Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 100/2019 - úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 100/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020048

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 23. janúar 2019 var ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun [...], kt. [...], ríkisborgara [...], staðfest og honum ákveðið endurkomubann til landsins í 10 ár.

Þann 20. febrúar 2019 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með beiðni kæranda um endurupptöku fylgdi greinargerð ásamt fylgigögnum.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Líkt og rakið hafi verið í greinargerð kæranda til kærunefndar í úrskurði nr. 35/2019 hafi hann búið lengi hjá íslenskri fjölskyldu sinni. Hafi brottvísunarmál kæranda haft mikil áhrif á fjölskylduna og líðan þeirra. Í því samhengi taki kærandi fram að þremur sólarhringum eftir birtingu úrskurðar kærunefndar fyrir kæranda, hafi fósturmóðir hans fengið [...]. Samkvæmt upplýsingum frá hjúkrunarfræðingi megi rekja framangreint til streitu og í síðustu heimsókn hennar á Landspítala háskólasjúkrahús hafi komið fram að ákvörðun í máli kæranda gæti hafa verið stór þáttur í atvikinu. Telur kærandi að framangreint styðji röksemdir sínar um sterk fjölskyldubönd sem kærunefnd hafi ekki fallist á með úrskurði sínum, þar sem fullyrt hafi verið að brottvísun myndi ekki fela í sér skerðingu samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Þá kveður kærandi það lengi hafa legið fyrir að fósturmóðir hans hefði hug á því að ættleiða hann. Nú hafi hún sótt um leyfi til ættleiðingar til sýslumannsins í Reykjavík og sé sú umsókn til meðferðar þar. Þannig sé ferli yfirstandandi með það að markmiði að kærandi verði formlega viðurkenndur sem kjörbarn fósturmóður sinnar. Telur kærandi þessa stöðu vera skýrt dæmi um að atvik hafi breyst verulega frá töku ákvörðunar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og því séu skilyrði til endurupptöku uppfyllt í máli hans.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.Með úrskurði nr. 35/2019 frá 23. janúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og var honum ákveðið endurkomubann til landsins í 10 ár. Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á annars vegar á því að með kæranda og fósturfjölskyldu hans séu sterk fjölskyldubönd, m.a. með vísan til atviks þar sem fósturmóðir hans fékk [...] skömmu eftir að kæranda hafi verið birtur fyrrgreindur úrskurður kærunefndar. Hins vegar er beiðni hans byggð á því að fósturmóðir kæranda hafi sótt um leyfi til ættleiðingar hjá sýslumanninum í Reykjavík. Telur kærandi með vísan til framangreindra atriða að atvik hafi breyst verulega frá töku ákvörðunar og þannig sé skilyrðum 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku fullnægt.

Með fyrrgreindum úrskurði kærunefndar komst nefndin að því að brottvísun hans frá landinu fæli ekki í sér skerðingu á rétti samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Kærunefnd hefur því þegar tekið afstöðu til málsástæðna kæranda er snúa að tengslum kæranda við fósturfjölskyldu hér á landi. Atvik málsins hafa ekki breyst verulega að þessu leyti enda breyta veikindi fósturmóður og umsókn um ættleiðingu ekki stöðu kæranda gagnvart umræddri fjölskyldu.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda, sem hann ber fyrir sig í máli þessu, og þá hafi atvik þess ekki breyst verulega frá því úrskurður nefndarinnar frá 23. janúar sl. var kveðinn upp.

Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                      Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta