Hoppa yfir valmynd
10. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 10. júní 2014 var tekið fyrir mál nr. 10/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með tölvupósti þann 24. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 5. mars 2014, um útreikning vaxta og að fella ekki niður 15% álag vegna ofgreiðslu.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 21. desember 2012 lagði kærandi fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála vegna ákvörðunar Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. nóvember 2012, um að kærandi skyldi endurgreiða Fæðingarorlofssjóði hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir júlí 2012. Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. ákvað úrskurðarnefndin að vísa ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs aftur til sjóðsins til nýrrar málsmeðferðar, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 14. nóvember 2013 í máli nr. 104/2012. Þeirri málsmeðferð lauk með nýrri ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 18. febrúar 2014, þar sem honum var tilkynnt um lækkun á fyrri kröfu, úr 40.991 krónu í 7.585 krónur með 15% álagi, og að sjóðurinn myndi endurgreiða honum það sem hann hefði ofgreitt ásamt vöxtum. Með bréfi til kæranda, dags. 5. mars 2014, hafnaði Fæðingarorlofssjóður því að fella niður 15% álag vegna endurkröfunnar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála með tölvupósti þann 24. mars 2014. Með bréfi, dags. 16. apríl 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 7. maí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. maí 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi er ósáttur við vaxtaútreikning Fæðingarorlofssjóðs og telur reglur sjóðsins gallaðar. Sjóðurinn reikni 15% álag á endurkröfur en greiði lágmarksvexti, um 4% ársvexti, ef hann misreikni sig og innheimti of mikið. Það hljóti að gilda sömu reglur fyrir báða aðila í þessum viðskiptum, annað sé klárt brot á öllum viðskiptareglum og lögum sem komi ekki til með að standast skoðun dómstóla.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vegna málsins kemur fram að sjóðurinn hafi endurskoðað mál kæranda til samræmis við álit setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. Endurskoðunin hafi leitt til lækkunar á fyrri kröfu sjóðsins úr 40.991 krónu í 7.585 krónur með 15% álagi. Upphaflega krafan, 40.991 króna, hafi verið greidd í ágúst 2013 en Fæðingarorlofssjóður hafi endurgreitt kæranda mismun á 40.991 krónu og 7.585 krónum ásamt vöxtum í samræmi við 5. mgr. 15. gr. a. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), alls 34.133 krónur.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að á viðmiðunartímabili kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hans verið 703.485 krónur á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að fæðingu barnsins hafi þau lækkað í 537.335 krónur. Það hafi verið miðað við viðmiðunarlaun kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 10. mgr. 13. gr. og sé það honum til hagsbóta.

Í júlí 2012 hafi kærandi fengið greiddar 159.000 krónur úr Fæðingarorlofssjóði og því hafi honum verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem næmi mismun á 703.485 krónum og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs eða 544.485 krónur án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjónum, sbr. 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK fyrir júlí 2012 hafi kærandi þegið 562.072 krónur í laun. Hann hafi því fengið 17.587 krónum hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og því bæri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir júlí 2012 sé því 6.595 krónur að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt ákvæðinu skuli leggja álagið á óháð huglægri afstöðu eða ásetningi foreldris og foreldri verði að færa fyrir því rök að því verði eigi kennt um annmarkann eigi að fella það niður. Samkvæmt gögnum málsins megi rekja þær háu greiðslur sem kærandi hafi þegið í júlí 2012 til yfirvinnu seinni hluta þess mánaðar. Verkefni hafi beðið kæranda, verið aðkallandi og ekki þolað neina bið. Ofgreiðslan sé því komin til vegna mikillar vinnu kæranda í mánuðinum sem leiði til þess að greiðslur frá vinnuveitanda sem séu hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltali heildarlauna komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Að mati Fæðingarorlofssjóðs sé því ekki tilefni til að fella niður álagið, alls 989 krónur.

Í 5. mgr. 15. gr. a. ffl. komi fram að hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda beri Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem hafi verið vangreidd ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð hafi verið í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Vextir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði og birti á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama eigi við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiði til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falli vextir niður.

Í samræmi við framangreint hafi kæranda verið ákvarðaðir vextir af 33.406 krónum sem sé sú fjárhæð sem hafi verið í vörslu Fæðingarorlofssjóðs frá 1. ágúst 2013 til 4. mars 2014, alls 216 daga. Vaxtaprósenta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið 4,60% og reiknist vaxtafjárhæðin því þannig: 33.406 krónur * 4,60% * 216/365 = 909 krónur. Af þeirri fjárhæð hafi 182 krónur verið dregnar af í fjármagnstekjuskatt og hafi vaxtagreiðslan því verið 727 krónur. Heildargreiðsla til kæranda þann 4. mars 2014 hafi því verið 34.133 krónur.

 

IV. Niðurstaða

Með úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála frá 14. nóvember 2013 í máli nr. 104/2012 var ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, um endurkröfu á hendur kæranda vegna hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir júlí 2012, vísað aftur til sjóðsins til nýrrar málsmeðferðar. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2014, tilkynnti Fæðingarorlofssjóður kæranda um lækkun á fyrri kröfu og að sjóðurinn myndi endurgreiða honum það sem hann hafi ofgreitt ásamt vöxtum. Með bréfi, dags. 5. mars 2014, hafnaði sjóðurinn að fella niður 15% álag vegna endurkröfunnar.

Kröfur kæranda verða skildar svo að hann geri annars vegar athugasemd við 15% álag á þá greiðslu sem hann fékk ofgreidda frá Fæðingarorlofssjóði og hins vegar við vaxtaútreikning vegna þess fjár sem hann ofgreiddi. Verður fyrst vikið að umræddu álagi.

Samkvæmt 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, en úrskurðarnefndin hefur miðað við almanaksmánuði í þessu sambandi. Þar sem kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í júlí 2012 var honum einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismuni meðaltals heildarlauna hans eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Úrskurðarnefndin telur að Fæðingarorlofssjóður hafi réttilega borið endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð 703.485 krónur. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við 53% fæðingarorlof í júlí 2012 að fjárhæð 159.000 krónur. Kæranda var því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð 544.485 krónur í júlí 2012 án þess að það hefði áhrif á greiðslur fæðingarorlofssjóðs. Er þessi túlkun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð 562.072 krónur í júlí 2012. Kærandi þáði því hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði en honum var heimilt lögum samkvæmt fyrir júlí 2012. Í 15. gr. a. ffl. er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Þá segir jafnframt að fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Með umsókn kæranda um fæðingarorlof veitti hann ýmsar upplýsingar vegna fyrirhugaðs orlofs. Í umsókninni er feitletraður og undirstrikaður texti með yfirlýsingu umsækjanda um að hann heimili Vinnumálastofnun að afla gagna úr skattskrám og að hann sé upplýstur um að þessi gögn verði notuð til eftirlits. Þá segir orðrétt: „Með undirskrift minni staðfesti ég einnig að láta Fæðingarorlofssjóð vita um allar breytingar sem kunna að hafa áhrif á afgreiðslu umsóknar þessarar og/eða greiðslur samkvæmt henni.“ Í umsókninni gaf kærandi engar upplýsingar um tekjur og ekki er þar tekið fram að breytingar á þeim séu á meðal þess sem tilkynna beri um. Í framhaldi af þessari umsókn var kæranda send greiðsluáætlun þar sem sérstaklega var tiltekið að greiðslur sjóðsins miðist við „hlutfall af meðaltekjum þínum samkvæmt skrám skattyfirvalda á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur 6 mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns“ og var því beint til kæranda að yfirfara upplýsingar um tekjur á þessu tímabili sem fylgdu áætluninni. Í smáu letri sem fylgdi kom fram að yrðu „breytingar á lágmarksgreiðslu, skatthlutfalli, persónuafslætti eða öðrum forsendum sem hafa áhrif á greiðslur geta fjárhæðir breyst“. Hvergi var á hinn bóginn minnst á breytingar á tekjum eftir að umræddu tímabili lauk eða að þær gætu skipt máli. Þegar þessi samskipti kæranda og stjórnvaldsins eru skoðuð heildstætt er útilokað að leggja ábyrgðina á því að kærandi upplýsti ekki sjóðinn um breyttar tekjur sínar á kæranda. Verður því hafnað að leggja 15% álag á endurgreiðsluna.

Í 5. mgr. 15. gr. a. ffl. kemur fram að hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda beri Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Vextir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði og birti á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama eigi við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.

Kærandi er ósáttur við vaxtaútreikning Fæðingarorlofssjóðs og telur að sömu reglur eigi að gilda um ofgreiðslu og vangreiðslu. Í 5. mgr. 15. gr. a. ffl. er skýrt kveðið á um við hvaða vexti skal miða þegar um vangreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði er að ræða. Samkvæmt endurútreikningi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. febrúar 2014, var endurkrafa vegna ofgreiðslu lækkuð og kærandi fékk greidda vexti af fjárhæð sem var í vörslu sjóðsins frá 1. ágúst 2013 til 4. mars 2014. Að mati úrskurðarnefndarinnar er endurútreikningur Fæðingarorlofssjóðs og greiðsla vaxta vegna vangreiðslu í samræmi við ffl. og gerir nefndin ekki athugasemdir við afgreiðslu sjóðsins í máli kæranda. Endurútreikningur Fæðingarorlofssjóðs frá 18. febrúar 2014 er því staðfestur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Endurútreikningur Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. febrúar 2014, í máli A er staðfestur. Synjun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. mars 2014, um niðurfellingu 15% álags vegna ofgreiðslu er felld úr gildi.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta