Lækka þarf gjöld á innanlandsflug
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svaraði í vikunnni skriflegum fyrirspurnum á Alþingi um gjöld á innanlandsflug og hvort gripið verði til aðgerða til að lækka þau. Fram kemur að ráðherra hafi ítrekað í ræðu og riti lýst þeirri skoðun að lækka þurfi opinber gjöld á innanlandsflug í hvaða formi sem er.
Í svari við fyrirspurn Haraldar Benediktssonar eru birtar tölur um verulegar hækkanir á farþegagjaldi, lendingargjöldum og leiðarflugsgjöldum á árunum 2009-2013 sem og fjölda farþega í innanlandsflugi á sama tímabili.
Í svari við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur um flugfargjöld innanlands kemur fram að innheimt þjónustu- og notendagjöld í innanlandsflugi séu milli 6-20% af verði flugmiða. Vakin er athygli á að starfshópur ráðuneytisins sem nú sé að hefja störf muni kalla eftir upplýsingum um gjaldtöku, meðal annars um virðisaukaskatt og opinber gjöld á eldsneyti. Þess má vænta að starfshópurinn skili niðurstöðu sinni til ráðherra í haust og í framhaldinu verður í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið greint hvernig hið opinbera getur komið að því að lækka flugfargjöld innan lands.