Hoppa yfir valmynd
1. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 139/2013

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. ágúst 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 139/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 12. september 2013 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Tekin hafi verið sú ákvörðun, vegna ótilkynntrar ferðar erlendis 22.–27. ágúst 2013, að fella niður bótarétt kæranda frá og með 16. september 2013 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi óskaði einnig eftir því að fá upplýsingar um það hver tilkynnti um ferð hennar til útlanda. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 11. febrúar 2011.

Vinnumálastofnun bárust upplýsingar í ágúst 2013 um að kærandi hafi farið til útlanda í mánuðinum. Með bréfi, dags. 27. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um þessar upplýsingar og henni gefinn sjö daga frestur til þess að skila inn skýringum á því. Vinnumálastofnun bárust skýringar 3. september 2013 frá eiginmanni kæranda. Fram kom að þau hefðu farið til Svíþjóðar í skyndi til þess að ná í muni sína. Hafi það gerst með miklum hraða og þeim yfirsést að tilkynna ferðina til Vinnumálastofnunar. Þar sem hann sé öryrki og talsvert af munum hafi þurft að flytja með heim hafi konan hans farið með í ferðina. Hún hafi á þessum tíma verið búin að fá vilyrði fyrir vinnu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði dregin til baka. Hún kveðst hafa unnið hjá fyrirtækinu sem hún hafi farið í atvinnuviðtal hjá 11. ágúst 2013 í þrjár vikur en þar sem fyrirtækið hafi verið að leita að öðruvísi starfskrafti hafi þetta ekki gengið upp og hún sé því miður aftur komin í hóp atvinnuleitenda á B, sem sé ekki létt. Hún hafi misst vinnu sína hjá C í niðurskurðaraðgerðum og hafi hún sótt um vinnu víða á B.

Kærandi krefst þess einnig að fá allar upplýsingar sem hana varða og Vinnumálastofnun hafi undir höndum, svo sem nafn þess sem tilkynnti dvöl hennar erlendis. Hún hafi verið í sambandi við Persónuvernd og hafi þar fengið þær upplýsingar að það sé réttur hennar að fá þær upplýsingar sem stofnanir liggi með og varði hana.

Kærandi segir að ástæðan fyrir ferð hennar til útlanda hafi verið sú að eiginmaður hennar hafi verið í útlöndum í atvinnuleit 2012, en þurft að snúa heim vegna heilsubrests og hafi fengið kunningja sinn til þess að geyma eigur sínar sem hann hafi haft meðferðis og ekki haft tök á að taka með heim. Það hafi verið komin pressa á hann að losa eigurnar úr geymslu viðkomandi og þar sem komið hafi tilboð frá ferðaskrifstofu á ódýru fargjaldi hafi þau ákveðið að kaupa tvo miða og hafi hún farið með honum þar sem hann væri ekki í líkamlegu ástandi til þess að bera þunga hluti.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. janúar 2014, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysisbóta þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda ber skylda til þess að upplýsa Vinnumálstofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans eða annað sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi meðal annars fram að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálstofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar, komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar segir að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða. Fyrir liggi í máli þessu að kærandi hafi verið stödd í erlendis á tímabilinu 22.–27. ágúst 2013. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun greinir frá því að í skýringarbréfi til stofnunarinnar hafi kærandi sagt að hún hafi þurft að fara skyndilega úr landi og gleymt að tilkynna ferðina til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun bendi á að kærandi hafi staðfest atvinnuleit sína á heimasvæðinu mínar síður á vef Vinnumálastofnunar 21. ágúst 2013, deginum fyrir brottför, en engar athugasemdir um fyrirhugaða ferð hafi borist með staðfestingunni.

Vinnumálastofnun bendir á að á kynningarfundum hjá stofnuninni sé vakin athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi og að ótilkynntar ferðir til útlanda séu óheimilar meðfram töku atvinnuleysisbóta. Þessar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá vekur stofnunin athygli á því að í þeim tilvikum sem stofnuninni er tilkynnt um slíkar ferðir fyrirfram sé atvinnuleitanda gerð grein fyrir því að, nema fyrir liggi U-2 vottorð hjá stofnuninni, fái hann ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hann dveljist erlendis.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er hafi haft bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, 16. september 2013, skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009, 3. gr. laga nr. 153/2010 og 14. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að skv. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi stödd erlendis á tímabilinu 22.–27. ágúst 2013, en tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrirfram að hún yrði ekki stödd á landinu á umræddu tímabili. Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram að henni hafi yfirsést að láta vita um brottför sína af landinu, einkum vegna þess að hún og eiginmaður hennar hafi farið í umrædda för í miklum flýti.

Fram hefur komið í máli Vinnumálastofnunar að veittar séu upplýsingar um að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi á kynningarfundum stofnunarinnar. Einnig verður til þess að líta að tíðkanlegt er að launþegar upplýsi vinnuveitendur sína um fjarvistir vegna dvalar erlendis en réttarsamband atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar er um sumt eðlislíkt því sem er á milli launþega og vinnuveitanda. Þessu til viðbótar hafa um nokkurt skeið verið veittar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, verður fallist á að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn, er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrirfram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna, en það ákvæði er fortakslaust og í því felst að hvorki Vinnumálastofnun né úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur tekið ákvörðun um vægari viðurlög í máli kæranda en ákvæðið felur í sér.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði frá 16. september 2013 staðfest.

Kærandi krefst þess einnig að fá upplýsingar um nafn þess sem tilkynnti um för hennar til útlanda. Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að umrædd tilkynning hafi borist símleiðis nafnlaust til Vinnumálastofnunar. Símtöl séu ekki hljóðrituð þannig að stofnuninni sé ekki unnt að nafngreina tilkynnanda. Líta verður svo á að þessi rökstuðningur Vinnumálastofnunar sé ígildi rökstuðnings stjórnvalds á grundvelli 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þar sem rökstuðningurinn kom seint fram verður litið framhjá reglum um kærufrest, sbr. 2. mgr. 19. gr. sömu laga. Þrátt fyrir þetta verður ekki séð að úrskurðarnefndin geti endurskoðað meðferð málsins að þessu leyti enda liggja ekki fyrir upplýsingar um hver tilkynnti Vinnumálastofnun um för kæranda til útlanda. Kröfu kæranda verður því hafnað.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. september 2013 í máli A þess efnis að fella skuli niður bótarétt hennar frá og með 16. september 2013 í tvo mánuði er staðfest.

Þeirri kröfu kæranda er hafnað að fá upplýsingar um nafn þess sem tilkynnti um dvöl hennar í útlöndum.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta