Ríkisstjórnin ákveður stofnun hamfarasjóðs
,,Þetta er mikið framfaramál sem eykur getu samfélagsins til að takast á við náttúruhamfarir og afleiðingar þeirra,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Ákvörðunin er í samræmi við tillögur í skýrslu starfshóps umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem skipaður var í nóvember sl. til að skoða fýsileika þess að til yrði sérstakur hamfarasjóður. Starfshópurinn var skipaður að tillögu forsætisráðherra á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnar í október sl. Með stofnun sjóðsins sameinast A-deild Bjargráðasjóðs og Ofanflóðasjóður.
Gert er ráð fyrir að hamfarasjóður verði deildaskiptur í forvarna- og bótasjóð. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun vinna að framfylgd tillagna um stofnun hamfarasjóðs á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnar.
Sjóðurinn verður vistaður í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.