Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 20/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. febrúar 2014, kærði kærandi, A, tvær ákvarðanir Vinnumálastofnunar. Annars vegar er um að ræða ákvörðun frá 18. júní 2013 um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. janúar til 8. febrúar 2013 samtals 184.943 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hins vegar er um að ræða ákvörðun frá 9. júlí 2013 um að stöðva einnig greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 18. nóvember til 31. desember 2012 samtals 253.797 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun telur að úrskurðarnefndinni beri ekki að taka stjórnsýslukæruna til efnismeðferðar þar sem þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn.

Með kæru, dags. 16. febrúar 2014, fylgdi önnur kæra kæranda, dags. 15. júlí 2013. Í yngri kærunni greinir kærandi frá því að hún hafi sent endurskoðanda strax fyrsta bréfið frá Vinnumálastofnun. Hann hafi svarað því strax 15. júlí 2013 en því miður hafi kæran týnst í pósti. Kærandi vonar að úrskurðarnefndin taki tillit til þess.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. mars 2014, telji stofnunin að vísa beri kærunni frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, var liðinn vegna ákvörðunar sem tekin var 9. júlí 2013, sbr. bréf dagsett sama dag, um að greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda hafi verið hætt á grundvelli 60. gr. laganna þar sem kærandi hefði starfað á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu 18. nóvember til 31. desember 2012, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og var kæranda jafnframt tilkynnt að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 253.797 kr. með 15% álagi og yrði sú ofgreiðsla innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Áður hafði kæranda borist ákvörðunarbréf Vinnumálastofnunar vegna vinnu kæranda á tímabilinu 1. janúar til 8. febrúar 2013, með bréfi dags. 18. júní 2013. Samtals standi skuld kæranda við Vinnumálastofnun í 438.740 kr.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. mars 2014, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. apríl 2014. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, mótt. 29. apríl 2014.

2. Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda, dags. 16. febrúar 2014, barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. febrúar 2014, en ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að innheimta skuld kæranda við stofnunina koma fram í bréfum frá 18. júní 2013 og 9. júlí 2013. Barst kæra þannig rúmum sjö mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um kæruna. Hins vegar ber kærandi því við að fyrri kæra sem endurskoðandi hennar sendi, sbr. bréf dags. 15. júlí 2013, hafi týnst í pósti.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er meginreglan sú að berist stjórnsýslukæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá. Frá þessari meginreglu eru tvær undantekningar. Annars vegar að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, eða hins vegar að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi kvað ástæðu þess að fyrri kæran hafi ekki borist úrskurðarnefndinni vera þá að hún hefði týnst í pósti. Kærandi hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn þess efnis, svo sem umslag með póststimpli, kvittun póstafgreiðslustöðvar eða annað sem varpað gæti ljósi á að fyrri kæran hafi ekki skilað sér. Þá hefur kærandi ekki greint frá neinum veigamiklum ástæðum sem mælt geti með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framanritaðs barst kæran að liðnum kærufresti og verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


Úrskurðarorð

Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta