Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 122/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 122/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hefði verið að keyra leigubifreið samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 1.668.283 kr., að viðbættu 15% álagi, fyrir eftirfarandi tímabil: 2.6.2012‒1.7.2012, 7.7.2012‒5.8.2012, 5.8.2012‒6.8.2012, 11.8.2012‒9.9.2012, 3.9.2012‒7.9.2012, 14.9.2012‒14.10.2012, 1.10.2012‒5.10.2012, 15.10.2012‒19.10.2012, 26.10.2012‒25.11.2012, 30.11.2012‒30.12.2012, 24.12.2012‒27.12.2012, 31.12.2012‒2.1.2013, 10.12.2012‒14.12.2012, 4.1.2013‒27.1.2013, 1.2.2013‒24.2.2013, 6.1.2013‒11.1.2013, 13.1.2013‒18.1.2013, 20.1.2013‒25.1.2013, 27.1.2013‒1.2.2013, 1.3.2013‒24.3.2013, 27.3.2013‒2.4.2013, 5.4.2013‒5.5.2013, 24.4.2013‒24.4.2013, 30.4.2013‒30.4.2013 og 10.5.2013‒9.6.2013. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. júlí 2013 til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 30. október 2013. Kærandi hafnar niðurstöðu Vinnumálastofnunar um sviptingu atvinnuleysisbóta og endurkröfu þeirra. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. mars 2012 en hann reiknaðist með 100% bótarétt.

Í maí 2012 var kæranda greiddur námsstyrkur á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 12/2009 vegna náms sem hann sótti í Ökuskólanum B þaðan sem hann lauk prófi til leigubifreiðaaksturs.

Þann 10. maí 2013 barst Vinnumálastofnun tilkynning frá kæranda um tilfallandi tekjur frá C fyrir janúar, febrúar, mars og apríl 2013.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar sem fram fór í júní 2013 kom í ljós að kærandi hafði starfað við akstur leigubifreiða á árunum 2012 og 2013 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 3. júlí 2013, skýringa vegna framangreindra upplýsinga og skyldu skýringar berast bréfleiðis eða með tölvupósti. Vegna mistaka fórst það fyrir að tilgreina einnig í bréfi Vinnumálastofnunar að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Vegagerðinni hafi hann starfað við akstur leigubifreiða á árinu 2012 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, var þannig einungis vísað til ársins 2013.

Þann 8. júlí 2013 barst Vinnumálastofnun tilkynning frá kæranda um tilfallandi tekjur frá C fyrir maí og júní 2013.

Einnig þann 8. júlí 2013 barst Vinnumálastofnun skýringabréf kæranda þar sem hann tekur fram að hann hafi á heimasvæðinu „mínar síður“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar fyllt út upplýsingar undir liðnum „tilfallandi laun“. Um hafi verið að ræða laun frá C fyrir störf í þess þágu. C hafi sem verktaki gefið út viðeigandi reikninga fyrir leiguakstur til viðkomandi leyfishafa leigubifreiðar á grundvelli aksturs sem hann, sem rétthafi atvinnuskírteinis númer X frá Vegagerðinni, vann fyrir C.

Með bréfi, dags. 30. júlí 2013, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði ákveðið að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna þeirra daga sem hann var við störf sem leigubifreiðastjóri samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 1.668.283 kr., með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 13. ágúst 2013 bárust Vinnumálastofnun andmæli vegna viðurlagaákvörðunar stofnunarinnar frá 30. júlí 2013. Kærandi benti á að tilvísanir í tíma og tímabil og staðhæfing um að þar hafi hann verið að keyra leigubifreið séu rangar. Gagnagrunnur Frama og Vegagerðarinnar haldi aðeins utan um svokallaðar akstursheimildir en geymi engar upplýsingar um hvort akstur hafi átt sér stað. Í bréfi sínu til stofnunarinnar, dags. 8. júlí 2013, hafi kærandi tekið fram að hann hafi skráð á „mínar síður“ tilfallandi tekjur sínar á árinu 2013. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. júlí 2013, sé einungis vísað til ársins 2013, en í ákvörðunarbréfi stofnunarinnar, dags. 30. júlí 2013, sé einnig byggt á akstursheimildum frá árinu 2012. Hann hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar að honum hafi láðst að ýta á „senda“ takkann þegar hann skráði tilfallandi tekjur sínar fyrir árið 2012.

Samkvæmt skattframtalinu fyrir árið 2012 fékk kærandi samtals greiddar 200.000 kr. fyrir tímabilið júní til desember 2012.

Mál kæranda var tekið til meðferðar Vinnumálastofnunar á ný með tilliti til nýrra upplýsinga á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og með bréfi, dags. 22. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að ekki hefðu komið fram upplýsingar sem gæfu tilefni til nýrrar ákvörðunar í máli hans. Var því ákvörðun stofnunarinnar frá 30. júlí 2013 staðfest.

Í kæru, dags. 30. október 2013, gerir kærandi meðal annars athugasemdir við að svarfrestir séu ekki virtir.

Með bréfi kæranda, dags. 12. nóvember 2013, barst frekari rökstuðningur og tekið fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. júlí 2013 og auk þess krafist tafarlausrar ógildingar hennar. Verklag og vinnubrögð Vinnumálastofnunar við úrvinnslu gagna gagnvart kæranda séu jafnframt kærð. Beiting Vinnumálastofnunar á ákvæðum 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í máli þessu sé röng og hafi haft verulega íþyngjandi afleiðingar á kæranda. Niðurstaðan sé ekki í samræmi við samskipti kæranda við stofnunina.

Kærandi kærir ákvörðun Vinnumálastofnunar um stöðvun á greiðslu atvinnuleysisbóta, ákvörðun um að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum auk niðurstöðu um að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þá sé það krafa kæranda að framangreint verði ógilt og afturkallað og að viðurkennt verði að réttindi kæranda til viðtöku atvinnuleysisbóta séu uppfyllt.

Þær upplýsingar sem lagðar séu til grundvallar niðurstöðu Vinnumálastofnunar séu rangar og eigi ekki við rök að styðjast og geti verkferlar stofnunarinnar ekki talist góðir stjórnsýsluhættir.

Kærandi hafi orðið atvinnulaus í lok fyrsta ársfjórðungs 2012 og hafi þá strax haft samband við Vinnumálastofnun. Eftir einn kynningarfund með nýskráðum á atvinnuleysisskrá hafi kærandi átt samtal við fulltrúa Vinnumálastofnunar þar sem honum hafi meðal annars verið bent á þann möguleika að vinna við það að keyra leigubifreið. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að slík tilfallandi vinna gæti farið fram, samhliða móttöku fullra atvinnuleysisbóta, meðan tilfallandi tekjur væru innan ákveðinnar mánaðarlegrar fjárhæðar. Vinnumálastofnun hafi ekki kynnt kæranda neinar sérstakar reglur og alls engin „verktakaákvæði“ sem veganesti og frekari leiðbeiningar hafi ekki komið fram gagnvart því ef kærandi myndi hefja vinnu við akstur leigubifreiðar. Þar sem kærandi hafi ekki verið með svokallað „harkaraleyfi“ hafi honum verið bent á af starfsmanni Vinnumálastofnunar að hann gæti sótt um styrk til stofnunarinnar fyrir hluta af námskeiðskostnaði. Þegar ljóst hafi verið að í byrjun maímánaðar yrði haldið námskeið fyrir „harkara“ í Ökuskólanum B hafi kærandi enn á ný haft samband við Vinnumálastofnun og farið yfir þau mál sem tengdust hugsanlegum óreglulegum tekjum af vinnu við akstur leigubifreiðar sem aldrei gætu verið þekkt fyrirfram og úr hafi orðið umsókn kæranda um námskeið í Ökuskólanum. Námskeiðshaldara hafi jafnframt verið tilkynnt að 50% af námskeiðskostnaði yrðu greidd af Vinnumálastofnun ef kærandi lyki náminu. Þetta hafi gengið eftir, kærandi lauk náminu og fékk viðeigandi réttindi. Helmingur námskeiðskostnaðar var greiddur af Vinnumálastofnun.

Í júníbyrjun hafi verið gert samkomulag við leyfishafa leigubifreiðar um vinnu við akstur leigubifreiðar viðkomandi þar sem einkahlutafélagið C myndi gera leyfishafa reikning eftir á fyrir umsaminn akstur, háð því skilyrði að vinnan yrði unnin af kæranda sem réttindahafa til slíks aksturs. Engin skilyrði hafi verið sett um fyrirhugaðan akstur að neinu leyti af hálfu leyfishafa. Varðandi þetta réttarsamband aðila á Vinnumálastofnun ekki að gera kæranda íþyngjandi kosti eða kröfur. Vinnumálastofnun hafi af samtölum verið ljóst að kærandi myndi væntanlega hefja vinnu við akstur leigubifreiðar. Aðkoma Vinnumálastofnunar að því ferli hafi gefið kæranda engar ástæður til frekari upplýsingagjafa varðandi tilfallandi vinnu. Tilfallandi tekjum kæranda sem greiddar hafi verið eftir á hafi verið gerð skil svo fljótt sem auðið hafi verið á viðeigandi hátt á vefsvæði Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi því samkvæmt framansögðu sannanlega ekki brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum og meðal annars uppfyllt ákvæði í 3. mgr. 9. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar.

Í byrjun maí 2013 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun, því eftir skráningu á tilfallandi tekjum reglulega hafi kærandi engin viðbrögð stofnunarinnar séð. Þá hafi honum verið leiðbeint og bent á að skrolla niður síðuna og ýta þar á sendingarhnapp. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi sagt þetta því miður þekkt vandamál og verið væri að breyta heimasíðunni. Annað skýrara og skilmerkilegra fyrirkomulag hafi svo tekið gildi 9. september 2013 hjá Vinnumálastofnun í þessum málum, með upptöku uppfærslu á heimasíðunni. Skortur á leiðbeiningum eða aðgerðaleysi Vinnumálastofnunar gagnvart skráningum kæranda á því ekki að verða íþyngjandi fyrir kærandann. Strax 10. maí 2013 og svo reglulega eftir það hafi skýringartextinn „afgreitt“ komið inn á viðkomandi tilkynningu kæranda nokkrum dögum eftir innskráningu á tilfallandi tekjum.

Af framansögðu sé ljóst að kærandi var í nánu samráði við Vinnumálastofnun um að taka að sér vinnu við leigubifreiðaakstur og hafi kærandi reglulega haldið Vinnumálastofnun upplýstri um tilfallandi tekjur sínar í því sambandi.

Vinnumálastofnun hafi talið sig hafa verið að sinna eftirlitshlutverki sínu og í því sambandi hafi hún látið samkeyra upplýsingar. Í tilfelli kæranda hafi samkeyrslan verið við gagnagrunn Samgöngustofu þar sem geymdar séu meðal annars allar akstursheimildir útgefnar af bifreiðastjórafélaginu Frama. Samkeyrslan og sú úrvinnsla gagna sem Vinnumálastofnun noti úr umræddum gagnagrunni sé óvönduð og skýlaust brot á mörgum greinum í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, meðal annars 7. gr. og 4. mgr. þeirrar greinar. Í staðfestingu frá Frama komi skýrt fram að engar upplýsingar séu skráðar í umræddan gagnagrunn Samgöngustofu um það hvort viðkomandi akstursheimild hafi verið notuð af afleysingarmanni. Í sömu staðfestingu komi fram að tilkynningar um breytingar á fengnum akstursheimildum séu alfarið í höndum leyfishafa en ekki á ábyrgð afleysingarmanns, þ.e. kæranda í þessu máli. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 30. júlí 2013, séu í 1. mgr. talin upp mörg og mislöng tímabil og fullyrt að kærandi hafi verið að keyra leigubifreið á umræddum tíma. Hér sé opinber aðili að misnota og mistúlka upplýsingar úr gagnagrunni er varði persónuupplýsingar kæranda og setji þær fram á rangan, óáreiðanlegan og íþyngjandi hátt. Akstursheimildir geti verið gefnar út til skemmri og lengri tíma, en gildistími akstursheimildar sé líka sérstaklega skráður á ákveðna daga og innan ákveðins tímaramma.

Við þá athugasemd kæranda á niðurstöðu Vinnumálastofnunar er snerti dagsetninganotkun og á nefndri málsgrein til stofnunarinnar 3. ágúst 2013 og með svari hennar við því erindi, dags. 22. ágúst 2013, hafi andmælaréttur kæranda verið virtur að hluta en athugasemdir við misnotkun og rangtúlkun upplýsinga hunsaðar sem kærandi telji ekki góða stjórnsýslu og gæti jafnvel varðað ákvæði stjórnsýslulaga. Eins og fram hafi komið hér að framan hafi fyrirliggjandi upplýsingar verið hjá Vinnumálastofnun strax í byrjun með tillögu til kæranda um fyrirhugaða tilfallandi vinnu við leigubifreiðaakstur og eins hafi kærandi tilkynnt reglulega um tilfallandi tekjur inn á vef Vinnumálastofnunar þegar hann hafi starfað við akstur leigubifreiðar, svo um það eigi alls ekki að geta verið ágreiningur. Í athugasemdabréfi Vinnumálastofnunar til kæranda í upphafi hafi einvörðungu verið skoðað árið 2013. Kæranda hafi ekki verið gefið sambærilegt tækifæri á athugasemdum við úrvinnslu Vinnumálastofnunar á gögnum vegna ársins 2012. Kærandi bendir á að fyrsta bréf Vinnumálastofnunar til kæranda hafi verið dagsett 3. júlí 2013 og veitt kæranda frest til andmæla til 10. júlí 2013. Kærandi svaraði Vinnumálastofnun með bréfi 8. júlí 2013 en þrátt fyrir margítrekuð símtöl kæranda til Vinnumálastofnunar hafi engin svör verið komin til kæranda 1. ágúst 2013. Þann dag hafi kærandi vænst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur, en fengið í staðinn ákvörðunarbréf Vinnumálastofnunar, dags. 30. júlí 2013. Andmælum kæranda hafi ítrekað verið hafnað af Vinnumálastofnun en enn hafi kærandi ekki fengið viðbrögð við erindi sem starfsmaður stofnunarinnar hafi lofað með tölvupósti 9. september 2013.

Kærandi listar upp og gerir athugasemdir við bréf Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2013, meðal annars varðandi óvandaða stjórnsýslu og mótmælir ýmsum fullyrðingum stofnunarinnar sem áður séu framkomnar í rökstuðningi kæranda. Auk þess listar kærandi upp athugasemdir við bréf Vinnumálastofnunar, dags. 30. júlí 2013, en þær eru ítarlega raktar í rökstuðningi kæranda og er vísað til hans hvað þær varðar.

Kærandi bendir á að hann væri alls ekki á atvinnuleysisskrá ef hann hefði verið svo heppinn að fá atvinnu. Frá 1. ágúst 2013 hafi kærandi engar atvinnuleysisbætur fengið, en Vinnumálastofnun hafi þó mánaðarlega samþykkt skráningu hans varðandi staðfestingu á atvinnuleit. Þrátt fyrir mánaðarlegar tilfallandi tekjur sem Vinnumálastofnun hafi einnig tekið við upplýsingum um sé nú svo komið að kærandi hafi fengið á sig árangurslaust fjárnám þar sem ekki hafi tekist að standa straum af smá skuldum við hið opinbera.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 30. júlí 2013, sbr. bréf dags. 22. ágúst 2013, þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi honum einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun bendir á 60. gr. laganna og nefnir að annar málsliður 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.

Þá bendir Vinnumálastofnun á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafi kærandi verið við störf sem leigubifreiðastjóri á árunum 2012 og 2013 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Í skýringum kæranda og í kæru til úrskurðarnefndar hafi kærandi tekið fram að hann hafi tilkynnt stofnuninni um tilfallandi tekjur frá C á árinu 2013. Þá hafi honum láðst að ýta á „senda“ takkann eftir að hafa skráð inn tilkynning um tekjur á heimasvæðinu „mínar síður“ fyrir árið 2012. Vinnumálastofnun barst fyrst tilkynning um tekjur frá kæranda þann 10. maí 2013 vegnar janúar til apríl 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Vegagerðinni hafi kærandi fyrst verið við störf við akstur leigubifreiðar þann 2. júní 2012. Það sé mat Vinnumálastofnunar að það sé á ábyrgð kæranda að koma upplýsingum um vinnu sína til Vinnumálastofnunar. Tilkynning um vinnuna hafi ekki borist og því sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem hvíli á honum að tilkynna réttilega vinnu til stofnunarinnar.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a laganna, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum. Af þeim sökum hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda verið stöðvaðar og skuli hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laganna.

Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 1.668.283 kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Við útreikning á ofgreiddum atvinnuleysisbótum studdist Vinnumálastofnun við upplýsingar um akstursheimildir frá Vegagerðinni. Í rökstuðningi fyrir kæru hafi verið vísað til þess að Vinnumálastofnun væri að „misnota og mistúlka upplýsingar úr gagnagrunni er varða persónuupplýsingar kæranda og setur þær fram á rangan, óáreiðanlegan og íþyngjandi hátt“. Umræddar akstursheimildir eru óumdeilanlega opinber gögn og vekur Vinnumálastofnun athygli á að í þeirri staðfestingu er kærandi lagði fram samhliða kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar frá bifreiðastjórafélaginu Frama, dags. 5. nóvember 2013, sé vikið að því að leyfishafa beri að láta vita hafi heimildin ekki verið notuð. Hvorki við málsmeðferð þessa máls hjá Vinnumálastofnun né hjá úrskurðarnefndinni hafi kærandi lagt fram gögn er sýni fram á að leyfishafi hafi tilkynnt að akstursheimildin hafi ekki verið notuð. Að mati Vinnumálastofnunar hafi því verið staðið rétt að útreikningi ofgreiddra atvinnuleysisbóta í tilviki kæranda.

Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þau tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Þá veki Vinnumálastofnun athygli á að þess gerist ekki þörf að skera úr um hvort kærandi teljist vera launamaður eða sjálfstætt starfandi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi gat ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á þeim tímabilunum sem hann var við störf við akstur leigubifreiðar samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Að því er varði athugasemdir kæranda í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar um að hann hafi ekki notið andmælaréttar þar sem í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. júlí 2013, hafi honum eingöngu verið gefinn kostur á að færa fram skýringar vegna leigubifreiðaaksturs á árinu 2013 en í ákvörðunarbréfi stofnunarinnar, dags. 30. júlí 2013, sé einnig byggt á akstursheimildum frá árinu 2012. Þá bendir Vinnumálastofnun á að í bréfi, dags. 13. ágúst 2013, hafi kærandi tekið ofangreint fram og bent á að hann hafi skráð inn tilfallandi tekjur fyrir árið 2012 á heimasvæðinu „mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar en honum hafi láðst að senda tilkynninguna inn með því að ýta á „senda“. Þá hafi hann á tímabilinu júní til desember 2012 fengið greidd laun að fjárhæð 200.000 kr. frá C. Lágu því skýringar kæranda vegna leigubifreiðaaksturs á árinu 2012 fyrir þegar mál hans var tekið til endurumfjöllunar á fundi stofnunarinnar þann 21. ágúst 2013. Að því sögðu sé það mat Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið brotið á andmælarétti kæranda í máli þessu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. febrúar 2014.

Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 20. febrúar 2014, þar sem kærandi ítrekar fyrri athugasemdir og gerir meðal annars athugasemdir við það að Vinnumálastofnun virði ekki fresti sem henni séu gefnir.

Kærandi bendir á að í greinargerð Vinnumálastofnunar hafi verið vísað í bréf frá Frama, dags. 5. nóvember 2013. Umrætt bréf beri það skýrt með sér að þar sé þriðji aðili að skrá upplýsingar við útgáfu akstursheimildar. Sami aðili, þ.e. leyfishafi, sé síðan einn um það að skrá leiðréttingar. Afleysingamaður, í þessu tilfelli kærandi, hafi enga aðkomu að umræddu skráningarferli. Notkun Vinnumálastofnunar á persónuupplýsingum úr umræddum gagnagrunni hafi verið mótmælt til Persónuverndar sem með takmörkuðum úrskurði sínum hafi upplýst það sem kærandi var einnig búinn að vitna til að Vinnumálastofnun væri heimilt að afla upplýsinga um kæranda frá Vegagerðinni í þeim tilgangi að rækja lögboðið hlutverk sitt. Kærandi hafi sent umræddan úrskurð til umboðsmanns Alþingis þar sem kvartað sé yfir úrskurði Persónuverndar á ófaglegri úrvinnslu Vinnumálastofnunar á persónuupplýsingum úr óáreiðanlegum gögnum af lélegum gæðum. Notkun og mistúlkun Vinnumálastofnunar við úrvinnslu úr ofangreindum gagnagrunni falli illa að 7. og 35. gr. laga nr. 77/2000 varðandi öryggi, áreiðanleika og gæði þeirra gagna sem unnið sé með.

Á „mínum síðum“ Vinnumálastofnunar síðastliðið haust hafi stofnunin auglýst að nýjar „mínar síður“ yrðu teknar í notkun 9. september. Í auglýsingunni hafi sagt að nýju síðurnar væru einfaldari í notkun en þær fyrri og auðveldara bæði að sjá upplýsingar og koma þeim til skila. Þetta sé í samræmi við þær upplýsingar sem kærandi hafi fengið hjá Vinnumálastofnun vegna þeirrar ambögu sem margir höfðu lent í við að staðfesta með því að skrolla neðst á síðuna. Nýja viðmótið sé gerbreytt og skráning á tilfallandi tekjum bæði auðveldari og án þess að þurfa að skrolla.

Jafnframt bendir kærandi á að afrit samskipta séu gott innlegg en þó sakni kærandi þess að ekki sé vitnað til allra heimsókna og símtala.

Í atvinnuleysi sínu hafi kærandi aldrei neitað því að hafa haft óreglulegar tilfallandi tekjur frá C vegna aksturs leigubifreiðar. Þvert á móti hafi slíkt reglulega verið tilkynnt til Vinnumálastofnunar og viðkomandi skattyfirvöldum. Kærandi vísi því ásökunum Vinnumálastofnunar um óheiðarleika í samskiptum árið 2013 alfarið á bug og óski þess að njóta fullra, löglegra og óskertra réttinda meðan á atvinnuleysinu standi.

Með bréfi kæranda, dags. 28. mars 2014, bárust enn frekari athugasemdir hans þar sem fyrri rökstuðningur var ítrekaður.

2. Niðurstaða

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 3. júlí 2013, var honum tilkynnt að stofnunin hefði á grundvelli heimildar í 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar aflað gagna frá Vegagerðinni um aðila sem starfað hefðu við akstur leigubifreiða í afleysingum og að samkvæmt þeim hefði kærandi starfað við akstur leigubifreiða á árinu 2013 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu var kæranda veittur frestur til þess að skila inn skýringum og athugasemdum vegna þess sem fram kom í bréfinu skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. júlí 2013, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði tekið ákvörðun á grundvelli 60. gr. laganna að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta þar sem hann hefði verið að keyra leigubifreið samhliða töku atvinnuleysisbóta og tilgreindi stofnunin tímabil bæði á árinu 2012 og 2013.

Í kæru sinni og frekari athugasemdum sínum gerði kærandi verulegar athugasemdir við það að Vinnumálastofnun hefði ekki tilgreint í bréfi sínu, dags. 3. júlí 2013, að það væri verið að gera athugasemdir um tilfallandi tekjur árið 2012, heldur aðeins vegna ársins 2013 og þannig hefði hann ekki notið andmælaréttar vegna ársins 2012.

Vinnumálastofnun viðurkenndi í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að vegna mistaka hefði farist fyrir að tilgreina í bréfi sínu, dags. 3. júlí 2013, að einnig væri átt við akstur árið 2012, en ekki eingöngu árið 2013. Jafnframt benti Vinnumálastofnun á að kærandi hefði í bréfi sínu til stofnunarinnar, dags. 13. ágúst 2013, greint frá því að hann hefði skráð inn tilfallandi tekjur fyrir árið 2012 en láðst að ýta á „senda“ og hann hafi auk þess fengið laun að fjárhæð 200.000 kr. frá C vegna leigubifreiðaaksturs á árinu 2012.

Vinnumálastofnun fór með bréf kæranda, dags. 13. ágúst 2013, sem endurupptökubeiðni og var erindi hans svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. ágúst 2013, þar sem honum var tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

Eins og fram hefur komið kynnti Vinnumálastofnun kæranda að mál hans væri til skoðunar hjá stofnuninni og vísaði til ársins 2013, sbr. bréf dags. 3. júlí 2013. Ákvörðun var síðan tilkynnt kæranda um að fella niður atvinnuleysisbætur til hans sem og bótarétt og hann krafinn um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta fyrir bæði árin 2012 og 2013, sbr. bréf dags. 30. júlí 2013. Þessa ákvörðun sína endurskoðaði Vinnumálastofnun og tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 22. ágúst 2013, að ákvörðunin væri staðfest. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að með bréfi sínu, dags. 13. ágúst 2013, hafi kærandi þannig fengið kost á að koma andmælum sínum við tilfallandi tekjur vegna beggja áranna 2012 og 2013 á framfæri, enda hafi verið vísað til bréfs Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2013, þar sem eingöngu var fjallað um árið 2013. Þá þegar hefði Vinnumálastofnun verið í lófa lagið að gefa kæranda kost á að njóta andmælaréttar varðandi tilfallandi tekjur fyrir árin 2012 og 2013. Er því óhjákvæmilegt annað en að ógilda ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. júlí 2013 og heimvísa máli þessu til meðferðar Vinnumálastofnunar á ný.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. júlí 2013 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er ógild og er málinu heimvísað til meðferðar Vinnumálastofnunar á ný.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta