Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 135/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 135/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. nóvember 2013, kærði A, hér eftir nefndur kærandi, þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að afskrá hann af atvinnuleysisskrá á meðan hann sinnti störfum sem verktaki. Kærandi sækist eftir að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur í tímann annars vegar vegna tímabilsins frá 13. ágúst til 11. október 2013 en þá hafði hann verið tekinn af atvinnuleysisbótaskrá vegna verktakavinnu sem stóð 17 daga á því tímabili, og hins vegar vegna tímabilsins frá 23. september til 5. nóvember 2013 þegar kærandi vann tvo klukkutíma á viku. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 9. júní 2013 og reiknaðist bótaréttur hans 43%.

Í ágúst 2013 tjáði kærandi Vinnumálastofnun að hann myndi taka að sér tímabundna verktakavinnu. Var kæranda sagt að hann yrði afskráður af atvinnuleysisskrá og að hann þyrfti að koma strax og verktakavinnu hans væri lokið til að skila afritum af reikningum og til að skrá sig aftur hjá stofnuninni. Kærandi skráði sig aftur atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun 11. október 2013. Einnig skilaði hann afriti af reikningi vegna vinnu sinnar. Kærandi var ekki afskráður aftur af atvinnuleysisskrá þrátt fyrir að hann hafi tekið að sér verktakavinnu á tímabilinu enda kærði kærandi mál sitt til úrskurðarnefndarinnar áður en Greiðslustofa Vinnumálastofnunar hafði móttekið reikninga vegna starfa hans.

Í kæru, dags. 12. nóvember 2013, greinir kærandi frá því að hann hafi fengið verktakavinnu sem óvíst var hversu lengi myndi standa og hversu langt yrði milli einstaka vinnudaga. Kærandi fékk aðeins að vita kvöldið áður hvort hann færi að vinna og var úr símasambandi þann dag frá um kl. 5 að morgni til kl. 18 að kvöldi. Kærandi sendi tvo pósta og hringdi til að afla sér upplýsinga um hvernig hann ætti að snúa sér í þeim málum og var sagt að hann ætti að láta vita þegar verkefninu væri lokið. Á tímabilinu 13. ágúst til 11. október vann kærandi 17 virka daga og að þeim loknum gerði hann reikning sem hann skilaði til Vinnumálastofnunar. Eftir að þessu var lokið fór kærandi á starfsleitarfund þar sem hann spurði frekar út í þetta og var þá sagt að hann hefði þurft að skila inn reikningi eftir hvern dag í vinnu. Þær upplýsingar hafði kærandi ekki fengið áður, þrátt fyrir að hafa lagt sig fram við að fá allar þær upplýsingar sem hann þyrfti til að fylgja reglunum nákvæmlega. Í þessari vinnu, þar sem hann starfaði sem aukaleikari í kvikmynd, var ekki í boði að gera reikning eftir hvern dag, þau hafi ekki einu sinni fengið að skrifa undir samning fyrr en eftir að verkefninu var lokið, en slík vinnubrögð tíðkist í þeim bransa og það var ekkert sem kærandi gat gert í því. Eftir þetta tók kærandi að sér verkefni þar sem hann var með kennslu fyrir börn einn dag í viku, tvo tíma í senn og var svo gerður reikningur þegar því verkefni var lokið. Sú vinna stóð frá 23. september til 5. nóvember 2013. Þegar kærandi komst að því hvernig verktakavinnureglur séu hjá Vinnumálastofnun var einungis eitt skipti eftir af sex og því þorði kærandi ekki einu sinni að taka við greiðslu fyrir þann dag og vann hann launalaust.

Nú standi kærandi frammi fyrir því að hafa ekki fengið neinar bætur á þessu tímabili vegna þess að hann fékk ekki nægar eða réttar upplýsingar og vegna þess að orðalagið sé ekki nógu skýrt, en þar sé sagt að hann eigi að skila inn reikning „þegar verkefni er lokið“. Hefði kærandi vitað þetta fyrirfram sé ólíklegt að hann hefði tekið að sér nokkur verkefni og þá mögulega setið heima auðum höndum frekar en að vinna, en það þyki kæranda ekki í anda atvinnuleitar og ekki gott fyrir traustið í áframhaldandi atvinnuleit.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Lög um atvinnuleysistryggingar geri greinarmun á því hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur sé launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hvað varðar skilyrði fyrir töku trygginganna. Fram komi í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar að ástæða þyki að gera greinarmun á þessum hópum vegna eðlismunar á starfstengdum skilyrðum þeirra.

Ljóst sé að verktakavinna sú sem kærandi hafði tekið að sér falli undir framangreinda skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingum. Í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt f- og g-liðum 18. gr. laganna sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklings að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu þess efnis, sbr. 20. og 21. gr. laganna. Í samræmi við 21. gr. laganna telji Vinnumálastofnun nægilegt að umsækjendur skili staðfestingu á lokun launagreiðendaskrá frá ríkisskattstjóra. Í 20. gr. laganna komi meðal annars fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Sé Vinnumálastofnun falið að meta hvort rekstri hafi sannarlega verið lokið með athugun á hreyfingum í virðisaukaskattskrá ríkisskattstjóra.

Af framangreindum lagaákvæðum leiði að ekki sé heimilt að stunda verktakavinnu samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og viðhafi því Vinnumálastofnun það verklag að afskrá atvinnuleitendur af atvinnuleysisskrá þann dag sem verktakavinna fari fram óháð lengd vinnunnar. Því skuli atvinnuleitandi vera afskráður heilan dag þrátt fyrir að verktakavinna vari skemur en átta klukkustundir.

Í þeim tilfellum sem atvinnuleitandi taki að sér tilfallandi vinnu sem launamaður í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé hann ekki afskráður af atvinnuleysisskrá heldur séu tekjur vegna tilfallandi vinnu dregnar frá rétti atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta í samræmi við 36. gr. laganna. Stafi þessi munur á verklagi stofnunarinnar af þeim greinarmun sem gerður sé í lögum um atvinnuleysistryggingar á launamönnum, sbr. a-lið 3. gr. laganna, og sjálfstætt starfandi einstaklingum, sbr. b-lið 3. gr. laganna, hvað varði skilyrði þessara aðila fyrir töku atvinnuleysisbóta.

Það sé skilyrði að atvinnuleitandi vinni ekki sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samhliða töku atvinnuleysisbóta, sbr. f- og g-liði 18. gr., 20. gr. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lögin geri hins vegar atvinnuleitendum kleift að vinna sem launamenn samhliða töku atvinnuleysisbóta með þeim takmörkunum sem kveðið sé á um í 36. gr. laganna.

Þá bendi Vinnumálastofnun á að í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé launamönnum gert kleift að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða hlutastarfi í minnkuðu starfshlutfalli. Í 22. gr. laganna sé sambærileg heimild sett handa sjálfstætt starfandi einstaklingum. Komi þar skýrt fram að ákvæðið eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi ræður sig í starf sem launamaður. Hlutastarfsákvæði laganna eigi því ekki við þegar atvinnuleitandi tekur starfi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur eða starfar á eigin kennitölu. Ákvæði laganna eigi einungis við um störf atvinnuleitanda í þágu annarra sem launamenn. Atvinnuleitendum sé því óheimilt að vinna verktakavinnu á eigin kennitölu samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Beri atvinnuleitendum því að afskrá sig af atvinnuleysisskrá á meðan slík vinna fari fram.

Kærandi hafi tekið að sér verktakavinnu á þeim tíma er hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta og í samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar var hann afskráður þá daga sem vinnan fór fram.

Hvað varði fyrra tímabil sem kærandi hafi gert kröfu um að fá greitt fyrir, þ.e. frá 13. ágúst til 11. október 2013 þá liggi fyrir að kærandi var afskráður þann 13. ágúst 2013 vegna verktakavinnu sem hann hafi tilkynnt til Vinnumálastofnunar. Honum hafi verið tjáð að hann yrði afskráður og að hann þyrfti að koma aftur til stofnunarinnar um leið og vinnu hans væri lokið. Í samskiptafærslu úr tölvukerfi Vinnumálastofnunar 13. ágúst 2013 segi: „Þú þarft svo að koma fyrsta virkadag [sic] eftir að verktakavinnu lýkur og skila afriti af reikningi sem þú skrifar út vegna verkefnis. Þú ert afskráður á meðan á verkefni stendur.“ Kærandi hafi næst mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 11. október 2013. Hann hafi skilað afriti af reikningi vegna vinnu sinnar. Reikningurinn, sem dagsettur sé 9. október 2013, hafi hljóðað upp á 717.500 kr. fyrir a.m.k. 17 daga vinnu auk æfinga um helgar. Verði ekki ráðið af reikningi fyrir hvaða daga kærandi hafi verið að vinna við umrætt verkefni. Atvinnuleitandi hafi verið skráður aftur inn á skrá Vinnumálastofnunar þegar hann mætti á skrifstofu stofnunarinnar. Kærandi hafi ekki fengið greitt frá 14. ágúst til 10. október 2013 enda hafi hann verið afskráður á þeim tíma. Engin skerðing hafi orðið á atvinnuleysisbótum kæranda vegna tekna fyrir það tímabil sem hann hafi verið við vinnu. Þá bendi Vinnumálstofnun einnig á að hefði kærandi starfað sem launamaður á umræddu tímabili þá hefðu tekjur hans skert atvinnuleysisbætur hans að fullu þann mánuðinn, sbr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Hvað varði síðara tímabilið sem kærandi hafi gert kröfu um að fá greitt fyrir, þ.e. frá 23. september til 5. nóvember 2013, telji Vinnumálastofnun kröfugerð kæranda óljósa. Í fyrsta lagi skarist sá tími við það tímabil sem fyrr hafi verið fjallað um. Þá liggi fyrir, sbr. greiðslusögu kæranda, að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 11. október 2013 og út þann mánuð. Þá hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við bótarétt fyrir allan nóvembermánuð 2013. Þar sem Vinnumálastofnun hafi þegar greitt atvinnuleysisbætur til kæranda fyrir það tímabil sem um ræði verði ekki séð að kærandi eigi rétt á tvöföldum greiðslum bóta fyrir eina og sama tímabilið.

Þegar kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun eftir að síðara verkefni hans lauk, 12. nóvember 2013, hafi hann fært fram afrit af reikningum til stofnunarinnar. Áður en Vinnumálastofnun hafi tekið mál hans til afgreiðslu hafi máli kæranda verið skotið til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun hafi hvorki tekið ákvörðun um afskráningu þá daga sem síðar tilkomnir reikningar hljóði upp á né óskað eftir upplýsingum um afdrif reiknings nr. 3. Hafi kærandi því fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 11. október 2013.

Í ljósi þess sem að framan hafi verið rakið um heimild atvinnuleitanda til að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða því að vinna verktakavinnu á eigin kennitölu fái Vinnumálastofnun ekki séð að kærandi geti gert kröfu um greiðslur frá stofnuninni fyrir sama tímabil og hann vann umrædd störf.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. febrúar 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. febrúar 2014, var kæranda tilkynnt að afgreiðsla málsins myndi tefjast vegna gríðarlegs fjölda kærumála hjá nefndinni og að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

2. Niðurstaða

Fyrir liggur í máli þessu að kærandi upplýsti Vinnumálastofnun um að hann hafi fengið launað verkefni í „leikarabransanum“, sbr. tölvupóst hans til starfsmanns Vinnumálastofnunar, dags. 13. ágúst 2013. Í svarbréfi starfsmannsins til kæranda kom fram að hann yrði „afskráður á meðan á verkefni stendur“. Með hliðsjón af þessu svari gat kærandi vart vænst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hann var ekki skráður á atvinnuleysisskrá. Engan reka gerði kærandi heldur í sínum málum gagnvart Vinnumálastofnun fyrr en 11. október 2013 þegar hann óskaði eftir því að fara aftur á atvinnuleysisskrá.

Með hliðsjón af þessum málavöxtum er óumflýjanlegt annað en að álykta sem svo að kærandi hafi ekki verið atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 13. ágúst til 11. október 2013. Jafnframt verður talið að Vinnumálastofnun hafi veitt honum fullnægjandi leiðbeiningar að þessu leyti. Því til viðbótar skal þess getið að víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunarinnar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna hlutastarfs og tilfallandi tekna.

Í ljósi framanritaðs, og þeim rökstuðningi sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, er sú niðurstaða staðfest að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 13. ágúst til 11. október 2013. Varðandi seinna tímabilið sem kært er, þ.e. 23. september til 5. nóvember 2013, gerir Vinnumálastofnun athugasemd varðandi það að tímabilið skarast við fyrra tímabilið og jafnframt hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur út októbermánuð í samræmi við rétt sinn frá því að hann skráði sig aftur þann 11. október 2013. Þá hefur Vinnumálastofnun eins og greint er frá í greinargerð hennar ekki tekið ákvörðun um afskráningu þá daga sem síðari reikningar hljóði upp á, enda hefur kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 11. október 2013. Þeirri fullyrðingu Vinnumálastofnunar hefur kærandi ekki mótmælt. Þessum lið kærunnar verður því vísað frá.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A að skrá hann af atvinnuleysisskrá frá 13. ágúst til 11. október 2013 er staðfest.

Kröfu kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 23. september til 5. nóvember 2013 er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta