Hoppa yfir valmynd
12. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 85/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 85/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20010034 og KNU20010035

Beiðni [...] og [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 16. janúar 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 6. september 2019 um að taka ekki umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir M), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 20. janúar 2020. Þann 27. janúar 2020 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku. Jafnframt var óskað eftir frestun réttaráhrifa. Tekin verður afstaða til þeirrar beiðni í sérstökum úrskurði. Þann 3. febrúar 2020 barst kærunefnd greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn þann 4. og 6. mars 2020.

Beiðni kærenda um endurupptöku mála þeirra byggir á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á því að ákvarðanir í málum þeirra hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og að aðstæður þeirra hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli þeirra, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er beiðni kærenda um endurupptöku byggð á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi ekki fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga. Auk þess hafi niðurstaða kærunefndar falið í sér brot gegn lögmætisreglunni.

Kærendur byggja á því að íslenskum stjórnvöldum beri skylda til að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar þar sem að sérstakar ástæður mæli með því í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Telji kærendur að aðstæður þeirra hafi ekki verið skoðaðar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga en hvorki hafi farið fram heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum þeirra né þeim aðstæðum sem bíði þeirra á Ítalíu. Þá sé rökstuðningi nefndarinnar, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, einnig verulega ábótavant.

Kærandi M hafi þörf fyrir lífsnauðsynlega læknisþjónustu þar sem hann glími við [...], sykursýki og háan blóðþrýsting auk þess sem að hann glími við andleg veikindi. Benda kærendur á að möguleikar M til þess að fá aðgengi að sérhæfðri læknisþjónustu á Ítalíu séu engir að teknu tilliti til þess að Ítalía hafi ekki svarað beiðni stjórnvalda um að taka við þeim, að engar upplýsingar hafi farið til ítalskra stjórnvalda um vanheilsu M og að núgildandi löggjöf og framkvæmd er varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu tryggi ekki að M muni hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Jafnframt bendi heimildir til þess að á Ítalíu verði kærendur að öllum líkindum heimilislaus og án möguleika á að framfleyta sér. Í ljósi heimilda um raunverulegar aðstæður á Ítalíu sé ljóst að staða þeirra verði mun verri en staða almennings þar í landi. Þá hafna kærendur því mati kærunefndar útlendingamála að ítölsk stjórnvöld hafi yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að bregðast við fordómum og mismunun. Telja kærendur að framangreint mat hafi byggst á úreltum upplýsingum sem gefi ekki skýra mynd af raunverulegum aðstæðum á Ítalíu. Byggt sé á gögnum sem sýni þá háttsemi sem ítölskum stjórnvöldum beri að fylgja frekar en gögnum sem sýni hinar raunverulegu aðstæður sem bíði þeirra. Með þessu hafi stjórnvöld brugðist rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þessu til stuðnings vísa kærendur til dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. nóvember 2019 í máli nr. E-3973/2018.

Þá byggja kærendur á því að við endurkomu til Ítalíu bíði þeirra ómannúðleg og vanvirðandi meðferð og að miklar líkur séu á því að þau verði endursend til heimaríkis. Vísa kærendur m.a. til mikilla efnahags- og viðskiptatengsla milli Ítalíu og heimaríkis þeirra. Telji kærendur að af gögnum málsins, þ. á m. ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar útlendingamála, sé ekki að sjá að þessar aðstæður hafi verið kannaðar sérstaklega, eða að kallað hafi verið eftir frekari skýringum eða gögnum í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Telji kærendur óumdeilt að vegna stjórnmálaskoðana M sé raunveruleg hætta á að hann, ásamt eiginkonu sinni, muni sæta broti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Þessu til stuðnings vísa kærendur til fyrri reynslu þeirra og gagna þar um. Vegna þeirrar hættu á að M muni vera gerður að pólitískum fanga í heimaríki telji kærendur að aukin skylda hvíli á íslenskum stjórnvöldum að tryggja að við endurkomu til Ítalíu verði þau ekki framsend áfram til heimaríkis. Vísa kærendur í þessu sambandi til dóms í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011. Af þessum ástæðum telja kærendur að ekki megi beita 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga vegna þeirrar hættu á að endursending myndi brjóta gegn 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. 42. gr. laga um útlendinga.

Byggja kærendur jafnframt á því að ákvæði 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018 sé ekki að efni til í samræmi við hina stjórnskipulegu lögmætisreglu, þar sem viðmiðunarreglur í ákvæðinu geri strangari kröfu um hvað teljast vera sérstakar ástæður en leiða af hinni efnislegu túlkun, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af þessari ástæðu byggja kærendur á því að stjórnvöldum hafi verið óheimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar í máli þeirra. Kærendur benda m.a. á að fyrir gildistöku reglugerðarinnar hafi einstaklingsbundið mat á heilsu og áhrif endursendingar á heilsu umsækjanda, óháð heilbrigðiskerfi í viðtökuríki, ráðið niðurstöðu. Vísa kærendur í tiltekna úrskurði kærunefndar máli sínu til stuðnings.

Að auki bárust viðbótargögn frá kærendum, dags. 4. og 6. mars 2020, þar sem byggt er á því að aðstæður þeirra hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli þeirra, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, vegna aðstæðna á Ítalíu í ljósi útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Telja kærendur óforsvaranlegt að endursenda þau þangað og vísa því til stuðnings til tilkynningar frá sóttvarnalækni þar sem Ítalía sé skilgreind sem svæði með mikla smitáhættu og frétta þar sem m.a. komi fram að þýska innanríkisráðuneytið hafi stöðvað allar komur og brottfarir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Þá benda kærendur á að M glími við [...], sykursýki og háan blóðþrýsting sem geri endursendingu hans til Ítalíu sérstaklega varhugaverða, enda séu einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma taldir í mestri hættu á að smitast. Þá lögðu kærendur fram komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 5. mars 2020, þar sem fram kemur að það væri læknisfræðilega ráðlagt að fresta flutningi M til Ítalíu þar til að sóttvarnarlæknir dregur til baka tilkynningu sína.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í málum kærenda þann 16. janúar 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærendur hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þau fái hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lögðu kærendur fram ýmis gögn. Þar á meðal voru ný gögn sem kærendur kveða að renni stoðum undir frásagnir þeirra um aðstæður í heimaríki og ástæður fyrir flótta þeirra þaðan, þ. á m. prófskírteini, kjörstjórakort og skýrsla sem M ritaði í starfi sínu sem kjörstjóri, frétt um ólögmæta gæsluvarðhaldsvist M, gögn sem sýni aðkomu M að mótmælum í heimaríki, skýrsla lögreglu vegna húsleitar og ljósmynd af áverkum M. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 16. janúar sl., ásamt áðurgreindum fylgigögnum sem liggja fyrir í málinu. Telur kærunefnd að um sé að ræða ítarlegri upplýsingar um það sem þegar lá fyrir við uppkvaðningu úrskurðar í málum kærenda. Þá þegar lá fyrir að kærendur óttuðust yfirvöld í heimaríki og var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Þá lögðu kærendur fram komunótur frá Göngudeild sóttvarna er varða K, dags. 16. maí til 23. júlí 2019, og varðandi M, dags. 18. júlí til 5. september 2019. Þegar úrskurður í máli kærenda var kveðinn upp lágu umræddar komunótur frá Göngudeild sóttvarna fyrir og voru upplýsingar um heilsufar kærenda sem þar er að finna lagðar til grundvallar niðurstöðu kærunefndar, sbr. úrskurður nefndarinnar nr. 5/2020. Því er ljóst að kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra gagna. Þá er rétt að árétta að í úrskurðinum kom fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eigi sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu og var lagt til grundvallar að kærendur komi til með að hafa aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á Ítalíu.

Hvað varðar þá málsástæðu kærenda að þeirra bíði ómannúðleg og vanvirðandi meðferð á Ítalíu og möguleg endursending til heimaríkis, m.a. vegna viðskipta- og efnahagstengsla Ítalíu og heimaríkis, vísar kærunefnd til umfjöllunar um aðstæður og málsmeðferð á Ítalíu í framangreindum úrskurði kærunefndar nr. 5/2020, en þar var m.a. tekið fram að gögn málsins bæru með sér að á Ítalíu sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Þá tók kærunefnd fram að gögnin bentu til þess að meðferð ítalskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Þá hefðu kærendur raunhæf úrræði á Ítalíu, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að því er varðar málsástæðu kærenda um tengsl Ítalíu við heimaríki þeirra benti kærunefnd sérstaklega á að gögn gæfu til kynna að ítölsk stjórnvöld séu bundin af tilskipun Evrópusambandsins um móttöku og málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd og þá væri ekkert sem benti til þess að kærendur muni ekki fá þá málsmeðferð sem þau þurfi á að halda þar í landi. Ennfremur bæru gögn málsins ekki með sér að kærendur væru í þannig stöðu að umsókn þeirra muni ekki fá meðferð við hæfi.

Þá er í beiðni kærenda um endurupptöku fjallað um aðstæður á Ítalíu, m.a. aðgengi að heilbrigðisþjónustu, húsnæði og getu stjórnvalda til að bregðast við fordómum og mismunun. Kærunefnd hefur nú þegar tekið afstöðu til þessara atriða og vísar til úrskurðar nefndarinnar nr. 5/2020 í málum kærenda er það varðar. Að mati kærunefndar kemur ekkert fram í beiðni kærenda eða þeim gögnum sem þau hafa lagt fram sem breyti mati kærunefndar þannig að málið skuli endurupptekið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framangreindu ítrekar kærunefnd það sem fram kemur í fyrrgreindum úrskurði um að nefndin telji ekki hættu á að endursending kærenda til Ítalíu brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi áréttar kærunefnd jafnframt að Ítalía, eins og Ísland, er bundið af mannréttindasáttmála Evrópu, þ.m.t. 3. gr. sáttmálans og að þau réttarúrræði sem til staðar eru á Ítalíu séu til þess fallin að tryggja réttindi umsækjenda til raunhæfra réttarúrræða, sbr. 13. gr. sáttmálans. Þá tekur kærunefnd fram að athugun á málinu hefur ekki leitt í ljós að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins en kærendur byggja m.a. á því að ekki hafi farið fram fullnægjandi mat á aðstæðum þeirra á Ítalíu og með því hafi stjórnvöld brugðist rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur vísa m.a. til dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. nóvember 2019 í máli nr. E-3973/2018 máli sínu til stuðnings. Í því máli var um að ræða kærendur sem hlotið höfðu alþjóðlega vernd á Ítalíu áður en þeir komu hingað til lands, auk þess sem annar kæranda hafði m.a. mikla þjónustuþörf vegna hreyfihömlunar. Kærunefnd telur málin ekki sambærileg að því leyti auk þess sem kærunefnd telur ljóst að fullnægjandi mat á aðstæðum kærenda á Ítalíu í því máli sem hér um ræðir hafi farið fram í úrskurði nefndarinnar nr. 5/2020.

Þá byggja kærendur á því að stjórnvöldum hafi verið óheimilt að beita 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga, þar sem að hún sé ekki að efni til í samræmi við hina stjórnskipulegu lögmætisreglu. Í ákvæðinu komi fram viðmiðunarregla sem geri strangari kröfu um hvað teljist vera sérstakar ástæður en leiði af hinni efnislegu túlkun, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þessarar málsástæðu kærenda í úrskurði nefndarinnar nr. 5/2020 og komist að því að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd tekur þessu til viðbótar auk þess fram um beitingu ákvæða 32. gr. a reglugerðar um útlendinga að hún telji ljóst að það leiði bæði af orðalaginu „viðmið“ og tilvísun í reglugerðinni um að þau séu í „dæmaskyni“ að ekki sé um að ræða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem komið geta til greina við mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í máli. Kærunefnd áréttar í þessu samhengi að við meðferð mála hjá kærunefnd er ávallt horft til einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að mál verði tekið til efnismeðferðar, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þ.m.t. heilsufars hans og annarra þátta sem benda til viðkvæmrar stöðu einstaklingsins. Kærunefnd leggur því áherslu á að heildarmat sé lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins og aðstæðna í viðtökuríki.

Að lokum byggja kærendur á því að aðstæður þeirra hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli þeirra, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, vegna aðstæðna á Ítalíu í ljósi útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Lögðu kærendur fram komunótur frá Göngudeild sóttvarna, dags. 5. mars 2020, þar sem fram kemur að M sé með langvarandi sjúkdóma, þ. á m. sykursýki, og því sé ráðlagt að fresta flutningi hans til Ítalíu þar til að sóttvarnarlæknir hafi dregið tilkynningu sína til baka. Líkt og áður hefur komið fram þá var lagt til grundvallar í úrskurði nefndarinnar nr. 5/2020 að kærendur komi til með að hafa aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á Ítalíu og vísar kærunefnd til umfjöllunar sinnar um heilbrigðisþjónustu á Ítalíu og aðgengi að henni í úrskurði nefndarinnar nr. 5/2020. Er það mat kærunefndar að þau gögn sem hafi verið lögð fram varðandi aðstæður á Ítalíu með hliðsjón af útbreiðslu veirunnar séu ekki þess eðlis að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurður í málum kærenda var kveðinn upp. Þá er rétt að árétta að skv. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun. Útlendingastofnun er þá heimilt, skv. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga, að fresta um hæfilegan tíma framkvæmd ákvörðunar sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að fyrrgreind gögn um heilsufar kærenda og aðstæður í heimaríki þeirra og á Ítalíu séu ekki þess eðlis að úrskurður kærunefndar nr. 5/2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að aðstæður þeirra hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að öðru leyti byggja kærendur í greinargerð með beiðni um endurupptöku á málum sínum á sömu málsatvikum og málsástæðum og þau byggðu á og báru fyrir sig í kærumálum sínum fyrir kærunefnd, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 16. janúar 2020, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um endurupptöku málanna því hafnað.  

 

Úrskurðarorð

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine the case is denied.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                  Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta