Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Helmingi fleiri umsóknir bárust í Ask - mannvirkjarannsóknasjóð

Ríflega helmingi fleiri umsóknir bárust til Asks – mannvirkjarannsóknasjóðs í ár en í fyrra. Alls var sótt um styrki til 62 verkefna á sviði nýsköpunar og rannsókna sem er gífurleg aukning frá fyrra ári þegar 40 umsóknir bárust. Áætlaður kostnaður verkefnanna er 804 milljónir og sótt er um styrki fyrir 59% kostnaðar eða 472 miljónir króna.

Askur er mannvirkjarannsóknasjóður í eigu innviðaráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins. Sjóðurinn veitir styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum í mannvirkjagerð. Sjóðurinn mun úthluta styrkjum í annað sinn á árinu 2022 en frestur til að skila inn umsóknum rann út 31. október sl.

Grunnrannsóknir í byggingariðnaði eru mikilvægur málaflokkur fyrir Ísland en tjón af völdum gallamála, raka- og mygluskemmda veldur umtalsverðum efnahagslegum og heilsufarslegum áhrifum á ári hverju. Á sama tíma stendur iðnaðurinn frammi fyrir að leita lausna til að lækka gríðarlegt kolefnisspor bygginga en mannvirkjaiðnaðurinn er talinn bera ábyrgð á allt að 40% af allri kolefnislosun á heimsvísu.

Fjöldi umsókna í Ask sýna að hugur er í iðnaðnum til að leita nýrra, vistvænna byggingarlausna og byggja þannig grænni framtíð.

„Óhætt er að segja að markaðurinn tekur þessum nýja sjóði afar vel og ber til hans traust. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða verkefni hljóta úthlutun í ár. Ljóst er að áhuginn er mikill, efnistökin eru fjölbreytt og þörfin á markaði hefur líklega aldrei verið meiri,“ segir Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri Asks.

Áhersluflokkar úthlutunar ársins 2022 eru:

Byggingargallar, raki og mygla

  • Greiningar á umfangi, orsökum og afleiðingum byggingargalla á Íslandi.
  • Verkefni sem stuðla sérstaklega að aukinni þekkingu á raka- og mygluskemmdum í íslenskum mannvirkjum, samanburður og þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi slíkra skemmda. Jafnframt hvernig unnt sé að fyrirbyggja þær og bregðast við þeim með árangursríkum hætti.

Byggingarefni

  • Rannsóknir og þróun á byggingarefnum, endingu þeirra og eiginleikum ásamt efnisvali og notkun í samræmi við lög um byggingarvörur.
  • Verkefni sem stuðla að minna kolefnisspori byggingarefna og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna t.d. með hönnun og eflingu hringrásarhagkerfisins.

Orkunýting og losun

  • Verkefni sem fjalla um orkunýtingu mannvirkja og/eða losun gróðurhúsalofttegunda vegna mannvirkjagerðar.

Tækninýjungar

  • Þróun tæknilegra lausna sem hafa einkum það markmið að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum mannvirkja og auka verðmætasköpun, hagræðingu, framleiðni og/eða samræmingu meðal hagaðila í byggingariðnaði.

Gæði

  • Rannsóknir á gæðum, endingu, hagkvæmni og hönnun íbúðahúsnæðis.
  • Greiningar á hvers konar form íbúðarhúsnæðis þurfi að byggja, meðal annars með tilliti til þróunar á félagslegum, menningarlegum, tæknilegum og sjálfbærum þáttum.

 

Flokkurinn byggingarefni er í brennidepli með langflest verkefnanna eða tuttugu talsins og geta byggingarefni haft mikil áhrif þegar kemur að lækkun kolefnisspors byggingariðnaðarins. Í flokknum byggingargallar, raki og mygluskemmdir eru tíu verkefni, níu verkefni sóttu um styrk í flokknum gæði, fjórtán í flokknum orkunýting og losun og þá sóttu níu verkefni um styrk í flokknum tækninýjungar. Upplýsingar um fjölda og fjárhæðir eftir áhersluflokkum eru í neðangreindri töflu.

 

Flestar, ef ekki allar, umsóknanna geta fallið í fleiri en einn áhersluflokk og hafa þannig fjölbreyttan ávinning fyrir mannvirkjaiðnaðinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta