki kæranda og maka hennar telur kærunefnd þá að sú staðreynd að [...] ára aldursmunur sé á þeim, en kærandi er fædd [...] og maki hennar árið [...], leiði ekki til þess að rökstuddur grunur sé um að til hjúskaparins hafi verið stofnað til að afla dvalarleyfis. Ekki sé þá hægt að fallast á að það að kærandi [...] leiði til slíks gruns, eins og hér stendur á.

Eftir heildarskoðun á öllum gögnum málsins er það mat kærunefndar að ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur í málinu um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hafi verið stofnað til að afla dvalarleyfis fyrir kæranda, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                    Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta