Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 181/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 181/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020039

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. febrúar 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd og endursenda hann til Þýskalands.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 19. september 2017. Þann 28. september 2017 sendi Útlendingastofnun beiðni um upplýsingar til þýskra yfirvalda skv. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 22. desember 2017 barst tölvupóstur frá þýskum yfirvöldum til Útlendingastofnunar þar sem fram kom að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd í Þýskalandi þann 8. janúar 2015. Útlendingastofnun ákvað þann 12. febrúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Þýskalands. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 13. febrúar 2018 og kærði kærandi ákvörðunina við birtingu til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum bárust kærunefnd 6. mars 2018. Þá bárust kærunefnd gögn frá þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu þann 7. mars 2018. Þann 20. mars sl. leiðbeindi kærunefnd talsmanni kæranda um framlagningu frekari læknisfræðilegra gagna. Þann 26. mars s.á. lagði talsmaður kæranda fram samskipti við augnskurðlækni og þann 28. mars staðfesti talsmaður að frekari gögn lægju ekki fyrir.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Þýskalands. Flutningur kæranda til Þýskalands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Þýskalands, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi hlotið viðbótarvernd í Þýskalandi þann 8. janúar 2015 en ekki liggur fyrir hversu lengi hann hafi dvalarleyfi í landinu á þeim grundvelli. Kærandi hafi komið til Þýskalands 15 ára gamall og hafi verið komið fyrir á heimili fyrir börn þar til hann varð 18 ára. Kærandi hafi kynnst strák á heimilinu sem hafi ráðist á sig […]. Í kjölfar árásarinnar hafi kærandi verið lagður inn á sjúkrahús þar sem hann hafi verið hálf meðvitundarlaus vegna lyfjagjafar. Kærandi kveður sig hafa verið haldið nauðugum á sjúkrahúsinu […]. […]. Þá telji kærandi að gerð hafi verið aðgerð á […] á meðan á dvölinni hafi staðið. Kæranda hafi síðan tekist að komast af spítalanum með hjálp einstaklinga frá […] og að hann hafi ákveðið að koma til Íslands eftir að hann missti réttindi sín sem flóttamaður 18 ára gamall.

Kærandi gerir athugasemd við að sér hafi ekki verið gert grein fyrir því að Útlendingastofnun hefði undir höndum gögn frá sjúkrahúsi […], í Þýskalandi, né heldur að stofnunin hygðist byggja á þeim í máli hans. Þá hafi stofnuninni verið skylt að kynna fyrir sér þýðingu á gögnunum sem voru á þýsku. Kærandi gerir einnig athugasemd við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika hans. Kærandi bendir á að hann hafi ávallt greint frá aðstæðum sínum í Þýskalandi líkt hann hafi upplifað þær. Kærandi gerir athugasemd við að í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að ekkert bendi til þess að hann hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi eða pyndingum og telur að […] séu sterkar vísbendingar um að hann hafi orðið fyrir ofbeldi. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á sjóntapi sínu og bendir á að skv. mati sérfræðilækna sé hann […] og að hann þurfi sérstaka þjónustu. […].

Aðalkröfu kæranda um að mál hans skuli tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, byggir kærandi í fyrsta lagi á því að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laganna. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi borið að afla nánari upplýsinga um andlega heilsu sína. […]. Kærandi bendir á að hann sé með […] sem bendi til þess að hann hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi eða pyndingum. Í öðru lagi bendir kærandi á að hann sé ungur að árum og hann hafi flúið frá heimaríki 15 ára gamall. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi borið að kanna nánar þessa þætti í máli sínu. Kveður hann frásögn sína benda til alvarlegrar líkamlegrar og andlegrar vanheilsu.

Þá styður kærandi auk þess aðalkröfu sína með vísan til þess að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og nýlegra úrskurða kærunefndar útlendinga máli sínu til stuðnings. Telur kærandi að breytingar á ákvæðinu og breytt framkvæmd kærunefndar bendi til vilja löggjafans til að víkka gildissvið ákvæðisins og að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli hans í skilningi ákvæðisins.

Kærandi gerir þá kröfu til vara að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál hans til meðferðar að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar með því að rannsaka ekki til hlítar heilbrigðisaðstæður sínar og þar með sinna ekki skyldu sinni skv. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að bersýnilegt hafi verið að hann væri í viðkvæmri stöðu frá upphafi málsmeðferðar hans og gerir athugasemd við að andleg heilsa hans hafi ekki verið rannsökuð til hlítar. Telur hann að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar vegna annmarka á rannsókn stofnunarinnar í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins hefur kæranda verið veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi, en samkvæmt bréfi þýskra stjórnvalda, dags. 22. desember 2017, kemur fram að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd þar í landi þann 8. janúar 2015. Liggur því fyrir að kærandi hefur hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í Þýskalandi og eru skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður því að leggja mat á hvort aðstæður á Ítalíu brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. mannréttindasáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu hjá Útlendingastofnun sem áhrif hefði á mál hans. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ungur, einhleypur karlmaður sem kom hingað til lands einn síns liðs. Í málinu liggja fyrir nokkuð umfangsmikil læknisfræðileg gögn frá Göngudeild sóttvarna, sérfræðingum í augnlækningum sem kærandi hefur hitt hér á landi auk læknisfræðilegra gagna frá Þýskalandi. […].

[…]. Samkvæmt gögnum frá þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu er það mat miðstöðvarinnar að kærandi þurfi á að halda hjálpartæki vegna sjónskerðingar hans […]. Um væri að ræða lágmarksþjónustu varðandi hjálpartæki og ráðgjöf. […]

[…].

Í ljósi framangreinds, […], er það mat kærunefndar að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda eru persónulegir eiginleikar hans og aðstæður hans þess eðlis að hann teljist hafa sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð máls hans hér auk þess sem talið verður að hann geti ekki að fullu nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Eins og að framan greinir er var kærandi ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu hjá Útlendingastofnun. Í niðurstöðu varðandi viðkvæma stöðu kæranda er vísað til komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 20. september 2017, þar sem fram komi að kærandi sé eflaust með skerta sjón […] en að hann sé augljóslega með góða ratsjón. Þar er aftur á móti ekki vísað til nýrri læknisfræðilegra gagna, sem lágu fyrir hjá Útlendingastofnun, frá sérfræðingum í augnlækningum, einkum göngudeildarnótu frá dag- og göngudeild augnlækninga […]. Kærunefnd leggur áherslu á að þótt það sé verkefni Útlendingastofnunar að leggja mat á þau gögn sem liggja fyrir í málinu verður að jafnaði að byggja á því að fyrirliggjandi mat sérfræðilæknis verði ekki dregið í efa nema á grundvelli læknisfræðilega gagna sem benda til annarrar niðurstöðu. Kærunefnd telur að mat Útlendingastofnunar á viðkvæmri stöðu umsækjanda sem kemur fram í ákvörðun stofnunarinnar hafi ekki verið framkvæmt á grundvelli fullnægjandi gagna og gerir kærunefnd athugasemd við mat stofnunarinnar að þessu leyti. Fyrir liggur að kærandi hefur verið metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu af kærunefnd. Í ljósi þeirrar niðurstöðu telur kærunefnd að ekki sé ástæða til, eins og sérstaklega stendur á í þessu máli, að lagt verði nýtt mat á viðkvæma stöðu kæranda hjá Útlendingastofnun.

Aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, 31. mars 2018),

  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015),
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018),
  • Germany 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),
  • Amnesty International Report 2017/18 - Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Freedom in the World 2018 – Germany (Freedom House, 2. febrúar 2018) og
  • Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de).

Í framangreindum skýrslum kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafa viðbótarvernd í Þýskalandi eigi rétt á dvalarleyfi til eins árs með möguleika á tveggja ára framlengingu, samtals þrjú ár. Þá kemur fram að grundvöllur framlengingar dvalarleyfis sé sá sami og við veitingu og því þurfi aðstæður einstaklingsins að hafa breyst til þess að framlengingu dvalarleyfis sé hafnað. Þá þarf þýska Útlendingastofnunin að taka formlega ákvörðun um afturköllun á dvalarleyfi en að öðrum kosti verður mat framkvæmt á aðstöðu einstaklings með viðbótarvernd þegar dvalarleyfið rennur út. Þá segir að einstaklingur með viðbótarvernd geti sótt um varanlegt dvalarleyfi að fimm árum liðnum frá því að hann kom til Þýskalands. Þá geta einstaklingar með viðbótarvernd í Þýskalandi sótt um ríkisborgararétt eftir átta ára löglega dvöl þar í landi. Þótt viðbótarvernd sé afturkölluð leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að viðkomandi þurfi að yfirgefa Þýskaland. Þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um stöðu hans og getur hann í kjölfarið fengið áframhaldandi dvalarleyfi þrátt fyrir að viðbótarverndin hafi verið afturkölluð. Þá er möguleiki fyrir einstakling með dvalarleyfi að kæra ákvörðun yfirvalda um að draga til baka dvalarleyfi hans.

Í framangreindum skýrslum kemur ennfremur fram að einstaklingar með viðbótarvernd í Þýskalandi eigi sama rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar en þeir þurfa að skrá sig í heilbrigðiskerfið. Sjúklingar þurfa almennt að greiða hluta af þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu sem þeir njóta en frá því eru þó undantekningar, t.d. í þeim tilvikum þegar sjúklingar geta ekki greitt fyrir slíka þjónustu. Þá bera framangreindar skýrslur ekki með sér að aðstæður einstaklinga með viðbótarvernd í Þýskalandi séu slíkar að hægt sé að útiloka einstaklinga frá menntun eða nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu auk þess sem ekkert bendi til þess að annmarkar séu á rekstri heilbrigðisstofnana og þjónustu við einstaklinga sem leiti til heilbrigðisstofnanna í Þýskalandi. Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að einstaklingar með viðbótarvernd í Þýskalandi eigi sama rétt og þýskir ríkisborgarar til þess að fá nauðsynlega félagslega aðstoð, svo sem atvinnuleysisbætur, en þjónustan er bundin við búsetusvæði einstaklingsins sem getur þýtt að einstaklingar með viðbótarvernd verði að lúta ákveðnum skilyrðum varðandi búsetu. Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað einstaklinga með viðbótarvernd í Þýskalandi má ráða að þeim sé tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í þýskum lögum, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu.

Að mati kærunefndar bera framangreind gögn jafnframt með sér að unnt sé að leita eftir raunhæfri og virkri aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda í Þýskalandi vegna ofbeldis.

Athugun kærunefndar á aðstæðum einstaklinga með alþjóðlega vernd í Þýskalandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Þýskalandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst. Í fyrrgreindum skýrslum um aðstæður í Þýskalandi kemur fram að einstaklingar með viðbótarvernd eigi rétt á sömu opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar. Þá bera gögn frá háskólasjúkrahúsinu í […] með sér að kærandi hafi notið heilbrigðisþjónustu þar í landi og hann hafi farið í aðgerð […]. Þá bera þær skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér varðandi aðstæður í Þýskalandi, það með sér að hann muni fá viðunandi meðferð í Þýskalandi vegna heilsufars og þjónustu […]. Í komunótum […] hjá Göngudeild sóttvarna þann 20. desember sl. kemur fram að kærandi hafi lært þýsku í nokkur ár og að hann geti tjáð sig á málinu. Telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Þýskalandi og heilsufarsgagna, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kæranda standi til boða aðgengileg heilbrigðisþjónusta við hæfi þar í landi. Að mati kærunefndar glímir kærandi ekki við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá verði ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Að mati kærunefndar að heilsufari kæranda sé ekki þannig háttað að það hafi áhrif á flutning hans til Þýskalands.

Kærandi heldur því fram að hann hafi orðið að mestu réttindalaus eftir að hann varð 18 ára gamall. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hafi dvalist á spítala eftir að hann varð 18 ára auk þess sem kærandi er með viðbótarvernd í Þýskalandi. Við 18 ára aldur kann kærandi hins vegar að hafa misst þau réttindi sem ætluð eru börnum og meðal annars tengjast vistun hans sem barn á unglingaheimili. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi af sömu ástæðu geti vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þrátt fyrir að kærandi sé verulega sjónskertur er það mat kærunefndar að hann geti nýtt sér þá þjónustu sem einstaklingum með viðbótarvernd í Þýskalandi býðst og eftir atvikum átt í samskiptum við þýsk stjórnvöld varðandi dvalarleyfi sitt þar í landi.

Af framangreindum gögnum um aðstæður í Þýskalandi verður jafnframt ráðið að verði kærandi fyrir ofbeldi þar í landi geti hann leitað ásjár þýskra yfirvalda vegna þeirra.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun m.a. þann 30. október 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 19. september 2017.

Reglur stjórnsýsluréttar

Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er einnig gerð athugasemd við að Útlendingastofnun hafi byggt ákvörðun sína á læknisfræðilegum gögnum um kæranda sem stofnunin aflaði frá Landspítala háskólasjúkrahúsi, sem íslenskir læknar höfðu aflað frá Þýskalandi, án þess að kæranda hafi verið gefin kostur á að taka afstöðu til þeirra.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd gert athugasemd við mat Útlendingastofnunar á viðkvæmri stöðu hans. Að mati kærunefndar bendir þó ekkert til þess að skort hafi á að fullnægjandi, nauðsynlegar og aðgengilegar upplýsingar varðandi heilsufar kæranda lægju fyrir við töku ákvörðunarinnar hjá Útlendingastofnun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Af 13. gr. stjórnsýslulaga leiðir að þegar aðila er ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er stjórnvöldum almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Þótt aðila sé kunnugt um tilvist tiltekinna upplýsinga kviknar skylda stjórnvalds til að veita honum sérstakt færi á að koma að andmælum ef slíkar upplýsingar bætast við stjórnsýslumál án þess að honum sé kunnugt um það. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að Útlendingastofnun hafi aflað upplýsinga um heilsufar hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi og að á meðal upplýsinganna hafi verið gögn um heilsufar kæranda sem læknar kæranda þar höfðu aflað frá háskólasjúkrahúsinu í Wurzburg. Að mati kærunefndar var um að ræða gögn sem kæranda var ókunnugt um að hefðu bæst við mál hans og bar Útlendingastofnun því að upplýsa kæranda um að gögnin hefðu bæst við málið og gefa honum færi á að lýsa afstöðu sinni til þeirra. Að mati kærunefndar var meðferð málsins hjá Útlendingastofnun því ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga.

Kæranda var kunnugt um tilvist gagnanna við meðferð málsins hjá kærunefnd og hefur komið að andmælum vegna þeirra. Að mati kærunefndar hefur því verið bætt úr þeim annmarka sem var á meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Þá tekur kærunefnd ekki undir athugasemdir kæranda varðandi umboð sem hann veitti til gagnaöflunar. Að mati kærunefndar var skýrt að umboðið næði til allra læknisfræðilegra gagna um hann sem kynna að vera til, m.a. hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi, óháð uppruna gagnanna. Að mati kærunefndar var gagnaöflunin jafnframt í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. laganna.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta